14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um það, að nauðsynlegt sé að lögfesta það ákvæði, sem hér er um að ræða, og vil veita mitt lið til þess, að það fái sem hraðasta afgreiðslu í gegnum þessa hv. þd.

En í framhaldi af umr., sem átt hafa sér stað hér á Alþ. undanfarna daga um þetta bráðabirgðasamkomulag og á meðal almennings, eins og eðlilegt er í slíku stórmáli, þá hafa komið upp efasemdir, sem ég hugsa, að sé nauðsynlegt að hreinsa til um einnig í framhaldi af þeim umr., sem hér hafa nú farið fram. Það er, hve löng er hugsanleg biðskylda íslensks varðskips eftir hinu breska til þess að kynna sér aðstæður. Nú vitum við ósköp vel að veðurfar á Íslandi og aðstæður eru hér ákaflega misjafnar, sérstaklega um vetrartímann, og það getur verið vissum erfiðleikum bundið að halda sjó úti í misjöfnum veðrum einungis til þess að bíða eftir því, að skip, sem er statt á gagnstæðum hluta landsins komi til að kynna sér aðstæður á tökustaðnum. Ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt, ekki síst vegna almenningsálitsins, að það sé gert um það eitthvert samkomulag, hve löng þessi biðskilda skuli vera. Meira að segja geta verið gerbreyttar aðstæður frá því, að skipið er tekið, og þangað til hið hugsanlega gæsluskip breska flotans væri komið á staðinn. Og þá er það ástand, sem þá ríkir, sem hinn breski mundi væntanlega standa á eða telja vera óbreytt ástand frá því; að hann var tekinn. Um þetta gætu verið endalausar deilur, það þekkjum við frá sögu undanfarinna ára, hvað þá heldur eftir þau átök, sem átt hafa sér stað á miðunum að undanförnu. Ef hæstv. ráðh. gæti með einhverju móti gefið upp, hve löng sú biðskylda er, tel ég málsins vegna og bráðabirgðasamkomulagsins vegna mjög nauðsynlegt, að það verði upplýst.