14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Þorvaldur Garðar Kristjánsson:

Herra forseti Ég var einn af þeim þm., sem greiddu atkv. gegn þáltill. um bráðabirgðalausn á fiskveiðideilunni við Breta. Ein af höfuðástæðum mínum var sú, að það skyldi vera kveðið svo á, að íslenskt varðskip þyrfti að kveðja til breskt eftirlitsskip, þegar landhelgisbrjótur væri staðinn að verki. Ég tel að þetta sé óviðunandi skerðing á rétti og framkvæmd íslenskrar lögsögu. Þetta var ein af höfuðástæðunum fyrir því, að ég vildi hafna þessu samkomulagi, sem gert hefur verið.

Nú er þetta samkomulag gert. Það er búið að samþykkja þáltill. um bráðabirgðalausn á fiskveiðideilunni við Breta. Ég sé ekki betur en að þegar svo er komið, þá sé eðlilegt að lögfesta það, sem lagt er til í því frv., sem hér liggur fyrir, og ég hef ekkert við það að athuga út af fyrir sig og mun gera mitt til þess, að frv. þetta fái sem skjótasta afgreiðslu.