14.11.1973
Efri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Auður Auðuns:

Herra forseti. Frv. til l. um lyfjaframleiðslu var á síðasta þingi lagt fram í hv. Nd. Alþingis. Eins og þm. vita, hlaut það þá ekki afgreiðslu. Nú er frv. lagt fram í þessari hv. þd. Því var vísað til heilbr.- og trn. í Nd. í fyrra, og ég mætti e. t. v. hér úr ræðustól spyrja ráðh., hvort n. þar hafi verið farin að fjalla um málið. (Heilbr.- og trmrh.: Ég held, að það hafi verið tiltölulega litið.) Já, einhverra hluta vegna er frv. lagt fram í þessari hv. d. nú á þessu þingi. Þetta var einungis fsp. af minni hálfu til hæstv. ráðh.

Það er sagt í aths. við frv., að teknar hafi verið til athugunar í rn. umsagnir, sem bárust um frv. á s. l. vori, og rn. hafi átt viðræður við fulltrúa Apótekarafélagsins og ýmsar aths. félagsins, sem verið hafi til bóta, hafi verið teknar inn í frv. Nú skal ég viðurkenna, að ég hef ekki gert neinn verulegan samanburð á frv. frá í fyrra og því, sem hér liggur fyrir. En hæstv. ráðh. lét þess getið áðan í framsöguræðu sinni, að aðalbreytingin og sú eina, sem skipti, að mér skildist, máli, væri sú, að í frv. í fyrra var eignarhluti ríkisins í því fyrirtæki, sem heimilað er að stofna með frv., helmingur eða 50%, en nú hefur þetta tekið þeim breytingum í því frv., sem hér liggur fyrir, að eignarhlutinn sé ekki minni en 50%. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að hæstv. ráðh, hafi sagt, að þetta hafi verið gert til hagræðis fyrir meðeigendur ríkisins, sem e. t. v. hefðu ekki bolmagn til að leggja fram svo mikið, að næmi helmingi í þessu fyrirtæki. Nú sé ég, þegar ég lít á frv. frá í fyrra, að þá kemur fram í aths., að það hefur orðið verulegur ágreiningur við forsvarsmenn Apótekarafélagsins um eignarhlutföllin. Ég skal ekki fara lengra út í það. Ég vil þó aðeins vitna til þess, sem segir í aths. við frv. á bls. 7, en þar segir, með leyfi forseta: „Ekki verður fullyrt, að aðilar geti náð samstöðu um þá hugmynd, sem felst í þessari till.“ — sem sé helmingaskipti ríkisins og meðeigendanna. Ég hef tækifæri til að fjalla um þetta frv. í heilbr.- og trn., sem það væntanlega fer til. Mig langar einungis á þessu stigi til þess að spyrja hæstv. ráðh., hvort í viðræðum síðan í fyrra við Apótekarafélagið hafi dregið eitthvað frekar til samkomulags um ákvæðin um eignarhlutföllin.