14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér tvær breytingar á gildandi l. um vísindalega verndun fiskimiða landsgrunnsins frá árinu 1948. Fyrri breytingin er fólgin í því, að viðbót komi við 1. gr. 1., þar sem miðað er við það, að setja megi reglur um fiskveiðar og eftirlit með þeim, eins og þá segir, innan endimarka landsgrunnsins, að til viðbótar við það komi: „eða á hafsvæði allt að 200 sjómílum utan við grunnlínur.“

Hin breytingin, sem felst í þessu frv., varðar sektarákvæði, en það er sem sagt gert ráð fyrir því að heimila allmikla hækkun á sektum frá því, sem segir í gildandi lögum.

Það er fyrri breytingin af þessum tveimur, sem hér skiptir aðalmáli. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, höfum við Íslendingar stuðst við þessi lög, svonefnd landgrunnslög, frá árinu 1948 varðandi ráðstafanir okkar, sem snerta fiskveiðilögsögu eða stækkun okkar fiskveiðilandhelgi, og allar ákvarðanir í þeim efnum, sem teknar hafa verið á undanförnum árum, hafa verið byggðar á þessum grunnlögum okkar. Samkv. þeim hafa íslensk stjóravöld haft heimild til að gefa út reglugerðir um stækkun fiskveiðilögsögunnar við landið eða um aðrar ráðstafanir, sem réttmætt væri að gera varðandi fiskvernd og fiskveiðireglur á landsgrunnshafinu í kringum landið. Nú liggur það ljóst fyrir, að þessi viðmiðun, sem hér er gengið út frá í l. frá 1948, þar sem miðað er við landgrunnshafið, er óljóst. Að vísu er það svo, að þegar l. voru sett á sínum tíma, var talið, að landgrunnið væri nokkuð greinilega afmarkað við 100 faðma dýptarmörkin eða sem samsvarar 200 metra dýpi, og sú skilgreining kom fram, bæði í grg. og umr. um málið á sínum tíma, enda hefur það í alllangan tíma verið svo, að það hefur verið hin algengasta viðmiðun, þegar rætt hefur verið um landgrunn. En þessi skilgreining á landgrunni hefur verið að taka breytingum í seinni tíð, og það hafa komið fram margar mismunandi till. um það, við hvað landgrunn skuli í raun og veru vera miðað.

Þegar alþjóðasamþykktin var sett um landgrunn og nýtingu landgrunnsins árið 1958 í kjölfar alþjóðahafréttarráðstefnunnar þá, var þar einnig miðað við 200 metra dýpi sem skilgreiningu á landgrunni, en þó tekið fram, að vaxandi hagnýtingu auðæfa á eða í landgrunninu eða landgrunnsbotninum, þá gæti slíkur hagnýtingarréttur náð lengra út, en að 200 metra dýptarlínunni, ef unnt væri að vinna verðmæti úr botninum, — ef það reyndist vera framkvæmanlegt.

Árið 1969 voru síðan sett lög hér um rétt Íslendinga til hagnýtingar á landgrunninu við landið, og þá var tekin upp þessi víðari merking og þá miðað við svo langt út frá landi, sem hagnýtingarmöguleikar leyfðu. Eigi að síður hefur því verið haldið fram af ýmsum aðilum, að það væri vafasamt, að við gætum túlkað svo l. frá 1948, okkar gömlu landgrunnslög, sem veita okkur rétt til þess að setja fiskveiðitakmarkanir á þessu hafsvæði, að þau gæfu okkur rétt til þess að miða við frekara hafsvæði en það, sem væri innan endimarka þess landgrunns, sem miðaðist við 200 metra dýpi.

Nú hefur það einnig komið fram hér á Alþ. nokkrum sinnum síðar, að það hefur verið talið rétt, að við færum að setja nánari lagareglur um skilgreiningu okkar á landgrunni. En af því að þessi mál hafa verið æði óljós og margar till. hafa verið uppi um það, við hvað landgrunnið skuli miðað, hefur ekki orðið úr því, að við fyrir okkar leyti teldum tímabært að skilgreina það með fastri lagasetningu, við hvað við vildum miða okkar landgrunn. Enda er nú komið svo, að á alþjóðavettvangi eru þegar komnar fram till. um það, að landgrunn geti jafnvel miðast við allt upp í 3000 metra dýpi. En mjög er algengt, að aðilar hafi viljað halda fram mörkum, sem væru allt upp í 1000 metra dýpi, sem skilgreiningu á landgrunni.

Vegna þess og einnig vegna hins, að nú er augljóst, að þær þjóðir, sem vilja tryggja sér víðáttumikinn lögsögurétt yfir fiskimiðum út frá ströndum, miða ekki lengur orðið kröfur sínar við landgrunn, heldur gjarnan við mílulengd frá landi, og eins og hér hefur oftsinnis komið fram í umr, að undanförnu, þá er það nú orðið svo, að fjöldamargar þjóðir hafa tekið undir kröfuna um það, að strandríki skuli hafa rétt til fiskveiðilögsögu til fjarlægðar frá landi, sem nemur allt að 200 sjómílum.

Með hliðsjón af þessum nýju sjónarmiðum, sem eru fram komin, og svo því, sem ég hef áður sagt varðandi skilgreininguna á landgrunni og við hvað við séum bundnir í þeim efnum, er þetta frv. flutt og til þess að undirstrika af hálfu okkar Íslendinga, að við styðjum af fullu afli þær till., sem fram eru komnar um rétt strandríkis til allt að 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Það er tvímælalaust hagstætt fyrir okkur að hafa lagaákvæði um þetta á svipaðan hátt og við höfum haft ákvæði í landgrunnsl. frá 1948, þ. e. a. s. með þeim hætti, að það sé þá á valdi stjórnvalda að gefa út reglugerðir varðandi allt það, sem snertir fiskveiðar á þessu tilgreinda hafsvæði, þannig að hægt sé þá að setja þær reglur, eftir því sem aðstæður leyfa, en miklu hæpnara að slá því föstu við núv. aðstæður, að þetta sé sú lögsaga, sem við viljum hafa í framkvæmd í öllum greinum frá þessari lagasetningu eða frá þessu tímatali.

Það gefur auga leið, að með þessu erum við að slá því föstu, að við ætlum okkur að taka okkur 200 mílna fiskveiðilandhelgi. Við erum hér að slá því föstu, að þetta sé okkar réttur og þar séum við ekki takmarkaðir við eina eða aðra skilgreiningu á landgrunnsmörkum, heldur séu þetta hin ytri mörk, þar sem við teljum, að okkar réttur nái til, og með þessu erum við að lýsa því yfir, að við munum taka þennan rétt og gera hann gildandi hjá okkur, eftir því sem aðstæður leyfa.

Það er að vísu alveg ljóst, að enn stendur yfir barátta okkar fyrir því að fá fulla viðurkenningu á 50 mílna fiskveiðilögsögu við landið. Þá viðurkenningu höfum við ekki fengið enn, þó að við höfum fengið nokkra viðurkenningu í þeim efnum, m. a. með samningi við þrjár þjóðir, sem raunverulega viðurkenna rétt okkar í þessum efnum með þeirri samningagerð, og segja megi einnig, að nokkur óbein viðurkenning liggi fyrir hendi af hálfu Breta með því samkomulagi, sem nú hefur verið gert við þá, en þar skortir allmikið á fulla viðurkenningu. Við höfum vissulega einnig fengið nokkra óbeina viðurkenningu frá ýmsum öðrum þjóðum, sem hér hafa stundað veiðar við landið með því að þær virða í reynd okkar lögsögurétt á þessu svæði. Barátta okkar fyrir viðurkenningu á fullum lögsögurétti á 50 mílna svæðinu mun auðvitað halda áfram, og þeirri viðurkenningu verðum við að ná til þess síðan að geta haldið áfram að auka okkar lögsögurétt yfir hafsvæðinu í kringum landið. Það væri vissulega þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga að geta gert gildandi lögsögurétt okkar yfir fiskimiðum einnig utan 50 mílna markanna. Það geta vissulega komið upp aðstæður, sem gerðu það mjög aðkallandi fyrir okkur að lýsa þar yfir sérstökum veiðireglum, t. d. varðandi síldveiðar, loðnuveiðar, kolmunnaveiðar, karfaveiðar og ýmsar aðrar veiðar, sem stundaðar e: u á því hafsvæði, misjafnlega mikið eftir aðstæðum, eins og menn þekkja. En verði landsgrunnsl. frá 1948 breytt á þann veg, sem hér er lagt til, hefðum við Íslendingar Rétt til þess að ákveða með reglugerðarútgáfu skipan veiða á þessu hafsvæði einnig utan 50 mílna markanna.

Eins og orðalagið er á 1. gr. þessa frv., þá er gert ráð fyrir því, að ytri mörk þessa hafsvæðis miðist við 200 sjómílur frá grunnlínu. Nú er vitað, að svo langt verður þó ekki farið í reynd vegna legu landsins og afstöðu til annarra landa. Þannig má búast við því, að í reynd verði ekki farið lengra með lögsögurétt okkar en miðja vegu t. d. á milli Íslands og Grænlands og á milli Íslands og Færeyja, en slíkt yrði að sjálfsögðu ákveðið, þegar þar að kemur, með samkomulagi eða samningum við viðkomandi þjóðir. En það er almennt gert ráð fyrir því, þegar um jafnvíðáttumikinn lögsögurétt er að ræða og hér er um rætt, þá verði að koma til samkomulag á milli þjóða, þegar svo stendur á, að vegalengd á milli landa er minni en sem nemur 400 sjómílum, m. ö. o. að fara þá eftir svonefndri miðlínureglu.

Vegna þess, sem þegar hefur komið fram í umr. um landhelgimálið á þessu þingi, vil ég vænta þess, að frv. þetta geti fengið stuðning allra flokka hér á hv. Alþ., og þó að vissulega hefði mátt ná því marki, sem hér er um að ræða, eftir öðrum leiðum en hér er lagt til, þá getur það ekki verið neitt höfuðatriði. Aðalatriðið er það, að lög séu sett um þennan rétt okkar og við höfum í okkar l. tvímælalausan rétt til að skipa okkar fiskveiðiréttarmálum samkv. þessu. Eins og ég hef sagt, tel ég, að það sé hagkvæmast fyrir okkur að hafa ákvæði um þetta efni í okkar landgrunnsl. og halda síðan á málinu á svipaðan hátt og við höfum gert áður varðandi stækkun á okkar fiskveiðilögsögu, — það verði sem sagt tekin ákvörðun um það, að hve miklu leyti og hvenær heimildir samkv. þessum 1. eru notaðar, þegar þetta kemur til framkvæmda.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar um málið að sinni. Þetta mál er tiltölulega einfalt og skýrt, og ég vona, að hér geti skapast samstaða um afgreiðslu málsins. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr, og hv. sjútvrn. til fyrirgreiðslu.