14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hallast að þeirri skoðun, sem hv. formaður utanrmn. hefur lýst í þessu máli. Ég held, að það sé mikilvægt okkur Íslendingum að halda okkur við það sjónarmið, að við teljum réttindi til hafsbotnsins og réttindi til auðæfa hafsins yfir hafsbotninum eiga að vera ein og hins sömu. Ég vil aðeins nefna það sem dæmi, að við höfum í baráttunni við Breta notað oft og mikið ábendingar um það, hvaða reglur þeir hafi um olíuvinnslu í Norðursjó. Við höfum reynslu af því, að þetta eru rök, sem hafa áhrif. Almennir skynsamir borgara sjá ekki, hvers vegna aðrar reglur eigi að gilda fyrir botninn heldur en hafið fyrir ofan.

Það er ekki þar með sagt, að þetta þurfi allt að vera í einni löggjöf. Ég get fallist á það með hæstv. ráðh., að það séu ýmis rök fyrir því, að það sé sérstök löggjöf um botninn og önnur um auðæfi sjávarins. En það þarf að vera samræmi þarna á milli. Það er rétt, sem bent var á, að þjóðir hafa mjög mismunandi hagsmuna að gæta. Það er tiltölulega lítill hópur og yfirleitt smáar þjóðir, en sjaldan mikil stórveldi, sem hafa fiskveiðihagsmuna að gæta. Aftur á móti eru þau fleiri og miklu meiri auðæfi í veði, þar sem eru hagsmunir varðandi olíu og málma. Ekki man ég tölurnar, en veltan í fiski hjá Bretum, miðað við veltuna í olíu og gasi á botni Norðursjávar, er ekki nema nokkrir aurar í samanburði við margar krónur.

Ég held, að samræmi í þessu efni af okkar hálfu muni ekki valda neinum vandræðum gagnvart samherjum okkar í þróunarlöndunum. Það er alveg rétt, að þeir hafa margir hverjir, að undanteknum ríkjunum á Kyrrahafsströnd Suður-Ameríku megináhuga á hafsbotninum. Og allt þetta mál, sem hefur sett Hafsbotnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna af stað, byggist á þeirri hugsjón, að það eigi að gera hafsbotninn utan landhelgi að sameign mannkynsins og það eigi að vinna þau auðæfi, sem þar eru, og láta arðinn ganga til vanþróuðu ríkjanna. Þess vegna hafa þau mikinn áhuga á, að réttindi yfir hafsbotninum nái ekki of langt út. Því meira af hafsbotninum sem einstakar þjóðir fá, því minna verður eftir fyrir hina alþjóðlegu stofnun, sem á að vinna fyrir vanþróuðu ríkin. Hins vegar hafa Afríku- og Asíuríkin, að því er virðist, langflest fallist á 200 mílna hugtakið, og það verður því að minni hyggju enginn árekstur, þó að við höldum okkur við sömu reglu um hvort tveggja.

Ég hafði að sjálfsögðu tekið eftir því, að í orðalaginu á breytingunni, sem frv. gerir ráð fyrir, er sagt „allt að“. Við gætum að sjálfssögðu hengt hatt okkar á þessi tvö litlu orð og sagt, að við ætlum ekki að móðga neinn. En engu að síður er heimildin allt að 200 mílum og þar með 200 mílur. Það er mikil hætta á, að alltaf sé litið á hámarkið. Ég vil því taka undir hugmyndir hv. 3. þm. Vestf. Mér kemur í hug að segja: „að 200 mílum eða samkv. samkomulagi, þegar minna en 400 mílur eru til næstu landa,“ eða eitthvað svoleiðis. Það eru þarna möguleikar á örlítilli viðbót, og ég tel æskilegt, að sú n., sem fær þetta mál, ræði það við lögfræðinga og aðra sérfræðinga ríkisstj., sem hafa veitt henni aðstoð við að semja þetta frv.