14.11.1973
Neðri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Sú lagasetning, sem hér er óskað eftir samkv. frv. á þskj. 115, er nauðsynleg vegna þess bráðabirgðasamkomulags, sem gert hefur verið við Breta um lausn á fiskveiðideilunni. Í frv. er kveðið á um viðurlög fyrir brot á því samkomulagi, og samkv. því varðar brot á samkomulaginu þeim viðurlögum, að þau skip, sem sett hafa verið á skrá og samþ. hefur verið af Íslands hálfu, að mættu veiða á tilteknum svæðum og ákveðnum tímabilum á hafsvæðinu á milli 12 sjómílna frá grunnlínum og út að 50 sjómílum, þó með vissum undantekningum, skuli tekin út af skrá og svipt leyfi til þess að stunda veiðar á samningstímabilinu. Það skip, sem tekið hefur verið af skrá, verður ekki aftur á hana tekið, og ef það væri svo staðið hér að ólöglegum veiðum, munu almennar reglur koma til greina um það, en almennu reglurnar um viðurlög fyrir brot á l. um hann við botnvörpuveiðum eru, eins og mönnum er kunnugt, sekt skipstjóra og afli og veiðarfæri upptæk. Ef ákvæði sem þetta um leyfissviptinguna væri ekki tekið í íslensk lög, mundu almennu reglurnar gilda um bresk skip eins og önnur.

Ég þarf ekki að segja það, sem ég hef sagt áður, að ég álít, að hér sé um miklu þyngri viðurlög að ræða heldur en samkv. almennu reglunni, þar sem skip, sem tekið er af skrá, missir algerlega réttinn til veiða. Ég hygg, að slík viðurlög séu besta tryggingin fyrir því og sterkasta aðhaldið um það, að ekki verði um brot að ræða á þessu samkomulagi. Þó er auðvitað aldrei hægt að tryggja slíkt með neinum viðurlögum. Brot geta alltaf átt sér stað.

Þá er það annað efni þessa frv. að ákveða, hvaða íslenskt yfirvald ákveði þessi viðurlög. Það er skýrt tekið fram og ákveðið í þessu frv., að dómsmrn. geri það að fengnum skýrslum Landhelgisgæslunnar. Þetta er undantekning frá almennum reglum, vegna þess að refsiviðurlög eru almennt ekki ákveðin af öðrum en dómstólum. En dómstólaleiðin er seinvirk og mundi ekki henta í þessu tilfelli, vegna þess að þá mundi það dragast of lengi, að skip væru tekin út af skrá. Þess vegna er þessi leið farin. Dómsmrn. þarf ekki að bíða nema eftir því að fá gögn frá Landhelgisgæslunni. Hvað sem líður skoðun þess breska hjálparskips, sem kynni að koma á vettvang samkv. kvaðningu, verður úrskurður dómsmrn. upp kveðinn eftir gögnum Landhelgisgæslunnar. En telji sá togari, sem fyrir þessu verður, eða hið breska aðstoðarskip, að þarna hafi réttu máli verið hallað eða einhver mistök átt sér stað, eins og fræðilega geta að vísu komið til og hafa komið til við töku á togurum við venjulegar aðstæður og leiða þá til sýknu togarans, — ef svo stendur á í þessu tilfelli, að þarna beri á milli, þá verða Bretar að fara þá leið að reyna að fá hlut sinn réttan eftir diplómatískum leiðum. Dreg ég ekki í efa, að ef þeir leggja fram gögn með þeim hætti, sem eftir athugun og rannsókn hjá íslenskum aðilum verða metin á þá lund, að þarna hafi mistök átt sér stað hjá íslensku varðskipi, þá mundi auðvitað leiðrétting verða gerð.

Það var aðeins hugað að því, hvort ætti að taka fram í þessum l., að aðili ætti að eiga rétt til að bera málið undir íslenska dómstóla. En að athuguðu máli var fallið frá því að taka það sérstaklega fram í l., m. a. með það sjónarmið í huga, að þá hefði verið talið eðlilegra að byrja málsmeðferðina með þeim hætti, sem nú tíðkast við landhelgisbrot, að leiða varðskipsforingja fyrir sjódóm og láta þá staðfesta skýrslu sína, eftir atvikum með eiði eða drengskaparheiti. En sá háttur mundi verða til þess að tefja endanlegan úrskurð í málinu, og þess vegna er þessi háttur hafður á, að það er bara skýrsla Landhelgisgæslunnar, án þess að kveðið sé nokkuð á um það, í hvaða formi hún sé, sem verður að vera komin til dómsmrn., og dómsmrn. metur það svo á grundvelli hennar, hvort leyfissvipting skuli eiga sér stað eða ekki.

Um þetta mál hefur annars verið rætt svo mikið í hinum almennu umr., sem fram fóru hér um þáltill., að ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál út af fyrir sig né efni þessa frv. Ég geri ráð fyrir því, að hvað sem skoðun manna hefur liðið á bráðabirgðasamkomulaginu, séu þeir sammála um, að þessi lög séu sett, þegar þetta samkomulag hefur nú verið gert. Þetta frv. hefur verið afgreitt í hv. Ed. í dag með shlj. atkv.

Ég vil nú leyfa mér, herra forseti, að fara fram á það, ef unnt væri, að meðferð málsins hér væri hraðað á þá lund, að það væri hægt að afgreiða það hér í dag, vegna þess að það er ekki hægt að beita þessum viðurlögum, fyrr en þau eru komin í íslensk lög. Væri æskilegt, að það yrði sem styst bil, frá því að samningurinn hefur verið staðfestur og þangað til viðurlögin væru komin inn í íslensk lög. Þess vegna vil ég nú mælast til þess, ef hæstv. forseta þættu tök á því, að fundarhlé væri gert og n. gefinn kostur á að líta á málið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. út af fyrir sig, en legg til, að því sé vísað til 2. umr. og hv. allshn.