14.11.1973
Neðri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þegar hæstv. forsrh. boðaði það hér s. l. fimmtudag, að hann mundi flytja sérstakt lagafrv. í sambandi við þann skilning, sem hann lagði í 6. gr. þeirra orðsendinga, sem á milli Íslendinga eða utanrrh. Íslands og Breta hafa farið varðandi lausn landhelgisdeilunnar, þá skildi ég það a. m. k. svo, að innan ríkisstj. væri verulegur ágreiningur um það, hvernig raunverulega bæri að skilja þessa grein orðsendingarinnar, frá Alþb., sem vildi túlka þetta nokkuð á annan veg en hæstv. forsrh. hafði áður gert, hefði verið sett fram krafa um það, að slíkt lagafrv. væri borið fram. Þess vegna benti ég á það í umr. um samninginn, að mér fyndust slík vinnubrögð hæstv. forsrh. þess eðlis, að ég teldi varla sæmandi fyrir Alþ. að þurfa að fara að skera úr ágreiningi um skilning hans og annarra hæstv. ráðh. á því, hvernig bæri að túlka tiltekna grein í samkomulaginu.

Nú, þegar þetta frv. kemur hér fram, sýnist mér það ekki vera annað en bein afleiðing af því, sem hlaut að verða að gera, og þurfti enga fyrirframyfirlýsingu að gefa um það, sem hlaut að verða að gera í sambandi við samninginn, ef hann yrði samþykktur. Í sjálfu samkomulaginu er tekið fram, hvaða viðurlög skuli vera, ef breskur togari brýtur af sér í sambandi við samninginn og veiðir í hinum lokuðu hólfum á þeim tíma, sem hann hefur ekki til þess heimild, og því eðlileg afleiðing af því, að sú lagabreyting verði gerð hér á Alþ., sem geri nauðsynlegt að lögleiða þau viðurlög, sem þar er um getið. Varðandi síðari mgr. þessarar gr., hef ég alltaf talið, að það hlyti að liggja ljóst fyrir, að þessi lög, eins og botnvörpulögin almennt, heyrðu undir dómsmrn., ef til slíkra hluta þyrfti að koma, að þyrfti að kveða upp einhvern úrskurð.

Ég vil taka það fram, að hefði ég verið búinn að sjá þetta frv., — það getur vel verið, að það hafi verið búið að leggja það á borðið hjá mér, ég hafi ekki lesið það, þegar ég talaði hér í málinu í gær, — þá hefði ég vissulega hvorki farið að ómaka mig né þingheim á því að vera að koma fram með þá ábendingu, sem ég gerði. En það, sem hlýtur að vekja athygli og nokkra furðu, er, að ef þetta, sem hér er lagt fyrir, hefur valdið ágreiningi innan ríkisstj., ef hæstv. ráðh. Alþb. hafa þurft að setja einhver skilyrði til þess, að hæstv. forsrh. bæri fram slíkt lagafrv., þá er það ein sönnun þess enn, hvaða skrípaleik hæstv. ráðh. Alþb. hafa verið að leika innan ríkisstj., þegar þeir voru að reyna að setja fæturna fyrir það, að samningurinn yrði lögfestur.