14.11.1973
Neðri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að hæstv. forsrh. ætti ekki að fara að gera tilraun til þess að rifja upp og vekja upp deilur um það mál, sem hér var afgreitt í gær. Ég leyfi mér að benda honum á það, að þegar hann lagði þáltill. fyrir Alþ. á fimmtudaginn, sagði hann, að það væri Alþingis að segja til um, hvort það vildi ganga að samkomulaginu eða ekki, og þm. yrðu að hafa á því sína skoðun, hvort þeir vildu samþykkja frv. eða ekki. Nú leyfir hæstv. forsrh. sér það hér, þegar búið er að samþykkja frv., að brigsla mér og öðrum, sem höfðum aðra skoðun en hann á málinu, um það, að við höfum verið að leika skrípaleik. Ég segi: Hví í ósköpunum var hæstv. ráðh. með þessa ábendingu til okkar þm., að við yrðum að meta málið og hafa á því einhverja skoðun, ef hann á þeirri stundu hefur fyrir fram talið, það vera skrípaleik, ef einhver leyfði sér að mótmæla því, sem hann segði. Ég segi: Það er óleyfilegur skrípaleikur af forsrh. Íslands að haga sér eins og hann gerir hér. Ég get sagt hæstv. forsrh., að hann á eftir að bíta úr nálinni með þær blekkingar, sem ég tel, að hann hafi haft í frammi í ýmsum tilfellum, þegar hann var að túlka málið, fyrst fyrir alþjóð og síðan hér á Alþ. Það liggur ljóst fyrir, að hann sagði annað við fulltrúa frá Landssambandi Ísl. útvegsmanna og kannske fleiri heldur en hann síðan gat staðið við. Hann telur sér það kannske sæmandi, en ég tel hæpið, að hæstv. ráðh. geti verið að gefa mönnum eitthvað í skyn og jafnvel fullyrða eitthvað við hagsmunasamtök, sem er mjög mikilvægt atriði fyrir þau, en geta síðan ekki staðið við það, þegar til kastanna kemur.