14.11.1973
Neðri deild: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Sem nm. í allshn. hef ég skrifað undir það nál., sem hér hefur verið kynnt, en ég vil leyfa mér að taka fram eftirfarandi:

Í umr. um samkomulag um lausn á fiskveiðideilu Breta og Íslendinga gagnrýndi ég nokkuð það samkomulag og m. a. það ákvæði, sem þetta frv. er tilefni af. Gagnrýni mín beindist að því, að með þessu ákvæði viðurkenndum við ákveðna skerðingu á einhliða rétti okkar í íslenskri lögsögu. Við setjum okkar löggæslu þau takmörk, að hún verði að kalla til erlent eftirlitsskip til að staðfesta, að um brot sé að ræða. Enn fremur tel ég margt óljóst, hvernig þessum l. verður fylgt í framkvæmd.

Hitt er annað, að ég hef greitt atkv. með því að veita ríkisstj. heimild til að staðfesta bráðabirgðasamkomulagið, og þetta frv. er eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing af því. Því er það í eðlilegu samræmi við fyrri afstöðu mína, að ég er samþykkur þessu frv.