14.11.1973
Neðri deild: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel, að að hæstv. forsrh. hafi komið með mjög merkilega yfirlýsingu, þegar hann sagði, að hann teldi, að það varðaði því, ef togarinn gerðist brotlegur, að hann mundi verða strikaður út af listanum, ef ég hef skilið það rétt. Spurningin er: Viðurkenna Bretar þetta sjónarmið, eða verður þetta eitt af hinum óendanlegu þrætueplum, sem án efa eiga eftir að koma í ljós í sambandi við framkvæmd samningsins?

Þeir, sem nokkuð þekkja inn á þau mál, vita, hvernig taka togara eða taka togskipa fer yfirleitt fram. Það gerist á tvennan veg, annaðhvort með einhverju varðskipanna eða skipin eru staðin að ólöglegum veiðum úr flugvél. Ef varðskip tekur togara, þá vita það allir, að tæknin er orðin þannig í dag, að varðskipið sér togarann í 40–60 mílna fjarlægð. Það getur staðsett hann úr þessari fjarlægð, hvort hann er utan eða innan við vissar markalínur. Nákvæmlega sama getur togarinn, sem er að veiðum, gert. Hann er með ratar, sem tekur 48–62 mílur. Þetta eru orðin algengustu tækin í fiskiskipunum. Yfirleitt er það svo, að þegar þannig ber að, að togarar eru að ólöglegum veiðum og sjá, að varðskip kemur siglandi í áttina til sín, þá auðvitað forða þeir sér eins og þeir mögulega geta með fullri ferð af miðunum. Spurningin verður þá sú, þegar varðskipið er búið að sigla kannske 40–60 mílur eða 2–3 klukkutíma á 20 mílna hraða, hefur séð togara og telur hann vera innan vissra marka, þá auðvitað setur það út bauju og segir: Þarna var togarinn, — tilkynnir það formlega til dómsmrn., sem síðan á að taka við málinu. Samkv. þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir, er þetta nægilegt fyrir hæstv. dómsmrh. til að taka hinn seka breska togara út af skrá. En ef varðskipið á að fara á staðinn, setja út bauju, þá vaknar spurningin: Hver var hinn breski togari, því að nafn skipsins sér það ekki í 40 eða 60 mílna fjarlægð, þó það geti staðsett skipið. Þá kemur að því, að varðskipið þarf að keyra á fullri ferð á eftir skipinu, þegar það er búið að setja út baujuna, og ef það er 60 mílna millibil á milli skipanna, annað gengur kannske 15 mílur, hitt upp í 20, þarna er 5 mílna hraði á milli, skilst mér, að það geti tekið allmarga klukkutíma, þangað til varðskipið nær togaranum. Hann er þá kominn alla leið kannske til Færeyja eða lengra, eins og átt hefur sér stað. (Gripið fram í: Ég vil benda þm. á það, að jörðin er kúla og skip sést ekki í radar í 40–60 mílna fjarlægð.) Ég sé, að fyrir þessum ágæta fyrrv. gagnfræðaskólakennara hafa runnið upp þau sannindi, sem hann hefur kannske ekki vitað áður, að jörðin er hnöttótt. Það er gott, að hann áttar sig á hlutunum.

Sannleikurinn er sá, að þegar maður fer að skoða þetta mál, er eðlilegt, að ýmsar spurningar vakni og ýmsar deilur eða ýmiss skilningur á málinu, eins og reyndar hefur komið fram.

Það er einnig annað, að hæstv. forsrh, sagði hér áðan, að taka togaranna mundi fara jafnt fram úr flugvélum og með skipum. Spurningin er sú, ef flugvél kemur að togaranum og getur lesið nafnið á honum, hefur, hún enga aðstöðu til þess að setja út neitt staðarmerki, hún getum ekki sett út bauju, sem verður kyrr á sama stað, þannig að þá hlýtur að vakna annað vandamál. Togarinn segir: Ég var alls ekki á þessum stað, — og það er engin sönnun fyrir því, ekki hægt að sanna það, ekki með því að setja út bauju eða merkja staðinn á nokkurn hátt, heldur eru það aðeins orð áhafnir flugvélarinnar sem lögregluaðila og hefur sterkari aðstöðu, ég skal viðurkenna það. En ég hygg, að það sé rétt, sem sagt hefur verið, að einmitt þetta ákvæði l. hlýtur að vekja upp óendanlegar deilur og deiluefni í sambandi við samskiptin við Breta.

En ég tel það til mikilla bóta, að hæstv. forsrh. skuli hafa lýst því sem sínum skilningi, að það varði útstrikun af listanum, ef íslensk stjórnvöld úrskurða, að togari hafi verið að ólöglegum veiðum, hvort sem það er gert eftir vitnisburði varðskipsmanna eða vitnisburði flugvélaáhafna.