15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég stend ekki hér upp til þess að mæla á móti samþykkt þessa frv., en vildi gjarnan fá nánari upplýsingar.

Það er talað um að veita sjálfskuldarábyrgð á láni til kaupa á 10 nýjum fiskiskipum yfir 300 lestir. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort það liggi fyrir, hvaða fiskiskip þetta eru eða hvaða kaupendur það eru, sem um er að ræða að þessum skipum, og hvort þeim hefur verið ráðstafað. Ég geri þetta með tilliti til þess, að mér sýnist, að það geti verið, að það séu ekki allir, sem eru að hugsa um að kaupa ný fiskiskip, komnir jafnlangt í undirbúningi, og það kynni að vera, að fleiri þurfi slíka sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum en þeir, sem kunna að vera nú í sigtinu, og ef svo væri, hvort það muni þá vera vilji fyrir því að hækka þessa tölu, ef á þarf að halda.