15.11.1973
Neðri deild: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það gerist nú margt einkennilegt í sambandi við Fiskvinnsluskólann og allt það, sem kemur hér fram á Alþ. í sambandi við hann. Hér kemur hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, og segir, að ég hafi ekki gefið réttar upplýsingar á Alþ. um þetta mál í fsp.-tíma í gær, færði auðvitað ekki fyrir því nein rök, en segir þetta eigi að síður. Það liggur ljóst fyrir, hvað ég sagði. Ég las upp tvö bréf frá embættismönnum og gat þess, hvaða embættismenn höfðu skrifað bréfin. Síðan gaf ég yfirlýsingu frá mér sjálfum í 4 liðum, og það er býsna athyglisvert að hugleiða, um hvað þessar yfirlýsingar voru, sem ég gaf og liggja fyrir bókaðar. Ég sagði, að ég vildi, að þetta auglýsta námskeið fyrir fiskmatsmenn yrði haldið að þessu sinni sameiginlega á vegum skólans og Fiskmats ríkisins. Hins vegar, þar sem fyrir lægju upplýsingar um, að skólinn óskaði ekki eftir að standa að þessu nú og það væri samkomulag á milli þessara aðila, að svo væri ekki, væri ég ekki að grípa þar fram í. Þetta tók ég fram.

Nú virðist vera einhver ágreiningur um það, þó að það sé erfitt að henda reiður á því, hvað þeim starfsmönnum sjútvrn. og öðrum, sem tóku þátt í þessum fundi, skólastjóra Fiskvinnsluskólans og formanni skólanefndar skólans, fór á milli. Ég hef aðeins flutt það, sem mér var sagt af mínum starfsmönnum og hér lá fyrir frá þeim.

Ég hef hins vegar lagt fyrir þá nú að kalla fyrir sig skólastjóra Fiskvinnsluskólans og skólanefndarformann og leggja fyrir þá alveg ákveðið þá spurningu: Vilja þeir standa að þessu námskeiðshaldi nú með Fiskmati ríkisins eða ekki? Ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn að fyrirskipa Fiskmati ríkisins að hafa þetta form á, eins og kom fram í mínum upplýsingum um málið í gær. En ég tel það ekki á mínu valdsviði að leggja fyrir Fiskvinnsluskólann eða forstöðumenn hans, að þeir standi að tilteknu námskeiði. Þessi skóli heyrir ekki undir mig. Ég hef ekkert valdssvið yfir skólanum, svo að það er enginn ágreiningur um það, að það námskeið, sem hér hefur verið auglýst, verði haldið á vegum beggja þessara aðila að þessu sinni, ef þeir geta komið sér saman um það eða réttara sagt, ef skólinn vill taka þátt í því.

Þá sagði ég í öðru lagi í minni yfirlýsingu, að ég hefði leitað eftir úrskurði um, hvort það væri í mínu valdi að ákveða, hvaða starfsréttindi fylgdu þessum námskeiðum, og hvort hægt væri að tryggja það með reglugerð frú sjútvrn., að nemendur úr Fiskvinnsluskólanum hefðu forgangsrétt, hefðu meiri rétt til starfa en þeir, sem koma frá fiskvinnslunámskeiðum. Ég lýsti því einnig yfir, að það væri ákveðin skoðun mín, að ef það væri í okkar valdi að gefa út reglugerð um þetta, þá skyldu nemendur úr skólanum hafa forgangsrétt til starfa fram yfir þá, sem væru á þessu námskeiði, svo að það er vitanlega alveg óþarft að tönnlast á því hér sí og æ, að hér standi til að halda námskeið og veita mönnum þar jafnmikil réttindi eftir þriggja vikna nám og aðrir eigi að fá eftir þriggja ára nám eða tveggja ára nám, eftir því, úr hvaða bekk prófin eru. Slíkt liggur ekki fyrir. Ef það er á valdi okkar að gefa út slíka reglugerð, þá verður þessu svona fyrir komið. Mér hefur nú verið sagt, að það sé sjútvrn., sem geti sett ákvæði um þetta í reglugerð, hvaða nám skuli þurfa til þess að vera gildur fiskmatsmaður við hin ýmsu störf. En forstöðumenn þessa skóla og þeir, sem hafa byggt hann upp, hafa ekki til þessa dags óskað eftir einu eða neinu um réttindi handa þeim nemendum, sem eru í skólanum. Þeir gátu farið í skólann, þeir gátu verið þar allan tímann, og það hefur ekki verið farið fram á nein sérstök réttindi þeim til handa. Það er fyrst nú, þegar nemendur skólans minnast á þetta við mig og ég svara þeim á þessa leið, sem ég sagði frá á Alþ., að til þess kemur, að það kemur glögg yfirlýsing fram um það, að við viljum tryggja nemendum þessa skóla forgangsréttindi fram yfir þau réttindi, sem námskeiðsmenn hafa, svo að ég sé ekki, að það sé mikið tilefni til þess að tala um það dag eftir dag, að það leiki einhver vafi á þessu.

Þetta var önnur yfirlýsing mín, sem ég gaf hér varðandi réttindin. Það var skýrt þannig, að það voru þau réttindi, sem þetta námskeið eða önnur námskeið hér eftir kynnu að geta veitt. Það er vitanlega ekki hægt að breyta þeim réttindum, sem menn eru búnir að fá á umliðnum árum, það verður varla gert með reglugerð.

Þá lýsti ég einnig yfir því, að nemendur skólans hefðu farið fram á við mig að hafa áhrif á það, að þeir gætu fengið hliðstæð námslán og aðrir nemendur í framhaldsskólum, sem mættu teljast sambærileg. Ég lýsti yfir, að ég mundi beita mér fyrir þessu, lengra næði vald mitt ekki í þeim efnum.

Þá var fjórða yfirlýsing mín sú, að ég mundi reyna að hafa áhrif á það, að Fiskvinnsluskólinn starfaði samkv. settum l., sem ég tel, að hann hafi ekki gert, af því að þar er alveg tvímælalaust mælt fyrir, að það skuli á tilteknu árabili koma upp ákveðnum skólum á allmörgum stöðum á landinu, sem ég tel alveg nauðsynlegt, ef úr þessum skóla á eitthvað að verða, að verði staðið við þetta. En það hefur því miður ekki verið gert enn þá, og því hefur þessum málum öllum þokað skemmra áleiðis en hefði átt að vera.

Svona liggja þessi mál fyrir. Það eina, sem eftir er sérstaklega, er það, sem ég fyrir mitt leyti hef ekki treyst mér til að fallast á, og ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Sunnl. leist heldur ekkert á það, að námskeið Fiskmats ríkisins yrði ekki haldið að þessu sinni, — námskeið, sem búið er að halda hér í um 20 ár, þar sem Fiskmat ríkisins telur sig ekki með neinu móti geta fengið menn til nauðsynlegustu matsstarfa við okkar þýðingarmesta útflutning, eins og nú standa sakir, nema það fái að hafa námskeið af þessu tagi, vegna þess að það liggur ekki heldur fyrir, að skólinn sé að útskrifa nemendur fyrr en á næsta ári: Það er þá aðeins spurning um, hvort á að loka fyrir það, að þetta námskeið sé haldið nú í framhaldi af þeim námskeiðum, sem hér hafa verið haldin í 20 ár, svo eigum við að fallast á það líklega í staðinn að láta alls konar menn, sem ekki einu sinni hafa verið á námskeiðunum, taka að sér eftirlitsstörf á meðan. Ég skil ekki, að neinn verði sælli við þetta eða við komum betur út úr því í sambandi við mat á okkar útflutningsvöru. Ég fyrir mitt leyti hef ekki treyst mér til að taka undir þetta. Og ég tel það eins og hverja aðra fjarstæðu að tala um, að þessi námskeið séu sett til höfuðs skólanum. Það ætti frekar að gera ýmislegt annað til að efla þennan skóla, sem vissulega þarf að efla, og framkvæma það, sem fyrir er mælt í lögum, en ekki aðeins að reyna að binda þetta með því að loka fyrir það litla nám, sem þó hefur þarna verið í gangi.

Satt að segja þykir mér alveg furðulegt að heyra það frá forstöðumönnum skólans, að þeir skuli nota það orðalag, að þetta og önnur svona námskeið séu haldin í berhögg við tilgang skólans, og segja svo, að það virðist vera, að þau eigi að veita sömu réttindi. Þannig er þessu ekki varið.

Ég vil taka það fram, að málin standa nú þannig: Ég hef leitað eftir því enn á ný, þegar ég heyrði, að það virtist fara eitthvað á milli mála milli þeirra aðila, sem þennan fund sóttu, að það verði leitað skýrt eftir því: Vill skólinn standa að þessu námskeiði að þessu sinni? Ég fyrir mitt leyti er líka reiðubúinn til að standa að því, að það verði framvegis skólinn, sem stendur einn að þessum námskeiðum. En það er engin leið út úr svona vanda að horfast ekki í augu við vandann og loka fyrir öll námskeið og setja allt þannig í alger vandræði. Og svo þetta: Það liggur líka fyrir, að reglugerðum, sem í gildi hafa verið um réttindi frá þessum námskeiðum, verði breytt á þá lund, að fólk með próf frá skólanum hafi forgangsrétt til starfa. En próf frá þessu námskeiði og öðrum, sem síðar verða haldin, verði með minni réttindi. Menn verða að sætta sig við að víkja fyrir hinum, sem meiri réttindi hafa. Þetta eru auðvitað aðalatriði málsins, og skal ég svo ekki fara frekar út í að ræða um það, sem mér þykir áfátt í sambandi við það að byggja upp þennan skóla, sem vissulega hefði þurft að standa að á allt annan hátt en gert hefur verið.