15.11.1973
Neðri deild: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans og tel þau fullnægjandi. Það kom fram í svari hans, að stefna menntmrn. í þessum málum er óbreytt frá því, sem hún var, þegar l. voru sett um Fiskvinnsluskólann vorið 1971, m. ö. o. sú stefna, að væntanleg námskeið, sem nauðsynlegt teldist að halda fyrir væntanlega fiskmatsmenn og aðra starfsmenn í þágu fiskiðnaðarins, skyldu haldin á á vegum skólans. Um þetta var samkomulag vorið 1971 á milli menntmrn. og sjútvrn., gert með vitund og vilja ríkisstj. allrar, enda helgaðist þetta fyrirkomulag af beinum lagaákvæðum, eins og kom fram í svari hæstv. menntmrh. Það hefði raunar ekki þurft að taka um það sérstaka ákvörðun, að námskeið Fiskmats ríkisins skyldu falla niður. Eftir að Alþ. var einum rómi búið að samþykkja það lagaákvæði, að námskeið skyldu vera á vegum skólans, hefði átt að vera sjálfgert, að námskeið Fiskmatsins féllu niður. Auk þess var sérstaklega um það rætt milli rn. þá, að svo skyldi vera. Mér er að vísu í fersku minni afstaða einstakra embættismanna í sambandi við undirbúning löggjafarinnar um fiskvinnsluskólann, þó að ég geri hana ekki að nánara umtalsefni hér.

Það, sem nú hefur gerst, er það, að sjútvrn. hefur breytt um stefnu frá því, sem var vorið 1971. Nú hefur það samþykkt ósk Fiskmats ríkisins um að halda slík námskeið. Það er breytt stefna í sjútvrn. frá því, sem samkomulag varð um fyrir tveimur árum, vorið 1971.

Ástæður til þess, að ég sagði, að ég teldi, að hæstv. sjútvrh. hefði gefið rangar eða a. m. k. villandi upplýsingar í svörum sínum, voru tvær.

Í fyrsta lagi var ráðh. ekki skilinn öðruvísi en svo, að samkomulag hefði orðið um, að Fiskmat ríkisins skyldi að þessu sinni auglýsa þetta námskeið. Það er komið fram í svari hæstv. menntmrh., að um það varð ekkert samkomulag. Það hefur meira að segja komið fram í svörum hæstv. menntmrh., að ráðh. töluðu aldrei saman, þeir höfðu ekki skipst á einu orði um málið, áður en sjútvrn. varð við ósk Fiskmats ríkisins um að auglýsa slíkt námskeið. Það taldi ég villandi, að þetta skyldi ekki koma skýrt fram. Það er hægt að misskilja ráðh. á þann hátt, að um þetta mál hefði verið samkomulag. Þótt samkomulag hafi orðið um það á milli einhverra embættismanna að hafa þann hátt á, sem hér hefur því miður verið hafður, jafngildir það ekki samkomulagi á milli ráðh., sem auðvitað hafa úrslitavald í málum. En það er upplýst, að um slíkt samkomulag var ekki að ræða. Námskeiðið er auglýst án nokkurs samráðs við hæstv. menntmrh. eða menntmrn.

Hitt atriðið var, að ég saknaði þess og taldi það villandi, að ekki skyldi koma fram í svari hæstv. sjútvrh. í fyrradag, að það hafði orðið samkomulag um það milli menntmrn. og sjútvrn., að þetta námskeið skyldi falla niður, að Fiskmat ríkisins hætti að halda slík námskeið. Þetta hefðu embættismenn hæstv. ráðh. átt að geta sagt honum, og það hefði átt að koma fram í svari hans, enda er það sannleikurinn í málinu. En það, sem gerst hefur í málinu, því miður, ber vott um, að býsna lítið samband muni vera milli einstakra ráðh. í ríkisstj. Þetta er ekki fyrsta dæmið um það. Hér er dæmi um það, að lítið samband hefur verið milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. menntmrh. Hæstv. sjútvrh. tekur ákvörðun, sem breytir stefnu rn. hans frá því, sem hún var fyrir tveimur árum, án samráðs við þann ráðh., sem málið snertir þó aðallega, hæstv. menntmrh., því að mergur málsins er sá, að fyrirhugað námskeið er auglýst án nokkurs samráðs við menntmrn., og það er mergur málsins.

Ég er ekki sammála hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Ingólfi Jónssyni um, að lausnin á þessu máli sé sú, að þetta námskeið verði að þessu sinni haldið og síðan ákveðið, hvaða réttindi námskeiðsmenn skuli hafa og hvaða réttindi þeir, sem brautskrást úr Fiskvinnsluskólanum. Skoðanir mínar í þessu efni eru í öllum atriðum þær sömu og mér virtist koma fram í svari hæstv. menntmrh., að þetta námskeið, sem nú hefur verið auglýst, eigi ekki að halda á vegum Fiskmats ríkisins, heldur, ef þörf er á námskeiði, sem ég skal ekki draga í efa, skuli Fiskvinnsluskólinn halda það námskeið.

Ég tel sjálfsagt og vona, að það verði niðurstaða þeirra umr., sem hér hafa orðið, — það er tími til kominn, — að ráðh, sjálfir taki loksins upp nánara samráð um, hvernig á málinu skuli haldið, en láti það ekki vera í höndum embættismanna og skólamanna, heldur komi sér saman um skynsamlega niðurstöðu í málinu. Málið er komið í algert óefni, og það geta engir tveir menn leyst það nema hæstv. menntmrh. og hæstv. sjútvrh. Og ég lýk þessum orðum mínum með því að óska þess, að þeir komi sér saman um skynsamlega lausn á málinu með viðræðum, sem hingað til hafa verið vanræktar.