15.11.1973
Sameinað þing: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

18. mál, vinna framhaldsskólanema við framleiðslustörf

Flm. (Stefán Gunnlaugsson) :

Herra forseti. Á þskj. 18 er till. til bál. um vinnu framhaldsskólanemenda við framleiðslustörf á vetrarvertíð, sem við hv. 1. landsk. þm, og 5. þm. Reykn. stöndum að. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort unnt reynist að haga árlegum kennslutíma í framhaldsskólum í verstöðvum á Suðvesturlandi og annars staðar, þar sem skortur er á mannafla til framleiðslustarfa á vetrarvertíð, þannig, að elstu nemendurnir, sem áhuga hefðu á að sinna framleiðslustörfum í mars og apríl, gætu fengið sig lausa frá skólanámi þann tíma. Verði við það miðað, að námstími þeirra flytjist til á árinu sem því nemur. Þessi athugun fari fram með það fyrir augum, að reynt verði að leysa úr þeim vanda, sem sjávarútvegurinn hefur átt við að etja yfir helstu vertíðarmánuðina vegna skorts á vinnuafli. Jafnframt verði leitast við, að fjölbrautaskólar geti hið allra fyrsta boðið nemendum upp á námsbrautir, þar sem virk þátttaka í atvinnulífinu, svo sem við fiskveiðar og fiskverkun á vetrarvertíð, sé mikilvægur liður í námi þeirra.“

Í upphafi grg. með till. er bent á, að miklum erfiðleikum hefur verið bundið að fá nægjanlegt vinnuafl til framleiðslustarfa, til fiskveiða og vinnslu sjávarafla á Suðvesturlandi á hávetrarvertíð hin síðari árin. Skortur á fólki til þessara starfa hefur haft í för með sér, að full nýting framleiðslutækjanna hefur ekki fengist og aflinn ekki ávallt farið í þá verkun, sem gefur þjóðarbúinu mest í aðra hönd. Mörgum er ljóst, að hér er á ferðinni ákaflega alvarlegt mál og raunar Óviðunandi ástand, sem ekki hefur tekist að finna úrlausn á, svo að viðunandi geti talist.

Þarflaust er að fara um það mörgum orðum, að sjávarútvegur og vinnsla sjávarafla í landi er aðalundirstöðuatvinnuvegur Íslendinga. Á því byggjast lífskjör fólksins í landinu á hverjum tíma öðru fremur, hvernig tekst til um aflabrögð, vinnslu sjávarafla og sölu fiskafurðanna á erlendum mörkuðum. Þessi þáltill., sem hér er til umr., miðar að því, að reynt sé að tryggja, svo sem frekast er kostur, að framleiðslutækin á sjó og landi, sem rekin eru í sambandi við sjávarútveg og vinnslu sjávarafla, séu nýtt til hins ítrasta og hagnýting fiskaflans geti jafnan verið með sem hagkvæmustum hætti, en svo hefur því miður ekki verið á hávetrarvertíð á suðvesturhorni landsins um skeið.

Sennilegt er, að nokkrar samverkandi ráðstafanir verði að gera, til þess að þessum málum verði komið í viðunandi horf. Í því sambandi mætti nefna aðgerðir, sem leiddu til þess, að fólk sækti frekar í störf við fiskverkun og fiskveiðar en verði hefur til þessa og þá úr vinnu, sem er þjóðhagslega ekki eins nauðsynleg og þau störf, sem ég geri hér að umtalsefni. Slíkar ráðstafanir gætu m. a. verið fólgnar í bættum launakjörum verkafólks, betri starfsaðstöðu, meiri kynningu á þessum mikilvægu starfsgreinum í skólum, svo og að virkja með skipulegum hætti til starfa við fiskveiðar og fiskvinnslu í landi nemendur úr framhaldsskólum yfir hávetrarvertíðina, sem hug hefðu á að sinna fiskvinnu á þeim tíma.

Um þennan síðarnefnda þátt þessa vandamáls fjallar þáltill., sem hér er til umr. Það er skoðun okkar flm., að sú leið, sem þar er hent á, mundi draga verulega úr þeim erfiðleikum, sem við er að etja í þessum efnum hjá sjávarútveginum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að leitað hefur verið til forráðamanna skólanna á vetrarvertíð hér á Suðvesturlandi og víðar um, að þeir gefi nemendum frí frá námi dag og dag til að vinna við uppskipun og fiskverkun til að bjarga verðmætum frá skemmdum, þegar þannig hefur staðið á. Ég hygg, að yfirleitt hafi skólastjórar reynt að verða við slíkum óskum, þegar þær hafa komið fram, þótt það hafi haft í för með sér vissa truflun og óhagræði fyrir nemendur eða kennara og raunar haft að ýmsu öðru leyti óæskileg áhrif á störf skólanna að þeirra áliti. Enginn vafi er á því, að það vinnuafl, sem komið hefur með þessum hætti að framleiðslustörfum við sjávarsíðuna, þegar vöntun á verkafólki hefur verið hvað tilfinnanlegust, hefur bjargað miklum verðmætum og haft ómetanlega þýðingu. Þessu til staðfestingar væri hægt að nefna ýmis dæmi. Nærtækast er það, þegar rektorar menntaskóla í Reykjavík og á Laugarvatni urðu góðfúslega við þeim óskum að gefa nemendum úr yngstu bekkjum þessara framhaldsskóla fríi í heila viku síðari hluta aprílmánaðar í ár. Milli 400 og 500 nemendur úr þessum skólum komu á vinnumarkaðinn þessa viku til fiskvinnu. Augljóst er, hversu geysiþýðingarmikið það hefur verið að fá þennan viðbótarvinnukraft til framleiðslustarfa, þegar hvað mest berst af afla. Auk þess hef ég fregnir af því frá þeim, sem best þekkja til, að þetta unga fólk hafi staðið sig með mikilli prýði við þessi störf og því orðið hin besta reynsla.

Af því, sem hér hefur verið rakið, sýnist einsætt, að leggja beri ríka áherslu á, að þannig verði búið um hnútana, að ungt fólk í framhaldsskólum, sem til þess hefur áhuga, geti stundað fiskvinnu eða sjómennsku á fiskiskipum á vetrarvertíð nokkrar vikur í mars og apríl. Slíkt er ekki einungis æskilegt og nauðsynlegt þjóðhagslega séð, heldur er það bæði þroskandi og lærdómsríkt fyrir nemendur að kynnast undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar með þeim hætti, sem hér um ræðir, ekki hvað síst fólk, sem hyggur á langskólanám og á o. t. v. fyrir höndum ævistarf, sem ekki er í beinum tengslum við sjávarútveginn. Við það kynnist ungt fólk, sem komið er til nokkurs þroska, þeirri erfiðisvinnu, sem fiskveiðar og fiskvinnsla í landinu getur verið, og ætli með því að öðlast betri og gleggri skilning á gildi sjávarútvegs fyrir þjóðina og þjóðfélagið í heild og nauðsyn þess, að því fólki, sem slík störf vinnur, sé sómasamlega launað og vinnuskilyrði þess svo góð sem frekast er kostur á hverjum tíma.

Það er svo í okkar landi, að sjálfsagt þykir, að framhaldsskólanemendur verði sér úti um einhver launuð störf í sumarleyfum frá skólanámi. Ég efa ekki, að mörgum nemendanna í framhaldsskólum er það kærkomið að geta orðið sér úti um tekjur með fiskvinnu nokkrar vikur að vetrinum. Fjárráð skólanemenda eru yfirleitt mjög takmörkuð. Tekjuviðbót með þeim hætti, sem hér um ræðir, gæti því komið þeim að góðu gagni.

Þótt sú vinna, sem nemendur framhaldsskólanna hafa látið í té við framleiðslustarfsemina í sjávarplássum á vetrarvertíð, hafi verið mikilsverð, hefur það hvergi nærri verið fullnægjandi til þess að leysa úr þeim vanda, sem við hefur verið að etja í þessum efnum árlega. Þá er það staðreynd, að skólamenn hafa bent á, að skólafrí, sem veitt eru fyrirvaralítið til að verða framleiðslustarfseminni að liði dag og dag, valda röskun á skólanámi og skólastarfi yfirleitt, sem æskilegt er að komast hjá, ef kostur er. Það er því knýjandi að þessum málum verði þannig fyrir komið, að sem allra minnst truflun verði á skólanámi viðkomandi nemenda og komið verði í veg fyrir, að verulegt óhagræði hljótist af fyrir kennara og skólastarfsemina yfirleitt.

Ég vil leggja áherslu á, að ekki er lagt til í þessari till, að skólanám þeirra nemenda, sem hér um ræðir, minnki við það, að þeir vinni fiskvinnu nokkrar vikur í mars og apríl, heldur að námstími þeirra verði fluttur til á árinu, sem þeim dögum nemur, sem þeir yrðu frá námi í þessum mánuðum.

Það liggur í hlutarins eðli, að farsæl lausn þessa máls, sem fullnægjandi og viðunandi getur talist fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli, fæst því aðeins, að haft verði fullt samráð við rétta aðila um fyrirkomulag. Er þar fyrst að nefna kennara og skólastjóra framhaldsskólanna. Heppilegri og jákvæðari niðurstöðu í þessu máli verður ekki náð, nema til komi vilji og áhugi hjá þeim til að verða að liði í þessu máli. Við þá verður að hafa fullt samráð.

Á síðasta þingi voru afgreidd lög um fjölbrautaskóla, sem heimila sveitarfélögum og ríki að setja á stofn eins konar sameinaða framhaldsskóla. Undirbúningur að starfsemi slíkra skóla er þegar hafinn á nokkrum stöðum. Gert er ráð fyrir, eins og kunnugt er, að fjölbrautaskólarnir sameini allt framhaldsnám í einni kennslustofnun og fjölgi námsbrautum á framhaldsskólastigi. Þeir hafa m. a. á námsskrá undirbúning undir störf í hinum ýmsu atvinnugreinum. Í till. þeirri, sem hér er til umr., er einnig lögð áhersla á, að fjölbrautaskólar geti hið allra fyrsta boðið nemendum upp á námsbrautir, þar sem virk þátttaka í atvinnulífinu, svo sem við fiskiðnað og fiskverkun á vetrarvertíð, sé mikilvægur liður í námi þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að hraða því, svo sem unnt er, að fyrirhugaðir fjölbrautaskólar hefji starfsemi sína og hafi á boðstólum námsbrautir, áður en langt um líður, sem tengdar séu atvinnulífinu við sjávarsíðuna. Þar ættu að vera ákjósanleg skilyrði til að efla áhuga og virðingu hjá ungu fólki fyrir vinnu og starfi við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, ef rétt er á málum haldið. Raunar má segja, að allir skólar í landinu ættu að gera meira að því, en verið hefur hingað til að rækta með nemendum skilning á gildi umræddra atvinnugreina fyrir velfarnað þjóðarinnar í þessu landi og mikilvægi þess starfs, sem þar er unnið. Með þessum orðum er ég á engan hátt að gera lítið úr því, sem ýmsir skólar hafa gert í þeim efnum á liðnum árum. En fjölbrautaskólarnir ættu að hafa sérstakt verkefni að þessu leyti að mínum dómi. Fyrirsjáanleg er vaxandi þörf fyrir fólk með ýmiss konar sérþekkingu til starfa við sjávarútveg og aðrar atvinnugreinar á þessum tímum aukinnar tækniþróunnar og vélvæðingar í allri framleiðslustarfsemi. Skólarnir hafa þarna í vaxandi mæli mikilsverðu hlutverki að gegna og alveg sérstaklega fjölbrautaskólarnir, ef að líkum lætur.

Herra forseti. Í upphafi máls míns vakti ég athygli á því, að vandi sjávarútvegsins vegna skorts á vinnuafli á hávetrarvertíð á Suðvesturlandi hefði verið meira og minna viðloðandi nokkur undanfarin ár. Óhætt er að fullyrða, að ekki dregur úr þessum vanda í náinni framtíð, ef svo heldur fram sem nú horfir. A. m. k. er allt útlit fyrir mjög alvarlega fólkseklu í verstöðvum og á fiskiskipaflotanum á næstu vetrarvertíð, ef ekkert verður að gert. Það á auðvitað rætur að rekja til hins mikla og alvarlega þensluástands, sem ríkjandi er í efnahagskerfi landsmanna. Eftirspurn er víða miklu meiri eftir vinnuafli til hvers konar framkvæmda, nauðsynlegra og ónauðsynlegra, en framboð, svo sem kunnugt er. Þetta hefur leitt til þess, að þeir, sem rúmust hafa auraráðin, yfirbjóða á hinum almenna vinnumarkaði til þess að tryggja sér vinnuafl. Hið gegndarlausa kapphlaup og yfirboð braskara og annarra, sem yfir miklu fjármagni ráða, til misjafnlega nauðsynlegra framkvæmda, kemur illa niður á sjávarútveginum, sem getur ekki tekið þátt í þessu æðisgengna kapphlaupi. Við þetta bætist svo stærri fiskiskipastóll, sem kallar á aukinn fjölda sjómanna til að manna skipin, og ef vel tekst til með aflabrögð á næstu vertíð aukinn fiskafli og um leið enn fleira verkafólk til að koma aflanum í sem verðmætast ástand til útflutnings á erlenda markaði.

Það er augljóst mál, að brýna nauðsyn ber til þess að sú athugun, sem lagt er til, að fari til að tryggja sjávarútveginum vinnuafl úr framhaldsskólum til framleiðslustarfa, verði gerð hið allra fyrsta, svo að jákvæð niðurstaða slíkrar athugunar, sem ég leyfi mér að vona, að komi fram, geti legið fyrir hið allra fyrsta og orðið að raunhæfu gagni á næstu vetrarvertíð.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til. herra forseti, að þessari till. til þál. verði vísað til allshn.