15.11.1973
Sameinað þing: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

30. mál, kennsla í haffræði við Háskóla Íslands

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., er ekki alveg nýtt. Það var flutt hér í fyrra, en kom heldur seint fram á þinginu og varð þess vegna ekki lokið. En málið er nú flutt alveg óbreytt og af sömu flm., sem eru ásamt mér hv. þm. Jón Árnason, Geir Gunnarsson, Jón Árm. Héðinsson, Karvel Pálmason og Vilhjálmur Hjálmarsson. Tillgr. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta kanna, svo fljótt sem verða má, hvort ekki sé tímabært að hefja kennslu í haffræði og skyldum greinum við Háskóla Íslands.“

Við teljum, flm., að hér sé um afar mikilvægt mál að ræða, sem eðlilegt sé, að Alþ. fjalli nokkuð um. Við teljum, að það geti orðið til þess að flýta fyrir nauðsynlegri athugun á þessu máli, ef Alþ. fjallar um það, og það kunni að vera mjög mikilvægt fyrir framgang þessa máls, að Alþ. álykti, eins og við leggjum til. að ríkisstj. láti kanna þetta mál til fullrar hlítar. En ég vil taka það fram, að í till. er ekki slegið neinu föstu um það, að það skuli hefja haffræðikennslu við Háskóla Íslands, heldur aðeins, að þetta mál verði kannað.

Kveikjan að því, að þetta mál er nú flutt og var flutt í fyrra, er sú, að flm. höfðu undir höndum grg. frá dr. Unnsteini Stefánssyni haffræðingi, sem er kunnur maður hér á landi fyrir störf sín að haffræði, en hefur undanfarin ár unnið á vegum Menningar- og fræðslustofnunar Sameinuðu þjóðanna sem ráðgjafi um þessi efni og fyrst og fremst um það, hvernig haga skuli kennslu í haffræðigreinum við háskóla erlendis. En dr. Unnsteinn hefur einmitt sent frá sér grg., sem fjallar um þessi efni, hvernig haga mætti kennslu í haffræði við Háskóla Íslands.

Nú er það að vísu rétt, að þessi grg. hefur verið til meðferðar í háskólanum, því að háskólanum var send grg. Hins vegar virðist miða mjög hægt um það, að þetta mál fái þar, jákvæðar viðtökur, og þess vegna virðist okkur flm. eðlilegt, að nokkuð sé ýtt á eftir þessu hér á hv. Alþ.

Það er kannske eðlilegt, að menn spyrji að því, hvað haffræði sé, því að þetta er grein, sem lítið hefur verið stunduð hér og tiltölulega fáir menn, sem hafa lagt stund á hana af Íslendingum, og hún hefur ekki verið kennd hér, hvorki við Háskólann né aðra skóla. En haffræði er mjög víðtækt hugtak og felur í sér í rauninni allt það, sem hafið snertir. Þar er bæði um að ræða hafeðlisfræði, hafefnafræði og haflíffræði og svo jarðfræði hafsins og hafsbotnsins, þannig að hér er um mjög alhliða fræðigrein að ræða og ærið mikilvæga fyrir Íslendinga. Íslendingar hafa lengi lagt verulega stund á fiskifræði, sem segja má, að sé ein grein haffræðinnar, þó að nú sé almennt ekki svo á litið a. m. k. má segja, að hún heyri undir haflíffræðina, og þar hafi Íslendingar unnið gott verk. En hin almenna haffræði hefur hins vegar orðið nokkuð útundan. En ef við litum á land okkar, þá vitum við og sjáum, að hafið er hluti af náttúru landsins. Við leggjum mikið á okkur til þess að kanna náttúru landsins yfirleitt, jarðfræði þess og alla náttúru landsins. En það er augljóst, að við hljótum að leggja aukið kapp á að kynna okkur líka allt það, sem fjallar um hafið, því að eins og ég segi, þá er hafið hluti af náttúru Íslands.

Svo að ég víki aftur að því, sem dr. Unnsteinn leggur til í sínum till., þá er það í stórum dráttum það, að hann leggur til, að það verði tekin upp kennsla í haffræði við Háskólann, sem miðist við fjögurra ára háskólanám, og sú menntagráða, sem menn öðlist, verði BSc-próf eða Bachelor Science próf. Og tilgangurinn, sem hann telur fyrst og fremst vera með þessum till. sínum, sem við viljum gjarnan gera að okkar till., er sá að efla m. a. menntun náttúrufræðikennara í skólum landsins og að undirbúa stúdenta undir fullkomið haffræðipróf erlendis, þannig að hér gætu þeir þá með þessu lokið a. m. k. fyrrihluta prófi, og auk þess mundi þetta próf verða til þess, að útskrifaðir væru hæfir aðstoðarsérfræðingar í haffræði hér innanlands.

Þetta er í megindráttum það, sem dr. Unnsteinn leggur til í þessu sambandi.

Hann fjallar einnig nokkuð um það, hver kennaraþörfin muni verða, og telur, að það muni nægja að þessu sinni einn prófessor og einn dósent, og auk þess yrði að grípa til að einhverju leyti aukakennara eða tímakennara, sem tækju að sér tilteknar greinar, sem kenndar yrðu. Ef litið er á mannahaldið eitt og kennaraliðið, er því ekki um ákaflega stórt mál að ræða, þar sem hér er aðeins um tvo fastakennara að ræða, einn prófessor og einn dósent, og svo aukakennara, sem náttúrlega er hægt að grípa til úr starfsliði Háskólans eða annars staðar eftir afvikum. Hitt er annað mál að ef hér á að verða fullkomin kennsla í Háskólanum í þessari fræðigrein, þá þarf auðvitað fleira til að koma en aðeins fastir kennarar. Það er einnig nauðsynlegt að hafa ýmsa kennsluaðstöðu, og það fyrsta, sem nauðsynlegt er að afla, er að kaupa inn til Háskólans almennar kennslubækur og ýmis uppsláttarrit í þeim greinum, sem þarna verða kenndar. En þetta er ekki heldur nóg, heldur er nauðsynlegt, að stúdentar hafi aðstöðu til þess að sinna verklegum greinum og stunda verklegt nám í þessari fræðigrein, og þess vegna þurfa þeir að fá aðstöðu til þess að vinna í rannsóknarstofum og á rannsóknaskipum.

Í till. sínum gerir dr. Unnsteinn ráð fyrir því, að tekin yrði upp samvinna milli Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskólans um þessi atriði, þannig að stúdentar fengju aðstöðu til að fara út á rannsóknarskipum Hafrannsóknastofnunarinnar og einnig að þeir fengju aðgang að rannsóknarstofum, sem til eru í stofnuninni eða, jafnvel annars staðar í landinu. Miðað við þetta, ef þessi samvinna kæmist á, verður ekki séð, að þarna sé um neinn verulegan kostnað að ræða, sem þarf að fæla menn frá því að leggja til, að að þessi grein verði tekin upp sem háskólagrein hér á landi. En þarna verður auðvitað að vinna að því, að Háskólinn og Hafrannsóknastofnunin vinni eðlilega saman á þessu sviði.

Ég skal nú ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. Sem fskj. með till. okkar er að finna þessa ýtarlegu grg. dr. Unnsteinn Stefánssonar. Hún er allmargar prentaðar bls. og ekki ástæða til að fara að rekja hana nánar hér eða lesa hana upp frá orði til orðs í ræðustól, menn geta kynnt sér hana. En ég vil leyfa mér nú í lok máls míns að óska þess, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til fjvn.