19.11.1973
Efri deild: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

87. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Við flytjum hér 4 þdm. frv. til l. um breyt. á l. nr. 76 frá 1970, um lax- og silungsveiði. Ástæðan fyrir flutningi frv. er ákvæði 3. og 4. tölul. 14. gr. l., en þar er sagt í 3. tölul.:

„Nú hefur laxveiði í sjó verið metin sérstaklega til dýrleika í fasteignamati því, er öðlaðist gildi árið 1932, eða tillit hefur verið tekið til hennar við ákvörðun fasteignaverðs í því mati, og er þá sú veiði leyfileg.“

Markmið þessa frv., en það flytja auk mín Steingrímur Hermannsson, Jón Árm. Héðinsson og Helgi F. Seljan, er, að þær undanþágur, sem nú tíðkast varðandi laxveiði í sjó, falli niður.

Samkv. l. frá 1932 er laxveiði í sjó bönnuð, en eins og fram kemur í ofangreindum tölul., eru undantekningar þar á samkv. því, sem þar segir. Þá er og í 4. tölul. tekið fram með svofelldum orðum :

„Veiði lax og göngusilungs í sjó skal hlíta sömu reglum sem veiði í ósöltu vatni, eftir því sem unnt er. Ráðherra setur reglur um þessa veiði.“

Hvort tveggja þetta vildum við fella niður, þar sem við teljum, að algerlega eigi að útiloka laxveiðar í sjó. Áður fyrr munu slíkar veiðar hafa verið stundaðar hér við land, og raunar hefur verið veruleg laxveiði í sjó, t. d. hér í nágrenni Reykjavíkur og víðar, en víðast hvað hefur þetta nú verið afnumið, oftast nær með því, að þessi veiðiréttindi hafa verið keypt upp. Eins og horfir eru aðeins 3–4 staðir á landinu, þar sem laxveiði í sjó er leyfð, en því miður hefur verið mjög erfitt að hafa eftirlit með slíkri veiði vegna óljósra ákvæða l., eins og sjá má af orðalagi 4. tölul. 14. gr.

Það er að vísu svo, að laxveiði í sjó er stunduð í mörgum löndum. Svíar, Finnar, Danir, Rússar, Pólverjar o. fl. stunda slíkar veiðar í Eystrasalti, og jafnvel er talið, að verulegur hluti af laxveiði Norðmanna sé sjávarveiði við ströndina, en það hefur einnig haft þær afleiðingar, að árnar eru að verða laxlausar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að á síðari árum hafa umræður um laxveiði í sjó verið miklar, m. a. vegna þess, að í kjölfar rannsókna hafa stöðvarnar fundist, þar sem laxinn heldur sig á úthafinu, fremur en áður var. Þessar stöðvar eru aðallega við Grænland, einnig við Færeyjar og Noreg, eins og áður segir, og í kjölfar þessa hafa hafist miklar netaveiðar í hafinu við Grænland og orðið af harðvítugar milliríkjadeilur, eins og t. d. milli Danmerkur og Bandaríkjanna. Við Íslendingar höfum stutt þær þjóðir, sem berjast gegn laxveiði í sjó, og því er það miður, að undanþágur skulu enn vera í gildi hér á landi, sem heimila slíkar veiðar.

Þá er einnig á það að líta, að mikil ræktun laxveiðiánna hefur verið framkvæmd á síðustu árum. Þannig hafa verið sett seiði í árnar í laxastigar í fossa, vatnsmiðlanir gerðar og ýmislegt annað því um líkt. Það er ósanngjarnt, að seiði, sem sett hafa verið í á og alast þar upp, séu síðan hirt sem laxar úti í sjó, áður en þeir leita í árnar til þess að hrygna. En einmitt vegna laxaræktunar okkar hefur Íslandi tekist það, sem óvíða hefur tekist annars staðar, að auka laxveiðar í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja mjög um þetta frv., það var flutt hér síðast á s. l. þingi, og vannst þá ekki tími til að afgreiða það ég vil aðeins að lokum taka það fram, að ætlunin er, að fullar bætur komi fyrir þær undanþágur, sem nú eru við lýði, og fjallar 2. gr. frv. um það, hvernig mati þar að lútandi skuli háttað, en að öðru leyti mundi það fara eftir 94. og 95. gr. núgildandi laga.

Herra forseti. Ég vil gera það að tillögu minni, að frv. verði vísað til 2. umr. og eftir atvikum til sjútvn. eða landbn. eftir frekari ákvörðun forseta.