19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

95. mál, fóstureyðingar

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Hér er á dagskrá í dag og til umr. viðamikið mál sem er einnig í senu bæði viðkvæmt og vandmeðfarið, og Alþ. hlýtur að gefa sér nægan tíma til þess að gaumgæfa þetta frv. rækilega og senda ýmsum aðilum það til umsagnar. N., sem samdi frv., segir í grg. sinni, að hún líti svo á, að fóstureyðing sé alltaf neyðarúrræði, og því leggur hún ríka áherslu á það, sem hún nefnir varnaðarstarf, sem hún telur, að allt of lítill gaumur hafi verið gefinn að hér á landi, bæði hvað snertir kynlífsfræðslu í skólum og ráðgjöf fyrir fullorðna. Og þegar við ræðum nú þetta frv., þá hlýtur sú spurning að koma upp í hugann, hvort við búum við þær aðstæður, að unnt sé að inna af hendi þetta svokallaða varnaðarstarf, sem ég er n., sem samdi frv., mjög svo sammála um, að sé næsta nauðsynlegt.

Í upphafi þessa þings barst okkur alþm. umsögn um þetta frv. Umsögn þessi var gerð af n., sem biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson, skipaði til þess að semja álitsgerð um frv. og grg. þess. Enda þótt umsögn þessi sé í höndum okkar alþm., vil ég samt, með leyfi yðar, herra forseti, rekja í stórum dráttum það, sem sagt er um varnaðarstarfið í þessari álitsgerð. En ég bendi á það, að þessi n., sem biskupinn skipaði og þessa álitsgerð samdi, hefur stuðst við hina viðameiri grg., sem höfundar frv. létu frá sér fara á s. l. sumri og átti að senda okkur öllum alþm., en einhverra hluta vegna hefur ekki borist mér í hendur, þar hafa orðið einhver mistök.

Í I. kafla þessarar grg. segir svo: „Till. n hafa mótast af því grundvallarsjónarmiði, að brýn nauðsyn sé; 1, Að gefa öllum kost á ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir og ábyrgð foreldrahlutverks. 2) Að veita öllum fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra. 3) Að veita aðstoð þeim, sem íhuga fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð. 4) Að auka félagslega aðstoð í sambandi við þungun og barnsburð. Till, n. miðast við aðstæður eins og þær eru í dag.“

Enn fremur segir í grg. undir fyrirsögninni Varnaðarstarf: „N. leggur höfuðáherslu á nauðsyn þess að fyrirbyggja ótímabæra þungun, sem leiðir til þess, að farið er fram á fóstureyðingu. N. lítur svo á, að fóstureyðing sé alltaf neyðarúrræði, vegna þess, að um er að ræða læknisaðgerð, sem getur haft áhættu í för með sér og krefst sérhæfðs starfsfólks og fullkomins útbúnaðar til sérhæfðrar læknismeðferðar, ef eitthvað ber út af. Aðgerðin verður þess vegna að fara fram á sjúkrahúsum og verður allkostnaðarsöm getnaðarvörn fyrir þjóðfélagið.“

Hin mjög svo eindregna afstaða um varnaðarstarf eru orð mjög í tíma töluð, — og ég vil mjög taka undir það. — Af þessu tilefni er eðlilegt að huga að því, hvaða aðstæður við búum við hér á landi. Um þessa mikilvægu hlið málsins segir í grg. höfunda frv.: „Til þessa hefur varnaðarstarfi verið of lítill gaumur gefinn hér á landi, bæði hvað snertir kynlífsfræðslu í skólum og ráðgjöf fyrir fullorðna.“

Í grg. er gerð ítarleg grein fyrir ástandinu, eins og það horfir við frá sjónarmiði höfunda frv. Þar segir t. d.:

„Heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð hefur verið mjög ábótavant hér á landi til þessa, og er brýn nauðsyn að bæta þjónustu við almenning á þessu sviði.“

Við lestur á kafla, sem fjallar um kennslu um kynferðismál, má ráða, að n. sé þeirrar skoðunar, — þ. e. a. s. höfundar frv., — að þessi þáttur sé algerlega vanræktur innan skólakerfisins. Þeir segja að vísu:

„Að sjálfsögðu gerir frv. ráð fyrir, að kennsla í skólum í þessum efnum sé mótuð í samráði við fræðsluyfirvöld og tiltekin í námsskrá grunnskólastigsins, en á þessi atriði er bent sérstaklega hér með tilliti til núverandi ástands kennslu um kynferðismál í skólum landsins, en hún er svo til engin í raun, þótt gert sé ráð fyrir smávegis umfjöllun um kynþroskaskeiðið í námsskrá. Hefur þetta komið fram bæði í samtölum við nemendur á framhaldsskólastigi og við athugun á námsskrá með samanburði við kennslubækur á skyldunámsstiginu.

Samkv. námsskrá skyldunámsstigsins útgefinni 1961, er ekki gert ráð fyrir kennslu um kynferðismál almennt svo sem um samfarir, hvernig barn verður til, getnaðarvarnir né kynsjúkdóma. Samkvæmt upplýsingum fulltrúa á fræðsludeild menntmrn. er það undir viðkomandi kennara eða kennurum barnanna komið, hve langt þeir kjósa að fara út í slík mál eða hvort þeir gera það yfirleitt.“

Þá má að lokum, þegar grennslast er fyrir mn mat n. á núverandi ástandi, benda á nokkur atriði grg., sem fjalla um félagslega aðstoð.

„Í ársskýrslu Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar frá árinu 1971 segir, að megináhersla sé lögð á fjölskylduvernd, varnaðarstarf og endurhæfingu fjölskyldna og einstaklinga. — Breyting á félagsmálalöggjöf og ráðning sérmenntaðs starfsfólks (félagsráðgjafa) er forsenda fyrir framgangi þessarar stefnu.“

Þeir, sem sömdu þessa álitsgerð, sem ég er hér að vitna til, segja, að það beri að hafa í huga í þessu sambandi, að n. taki einvörðungu mið af því ástandi, sem ríkir í Reykjavík, en vitað er, að ástandið í dreifbýlinu er síst betra, sbr. þessi orð n.:

„Í dreifbýlinu er raunhæft félagsmálastarf skammt á veg komið, og engir félagsráðgjafar eru starfandi utan Reykjavíkur og Kópavogs. Í því yfirliti, sem hér fer á eftir varðandi nokkur atriði félagslegrar aðstoðar, sem snertir hag einstæðra foreldra og barnafjölskyldna, verður því miðað við aðstæður í þéttbýlinu.

Útvegun leiguhúsnæðis í þéttbýlinu fyrir húsnæðislausa eða þá, sem búa í lélegu og heilsuspillandi húsnæði, er miklum erfiðleikum háð, þar eð húsnæðisskortur er ríkjandi hjá húsnæðisdeild borgarinnar, en langur biðlisti. Mikill skortur er á dagvistunarrými í Reykjavík, einstæðir foreldrar njóta forgangs við úthlutun plássa á dagheimilum Sumargjafar, en það er langt frá því, að þörf þessa hóps sé fullnægt.“

Þá er sérstök ástæða til að vekja athygli á þessum orðum grg.:

„Í því skyni að bæta afkomu einstæðra foreldra og barnmargra fjölskyldna og fyrirbyggja þörf fyrir fóstureyðingar af félagslegum ástæðum leggur n. til: að félagsleg aðstoð við einstæða foreldra og barnmargar fjölskyldur verði aukin og bætt á öllu landinu, einnig í dreifbýlinu; að hið opinbera byggi og kaupi í auknum mæli sölu- og leiguíbúðir til þess að leysa húsnæðisvanda einstæðra foreldra og barnmargra fjölskyldna, sem ekki hafa bolmagn til að byggja sjálfir; að ríki og sveitarfélög auki fjárframlög til byggingar, kaupa og rekstrar dagvistunarstofnana, svo og til einkafósturs, en kostur á dagvistun er skilyrði þess, að einstætt foreldri geti séð sér farborða.“

„Eins og fram kemur hér,“ segja þeir, sem þessa umsögn hafa samið, „leggur n. megináherslu á varnaðarstarfsemi, en telur mikið skorta á í því sambandi. Erum vér n. fyllilega sammála í því efni“ — og eins og ég hef tekið fram, þá er ég það einnig. Og þeir, sem umsögnina gáfu, og einnig ég telja ástandið jafnvel enn verra en höfundar frv. gera ráð fyrir. Mjög mikill skortur er á sérhæfðu starfsliði, og mun taka árabil að bæta úr þeim skorti, að ógleymdum heilsugæslustöðvum og sérhæfðu starfsliði þeirra um allt land. Mun taka langan tíma að framkvæma allra úrbótatill. höfundar frv. Það er því óhætt að ganga út frá því, að alllangur tími líði, áður en varnaðarstarf það, sem forsenda n., verði virt. Í þessu sambandi er rétt að benda á þessi varnaðarorð n.:

„Það er reynsla annarra þjóða t. d. frændþjóða okkar, að einmitt varnaðarstarfið hafi verið stórlega vanrækt. Þess er getið, að auðveldara sé orðið að fá framkvæmda fóstureyðingu, þar sem löggjöf hefur verið rýmkuð, en að fá leiðbeiningar um getnaðarvarnir.“

„Meðan ekki hefur verið komið á slíku varnaðarstarfi, virðist skorta forsendur fyrir rýmkun fóstureyðingarlöggjafar. Enn fremur ber að hafa í huga, að þær félagslegu aðstæður, sem væru forsendur fóstureyðingar, hverfa ekki, þótt fóstri sé eytt. Það er því höfuðverkefni þjóðfélagsins að leitast við að leysa hin félagslegu vandamál, sem konan býr við áfram, þrátt fyrir fóstureyðingu“.

Það skortir ekki að nefndin, „þ. e. a. s. höfundar frv.,“ beri fram frómar óskir um úrbætur. En sár reynsla hefur kennt oss, að meira þarf til en góðan vilja. Það eru mörg dæmi þess, að sett hafi verið lög, sem ekki hafa komist í framkvæmd.

Fyrsta skrefið í úrbótaátt varðandi það varnaðarstarf, sem hér um ræðir, er að beita sér fyrir sérstakri lagasetningu. Það er hins vegar ljóst, að slík lagasetning, sem grípur til svo margra þátta, er mjög vandasamt og flókið verk. Taka þarf tillit til nauðsynjar á úrbótum á ráðgjöf, fræðslumálum og félagslegri aðstoð, þar sem gætt er jafnt hagsmuna dreifbýlis — eða strjálbýlis, vildi ég heldur nefna það — sem þéttbýlis. En það ber að undirstrika, að þótt undirbúningur slíkrar lagasetningar sé bæði tímafrekur og vandasamur, þá reynir fyrst á, þegar til framkvæmdanna kemur og útvega þarf mikið fjármagn til að standa undir kostnaði við framkvæmd slíkra laga. Þegar vér leiðum hugann að kostnaði vegna uppbyggingar öflugs varnaðarstarfs, er ekki óeðlilegt, að spurt sé um kostnað vegna framkvæmdar á till. n., verði þær að l. En um þann kostnað er ekki rætt í nál.

„Reynslan sýnir, að þar sem fóstureyðingalöggjöf hefur verið rýmkuð í minna mæli en hér er gert ráð fyrir, hefur fóstureyðingum fjölgað mjög. Í Svíþjóð, skv. upplýsingum n., eru fóstureyðingar 1/4 hluti af tölu lifandi fæddra barna þar í landi. Sama hlutfall fóstureyðinga hér á landi hefði þýtt um það bil 1100 fóstureyðingar á árinu 1972.

Hvað hefði það kostað þjóðina í beinum og óbeinum útgjöldum, þegar höfð er hliðsjón af stórkostlegri fjölgun legudaga á sjúkrahúsum (daggjöld á Landsspítalanum eru ekki undir 5 þús. kr. á dag), fjölgun kvensjúkdómalækna og annars hjúkrunarliðs, félagsráðgjafa og annar starfsliðs, samkv. skilgreiningu n. á nauðsynlegri aðstöðu til að framkvæma slíkar aðgerðir?

Það má því ekki síður spyrja, hvort því gífurlega fjármagni, sem varið væri til fóstureyðinga samkv. till. n., væri ekki betur varið til uppbyggingar á öflugu varnaðarstarfi, sem betur væri fallið til að leysa þann félagslega vanda, sem leiðir til fóstureyðinga. Í þessu sambandi skal enn ítrekuð ábending n., er þegar hefur verið vitnað í hér að framan, „í því skyni að bæta afkomu einstæðra foreldra og barnmargra fjölskyldna og fyrirbyggja þörf fyrir fóstureyðingar af félagslegum ástæðum . . .“ N virðist því vera sammála því, sem vér — þ. e. þeir, sem gefa út þetta álit, sem ég er að vitna hér til, „leggjum höfuðáherslu á“ — og gerir líka — „að leggja skuli hina ríkustu áherslu á það, sem er kallað hér varnaðarstarf, það sé hið eina raunhæfa í þessum málum. Það starf er fyrirbyggjandi og miðar að því að leysa þann félagslega vanda, sem kona býr við þrátt fyrir fóstureyðingu. Rýmkun fóstureyðingarlöggjafar getur því ekki talist eðlileg ráðstöfun, meðan hin félagslegi vandi er óleystur. Byggjum vér þá skoðun á því grundvallarsjónarmiði, að á þjóðfélaginu hvíli sú skylda að koma á fót öflugu varnaðarstarfi, til þess að fóstureyðing sé ætíð í raun algert neyðarúrræði. Eins og bent hefur verið á áður samkv. reynslu annarra þjóða, er hætta á, að rýmkun fóstureyðingarlöggjafar við núverandi aðstæður leiði til þess, að varnaðarstarfið vilji gleymast, þar sem fóstureyðingin er nærtækasta leiðin til lausnar á vandanum.“

Ég hef nú, herra forseti, rakið í stuttu máli það, sem segir í álitsgerð n. þeirrar, sem biskup skipaði, um þann þátt í álitsgerðinni, sem fjallar um varnaðarstarf. Mér virðist, að þeir, sem þetta álit sömdu, hafi rök að mæla, og ég fyrir minn hlut geti gert orð þeirra að verulegu leyti að mínum orðum. Mér finnst eins og þeim, að vart séu forsendur fyrir hendi um rýmkun á fóstureyðingarlöggjöfinni, meðan það starf, sem hefur verið nefnt varnaðarstarf í þessum skrifum og tali, er ekki innt af hendi sem skyldi og framkvæmd þess hefur ekki verið tryggð.