19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

95. mál, fóstureyðingar

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Það segir nú sína sögu um samkomulagið á stjórnarheimilinu, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson skuli finna sig knúinn til þess að koma hér upp í ræðustól til að segja, að það sé rangt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh., að frv., sem hann hafi hér haft framsögu fyrir, sé á vegum ríkisstj. En nóg um það.

Það er ástæða til þess að fagna því, að mínum dómi, að frv. til l. um löggjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir skuli sjá dagsins ljós. Svo sem segir í grg. með frv., mun aðdragandi þessa máls vera sá, að fyrrv. heilbr.- og trmrh., Eggert G. Þorsteinsson, skipaði í mars 1970 n. til endurskoðunar l. um fóstureyðingar o. fl. Það virðist augljóst, að mikið starf liggur að baki samningu þessa frv. og hliðsjón hefur verið höfð af erlendri löggjöf um þetta efni, svo sem sjálfsagt er, en miklar breytingar hafa átt sé stað á þessu sviði á síðustu árum.

Þótt það út af fyrir sig sé fagnaðarefni og mjög tímabært, að þessi mál séu tekin til endurskoðunar og athugunar hér hjá okkur, hefur komið fram á opinberum vettvangi, að ekki eru allir á eitt sáttir um einstök atriði frv. Virðist svo sem ákaflega skiptar skoðanir séu meðal almennings um einstök atriði þess. Og það út af fyrir sig ætti ekki að vera mönnum undrunarefni, því að hér er um ákaflega vandasamt og viðkvæmt mál að ræða. Nokkrir aðilar hafa þegar sagt álit sitt á efni frv. og einstökum atriðum þess. Má þar telja Rauðsokkahreyfinguna, sem vill, að frv. verði samþykkt í óbreyttri mynd. Hins vegar eru læknar á öðru máli.

Á aðalfundi Læknafélags Íslands, sem haldinn var í Reykjavík 6.–8. sept. s. l., var samþykkt eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Læknafélags Íslands 1973 fagnar fyrirhugaðri endurskoðun á núgildandi löggjöf um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Fundurinn lýsir stuðningi við fram komnar tillögur um aukna fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og vill, að félagslegar ástæður einar saman séu nægjanlegar til þess að heimila fóstureyðingu.

Fundurinn lýsir eindreginni andstöðu við tillögu hinnar stjórnskipuðu n., að fóstureyðingar skuli heimilaðar að ósk konunnar eingöngu. Með slíku ákvæði er ákvörðun um aðgerð, sem valdið getur varanlegu heilsutjóni, tekin úr hendi læknisins og öryggi sjúklingsins þannig stefnt í óþarfa hættu.

Fundurinn lýsir stuðningi við þá hugmynd, að ófrjósemisaðgerðir verði gerðar frjálsar, en telur þó nauðsynlegt, að sett séu viss ákvæði til þess að fyrirbyggja og vernda fólk gagnvart litt hugsuðum og ótímabærum ófrjósemisaðgerðum.“

Svo mörg eru þau orð. Og í grg., sem sérstök n. hafði samið fyrir þennan fund, segir svo um þetta mál. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er tvímælalaust mjög tímabær breyting og til bóta að fella inn í lög sem þessi ákvæði um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Ákvæðin um þessa ráðgjöf og fræðslu eru hins vegar svo óákveðin, að þau binda ekki ríkisvaldið til aðgerða í þessu mjög svo aðkallandi máli. Til þess að eitthvað raunhæft verði gert í þessu efni, er nauðsynlegt, að skipaður verði ákveðinn aðili, einstaklingur eða n., sem sjái um framkvæmd þessa þáttar fræðslumála og hefði það verkefni að byggja upp þetta fræðslustarf, sem vissulega hlýtur að taka langan tíma að koma í viðunandi horf.

Sú breyting, að félagslegar ástæður einar saman heimili fóstureyðingu, er nægileg til þess að eyða vanda flestra þeirra kvenna, sem ekki fengju fóstureyðingu skv. núgildandi löggjöf.

Í tillögum hinnar stjórnskipuðu n., er gert ráð fyrir, að fóstureyðing sé heimiluð að ósk konunnar, ef gerð er fyrir lok 12. viku meðgöngutímans. Hér er í rauninni verið að heimila fóstureyðingu, án þess að fyrir hendi séu nokkrar félagslegar eða læknisfræðilegar ástæður. Verður að telja, að þetta ákvæði stangist á við það grundvallarsjónarmið, er þessi sama stjórnskipaða n. setur fram, að ávallt beri að lita á fóstureyðingu sem neyðarráðstöfun.

Ekki má gleyma því, að aðgerðir þær, sem af frjálsum fóstureyðingum mundi leiða, stangast ósjaldan á við siðgæðisvitund þess starfsfólks, sem við aðgerðirnar vinnur.“

Að lokum er bent á í þessari grg., að samþykkt ákvæðanna um frjálsar fóstureyðingar gæti haft í för með sér erfiðleika vegna sjúkrarúmsskorts; þannig að þessi ákvæði væru lítt framkvæmanleg við núverandi aðstæður.

Íslenska þjóðkirkjan hefur látið frá sér fara umsögn um grg. með þessu frv., og hefur hv. þm. Gunnar Gíslason gert ítarlega grein fyrir því viðhorfi, sem þar kemur fram.

Af því, sem ég hef hér stuttlega drepið á, er augljóst, að mismunandi skoðanir eru uppi um veigamikil atriði þessa frv. Þau rök, sem fram hafa komið varðandi ýmis atriði frv., sem deilu valda, verður að sjálfsögðu að athuga mjög vel og vandlega.

Ég á sæti í þeirri n., heilbr.- og trn., sem fær þetta frv. til athugunar, ef að líkum lætur, og gefst mér þar og öðrum nm. þá vonandi tækifæri til þess að kanna gaumgæfilega sem flestar hliðar þessa máls.