19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

95. mál, fóstureyðingar

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess nú við 1. umr. þessa máls að gerast mjög langorð um frv. það, sem hér er til umr. og ég vil fyllilega taka undir þau orð hæstv. heilbrrh., að frv. sé rætt æsingalaust og af fullri skynsemi og rökvísi.

Ég vil í upphafi máls míns fyllilega lýsa stuðningi mínum við þetta frv. og leyfi mér að vona að það verði samþykkt óbreytt eða a. m. k. að meginstefna þess, sem ég tel fólgna í 9. gr., nái fram að ganga hér á hinu háa Alþingi. Þetta ákvæði er tvímælalaust það, sem skiptir sköpum og gerir þetta frv. svo áhugavert meðal almennings sem raun ber vitni. 1. tölul. þeirrar gr. fjallar um það, að fóstureyðing sé heimil að ósk konu, ef aðgerðin er framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæla móti aðgerð. Ég vil þó vara við því, að þessi setning úr 9. gr. sé tekin úr samhengi. Ég hygg, að hv. þm. geti ekki tekið afstöðu til hennar án þess að líta á hana í ljósi I. kaflaus, sem fjallar um getnaðarvarnir, ráðgjöf og fræðslu, og í ljósi þess, sem segir í sömu gr., áframhaldi 9. gr., en þar segir með leyfi hæstv. forseta: „Skilyrði er, að konan hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerð og hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð stendur til boða í þjóðfélaginu fyrir þungaða konu og við barnsburð.“ Ég legg sérstaka áherslu á þetta og I. kaflann, vegna þess að mér þykja umsagnir lækna og presta, sem liggja fyrir, ekki hafa tekið nægjanlega tillit til þessara atriða.

Hv. 3. þm. Vestf. notaði ákaflega sterk orð áðan, þegar hann sagði, að þingflokkur SF gæti ekki lagt blessun sína yfir þá eyðingu lífs, sem gert væri ráð fyrir í þessu frv. Ég get ekki látið það átölulaust, að fólkið, sem samdi þetta frv., liggi undir því ámæli, að það standi að frv., sem fjalli um eyðingu lífs. Konurnar í n. þekki ég ekki nema að góðu, en auk þeirra eru læknar í n., og form. nefndarinnar er prófessor Pétur Jakobsson. Óhætt er að fullyrða, að margar íslenskar konur þekkja hann af öðru en því að vera talsmaður þess, að lífi sé eytt. Þvert á móti, að ég hygg.

Ég hef hins vegar aldrei skilið, hvers vegna atriði sem það, hvenær líf kvikni, er til umræðu nú. Það er ekkert í þessu frv., sem gefur tilefni til þess, að menn séu að eyða tíma í svo tilgangslausar umræður. Ef þetta væri í fyrsta skipti, sem frv. um fóstureyðingu væri lagt fram, ef við hefðum enga löggjöf um fóstureyðingu, væri kannske skiljanlegt, að menn ræddu það. En nú höfum við löggjöf um fóstureyðingu, sem gerir ráð fyrir, að eyða megi fóstri innan 8 vikna og innan lengri tíma, ef þörf krefur. Ef menn vilja hins vegar halda því fram, að eitthvert líf kvikni á tímabilinu á milli 8 vikna og 12 vikna, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þá er hugsanlegt, að þeir vilji velta vöngum yfir þessu atriði. En ég get ekki ímyndað mér, að nokkrum finnist grundvöllur fyrir því að fara að hugleiða þetta 4 vikna tímabil, sem er eina breytingin frá núgildandi löggjöf, hvað þetta snertir.

Ég vil ræða nokkuð enn þá 9. gr. 1. tölul.; einkum og sér í lagi vegna þeirrar álitsgerðar, sem nokkrir prestar hafa sent frá sér. Ég vil leggja áherslu á, að það er ekki kirkjan í heild, sem hefur sent þetta frá sér. Það eru nokkrir menn, sem biskupinn einn hefur skipað, sem hafa samið þessa álitsgerð. Prestastefnan hefur aldrei fjallað um álitsgerðina eða samþykktina, og ég hygg, að hv. 2 þm. Norðurl. v. muni votta það með mér. Prestarnir lýsa sig andvíga því, að konan sjálf hafi endanlegt úrskurðarvald um það, hvort fóstureyðing skuli framkvæmd. Eins og hæstv. heilbrrh. kom inn á í framsöguræðu sinni, er hér um ákaflega viðamikið atriði að ræða, sem er ekki nokkur grundvöllur eða tök á að ræða til hlítar hér. En ég vil þó fara um þetta nokkrum orðum.

Prestar og læknar tilheyra stéttum, sem eru þannig í eðli sínu, að þeir geta mjög auðveldlega fallið í þá freistni að gerast siðferðislegir háyfirdómarar annarra. Þetta er þó það meginatriði, sem Lúther hafnaði hjá kaþólsku kirkjunni. Þetta finnst mér, að prestar þjóðkirkjunnar, hinnar evangelisk-lúthersku kirkju hér á Íslandi, ættu að hugleiða. Þetta er í raun og veru spurningin um það, hvort einstaklingur á sjálfur að bera siðferðislega ábyrgð á gerðum sínum eða hvort einhver annar á að gera það fyrir hann og þá einhver, sem er svo voldugur, að hann getur tekið sér það vald. Þegar siðferðilegur yfirdómur hefur getað tekið sér slíkt vald, sýnir sagan gegnum aldir, að það hefur ætíð leitt til tvöfalds siðgæðis og hræsni. Kaþólska kirkjan er dæmi þess út allar miðaldir. Við slíkar aðstæður verður siðferðilegur grundvöllur og siðferðilegt gildismat einstaklingsins ótraust, og það hlýtur að vera ótraust, meðan einstaklingurinn getur ekki tekið þessar ákvarðanir sjálfur í samræmi við sinn eigin þroska og tilfinningalíf. Hann ber ekki sjálfur ábyrgð á þeim ákvörðunum, sem aðrir taka fyrir hann. Afleiðing af þessari tilhögun eða þessu lífsviðhorfi er vitanlega sú, að siðferðisþroski einstaklingsins er vanræktur. Og það er í rauninni verið að koma í veg fyrir, að einstaklingurinn öðlist siðferðislegan þroska. Þjóðfélag, sem gerir einstaklinginn að þessu leyti ómyndugan, heyrir til liðnum tíma og er í engu samræmi við þær hugmyndir, sem uppi eru í dag.

Það hefur verið talað um rétt fósturs í þessu sambandi. Ég bið hv. þm., sem hér eru inni, að hugleiða það, að þegar kona tekur afstöðu í þessu máli, þá gerir hún það engan veginn eingöngu með sjálfa sig í huga. Eðli málsins samkvæmt er það gersamlega ómögulegt. Hún hlýtur að öllu eðlilegu að hugleiða tilvist og rétt fóstursins um leið.

Kirkjan hefur mikið rætt mannhelgi, og það er auðvitað allt rétt, sem þessir 6 eða 6 prestar segja í sinni grg., að það beri að leggja áherslu á félagslegar umbætur. Þó er eitt afar undarlegt í þeirri grg., og mig minnir, að það hafi komið fram hjá læknunum líka, að fóstureyðing sé allkostnaðarsöm getnaðarvörn fyrir þjóðfélagið. Ég veit nú ekki, við hverju menn búast, eftir að kona er orðin þunguð, en ég vil benda þeim á það, að fæðing kostar líka sitt, og ég fæ nú ekki annað séð, en dæmið ætti í stórum dráttum að ganga upp, nema þeir reikni þá með, að fóstureyðingar verði margfalt fleiri en fæðingar, en ég hef enga trú á því. Ég get sem sagt fyllilega tekið undir það, að félagslegar úrbætur séu nauðsynlegar og það sé þörf á að koma á fót öflugu varnaðarstarfi. En ég fæ ekki séð neina skynsemd í rökum kirkjunnar manna, þegar þeir segja, að vegna þess að varnaðarstarfi og félagslegum umbótum sé svo ábótavant sem raun her vitni, sé ekki þörf á rýmkun fóstureyðingarlöggjafar. Ég hefði þvert á móti talið, að þessu væri öfugt farið. í fullkomnu þjóðfélagi, þar sem enginn þarf að óttast um hag sinn og annarra, er síður þörf á fóstureyðingum. a. m. k. ekki af félagslegum ástæðum.

Um álit læknanna eða læknafundarins vil ég aðeins segja þetta: Mér skildist á því, sem lesið var hér upp áðan, — það verður leiðrétt, ef ég fer rangt með, — að þeir teldu, að ábyrgðin sem konunni væri fengin, væri læknisfræðilegt atriði, henni væri fengið úrskurðarvald í máli, sem heyrði undir þeirra svið sem lækna. Þessu vil ég mótmæla. Það er ekki hið læknisfræðilega vald þeirra, sem verður vefengt, því að þeir geta synjað um fóstureyðingu af læknisfræðilegum ástæðum. En það er hið siðferðilega vald þeirra, sem er verið að vefengja. Það er heldur sárt að vita til þess, ef rétt er, að þeim sé annarra um siðferðilega valdið en hitt.

Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vil eindregið hvetja hv. þm. til þess að reyna að skoða þetta frv. og meta það sjálfir, en falla ekki í gryfju miðaldahugarfars og halla sér upp að samþykktum örfárra manna, þó að þeir heiti prestar eða læknar.