19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

95. mál, fóstureyðingar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hafði alls ekki hugsað mér að taka til máls um þetta frv., þar sem ég á sæti í þeirri n., sem mun fjalla um það. En ég get þó ekki orða bundist vegna ummæla ýmissa þm. varðandi þetta mál, og hefur mér komið á óvart, hversu dræmar undirtektir þetta frv. hefur fengið hjá einstaka þm. Mín skoðun er einfaldlega sú, að þetta sé með merkari löggjöf, sem lögð er fram á haustþinginu og e. t. v. á öllu þessu þingári. Ég styð þetta frv. því í öllum meginatriðum, ekki síst hina merkilegu 9. gr., þar sem ósk konunnar ræður mestu um fóstureyðingu.

Þar sem þetta er mjög viðkvæmt mál, nota menn ýmislegt orðfæri, sem á ekki heima í þessum umr. T. d. var talað hér áðan um, að þetta frv. fæli í sér frjálsar fóstureyðingar. Þetta er alls ekki rétt að öllu leyti, því að frjáls fóstureyðing svonefnd miðast eingöngu við það, að fóstureyðingin eigi sér stað fyrir lok 12. viku meðgöngu og ef engar læknisfræðiástæður mótmæla aðgerð, þannig að hér er ekki hægt að tala alfarið um frjálsar fóstureyðingar. Það er algerlega villandi.

Þá minntist einn þm. á það, að barnsfaðirinn væri með öllu sniðgenginn. Þetta er ekki heldur rétt, því að í 4. tölul. 12 gr. er beinlínis sagt orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef mögulegt er, skal barnsfaðir taka þátt í umsókn konunnar, nema sérstakar ástæður mæli gegn því.“

Þannig er misskilningur að halda fram, að barnsfaðirinn sé sniðgenginn.

Í núgildandi l. er ekki tekið tillit til félagslegra ástæðna konunnar, þegar hún sækir um fóstureyðingu. Af þessu hefur sprottið, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, gífurlegt misrétti og ég vil segja ótrúleg meðferð á einstaklingnum. Þegar maður les einmitt umsóknir einstakra kvenna út frá félagslegum aðstæðum og þeim hefur verið hafnað, þá blöskrar manni slíkur lestur, og það er einmitt tilraun með þessu frv. ekki síst að koma til móts við félagslegar aðstæður þeirra kvenna, sem í hlut eiga. Mér kemur mjög á óvart og kannske ekki síst hjá konum það vantraust, sem þær bera til kynsystra sinna. Sækir í raun og veru nokkur kona um fóstureyðingu, nema hún telji sig hafa fulla ástæðu til þess? Sérhver kona, sem er heilbrigð, hlýtur að vilja ala sitt barn. Þetta hlýtur að vera grundvallaratriði. Það liggur í munni manna hér, að flestar konur muni þá sækja um fóstureyðingu innan þessa ákveðna tíma, þetta verði landlæg plága og allt í voða, en þetta hlýtur að vera reginmisskilningur. Og ég endurtek, að sérhver kona vill ala sitt barn og eiga það. Það er grundvallaratriðið. Þess vegna er undarlegt þetta vantraust, sem kemur fram á einstaklingnum og er auðvitað bara tilbúin röksemd til þess að andmæla þessari merkilegu nýjung.

Varðandi læknana skal ég ekki hafa mörg orð, en vil þó benda á eitt. Ég hygg, að þarna sé það sjónarmið hjá læknum, að þeir eigi að ráða algerlega yfir líkama manna, — þetta er sérfræðingasjónarmið, — þeir einir séu fullkomlega færir um að dæma um slíka hluti og einstaklingurinn eigi ekki að hafa neinn rétt þar um. Þetta er sú árátta hjá sérfræðingastéttum, sem er mjög vaxandi í þjóðfélaginu. Ég skal til gamans minna á arkitekta. Þeir vilja ráða, hvers konar hús þeir teikna fyrir húsbyggjendur, o. s. frv., og læknarnir telja, að verið sé að skerða þeirra sérfræðigrein, ef konan fær sjálf að ráða þessu. Ég hygg, að þarna sé fyrst og fremst um stéttarleg sjónarmið að ræða og læknarnir séu þarna að taka sér það vald, sem kirkjan hafði fyrr á öldum, það sé læknanna að ákveða þessa hluti. En á svona afstöðu tek ég ekki mark.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja, að fóstureyðingar eru alltaf neyðarúrræði. En ég treysti því, að sérhver kona muni í síðustu lög eyða fóstri, og það er mér nóg, því að það er það, sem skiptir máli, og konurnar hljóta að vera sá aðili, sem hefur úrskurðarvald í þessu efni. Þetta læt ég nægja að sinni, en ég styð þetta frv. í öllum meginatriðum.