20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

83. mál, trúarsöfnuður Ásatrúarmanna

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Félag Ásatrúarmanna var búið að starfa hér um alllangt skeið, áður en forstöðumanni þess væri veitt löggilding. Það þurfti ekkert leyfi til þess að starfa sem félag. Það er heimilt samkv. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnvöld höfðu enga heimild til að banna þennan félagsskap og gerðu enga tilraun til þess. En það var aðeins þegar varð spurning um það, hvort ætti að löggilda forstöðumann fyrir þetta félag til þess að framkvæma vissar embættisathafnir, sem hafa lögverkanir samkv. íslenskum lögum, sem spurningin kom til stjórnvalda. (Gripið fram í.) Gjöld þessara manna renna til þessa safnaðar, löggildingin hefur þá þýðingu. Án þess að ég ætli nú að fara út í skýringu á 63. gr. stjórnarskrárinnar, þá held ég, að það sé mjög mikill ágreiningur á á meðal fræðimanna um, hvort þar sé átt við gyðingstrú eða fleirgyðistrú. Sumir hafa jafnvel deilt um það, hvort okkar ágætu trúarbrögð væru eingyðistrúarbrögð eða ekki.