20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

83. mál, trúarsöfnuður Ásatrúarmanna

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það hefur vakið nokkra furðu, að forstöðumaður Ásatrúarmanna er kallaður allsherjargoði. Allsherjargoði er tignarheiti, sem afkomendur Ingólfs Arnarsonar báru. Mun þess fyrst getið í sambandi við Þormóð goða, sem var sonur Þorkels mána, en Þorkell var sonur Þorsteins Ingólfssonar. Og Þormóður mun hafa verið. — (Forsrh.: Má ég skjóta inn í til að spara mér að standa upp, að það heiti er ekki í löggildingarbréfi dómsmrn.) Þormóður goði var allsherjargoði, þegar kristni kom hér á land, og síðan mun þetta heiti hafa gengið í ætt Ingólfs lengi, því að þess er m. a. getið í Sturlungu, að Magnús goði Guðmundarson, sem var uppi um 1200, átti allsherjarbúð á Þingvöllum og mun hafa verið allsherjargoði. Þessi allsherjargoði hafði það starf m. a. að helga Alþ. eða setja Alþ., og mætti því segja, ef einhver ætti að bera það heiti nú, að þá væri nær sanni, að það væri hæstv. forseti Sþ., enda leiði hann þá sönnur að því, að hann sé af Ingólfi kominn. Ég veit ekki til þess, að á seinni öldum hafi þetta tignarheiti afkomenda Ingólfs verið notað um aðra, að öðru leyti en því, að Matthías Jochumsson mun einhvern tíma í kvæði hafa notað það um sjálfan Jón Sigurðsson. En ég held, að það séu fleiri en ég, sem hafa orðið nokkuð undrandi á því, að þetta gamla tignarheiti skuli notað um forstöðumanninn, og ég fyrir mitt leyti tel það í rauninni ekki getað komið til mála og þykir vænt um að heyra frá hæstv. forsrh., að dómsmrn. eða kirkjumrn. á þar engan hlut að.