20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

88. mál, ferðir hermanna af Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Einhver kynni að spyrja út af þessari fsp. minni á þskj. 96: „Hvaða reglur gilda um ferðir hermanna út af Keflavíkurflugv. til annarra staða á Íslandi.“ — hvers vegna ég sé að ónáða hæstv. utanrrh. með því að beina þessu til hans, af hverju ég hafi ekki leitað beint til þess aðila, sem hlýtur að vera kunnugastur því efni, sem þarna er spurt um, þ. e. a. s. til svonefndrar varnarmálanefndar. Því er til að svara, að sú n. neitar að veita nokkrar upplýsingar um þetta. Formaður hennar hefur lýst því yfir við eitt af dagblöðunum, að gert hafi verið samkomulag við bandarísku herstjórnina á Keflavíkurflugvelli þess efnis, að ekki skuli skýrt frá því opinberlega, hvaða reglur gildi um ferðir hermanna út af herstöðinni. Þetta eru leynireglur, sem íslenskt dagblað getur ekki fengið. Nú reynir á, hvort hið sama skuli gilda um sjálft Alþ. Íslendinga, að því sé einnig synjað um upplýsingar um þessar reglur. Ég trúi því ekki, að sú verði raunin, enda þykist ég vita, að hið furðulega samkomulag, sem formaður varnarmálanefndar talar um, hafi verið gert, áður en núv. hæstv. utanrrh. tók við embætti.

En hvað þá um þær reglur, sem sá mæti maður, Kristinn Guðmundsson, setti í utanrrh.-tíð sinni? Einhver kann nú að spyrja um það og þá um leið, hvort þær reglur hafi verið felldar úr gildi. Samkv. þeim reglum voru ferðaleyfi hermanna út af Keflavíkurflugvelli einskorðuð við einn dag í viku, þ. e. a. s. miðvikudag, og annaðhvort hafa þær reglur verið numdar úr gildi eða það er alla daga miðvikudagur samkv. almanaki bandaríska hersins. Bandarískir hermenn, í borgaralegum klæðum að vísu, fara alla daga vikunnar út af herstöðinni og leggja einkum leið sína um Suðurland og Vesturland. Þeir gista þar oft eina nótt eða fleiri, og ber stundum mikið á þeim gististöðum og í vissum samkomuhúsum. Í Reykjavík ber hins vegar lítið sem ekkert á þeim, svo að maður gæti spurt, hvort það sé e. t. v. í reglunum, að hermennirnir skuli sneiða hjá höfuðstaðnum, en leita sér þeim mun frekar frílistunar t. d. uppi á Akranesi eða á Selfossi. (Gripið fram í.) Ég er nú reyndar ekki viss um, að það sé alltaf til frílistunar, sem þeir fara út af Keflavíkurflugvelli. Það er full ástæða til þess að ætla, að drjúgur hluti þeirra eiturlyfja, sem íslenskur æskulýður neytir, sé einmitt kominn af Keflavíkurflugvelli, enda mun tolleftirlítið vera harla lítið og stundum alls ekki neitt, þegar hermenn koma á Keflavíkurflugvöll. Væri raunar fróðlegt að vita einnig, hvaða reglur gilda í því efni. Það er a. m. k. víst, að það sýnist fátt því til fyrirstöðu, að hermenn geti stundað eiturlyfjasmygl í stórum stíl utanlands frá og inn á Keflavíkurflugvöll, og það virðist ekki heldur mikið því til fyrirstöðu, að þeir komi eitrinu út af Keflavíkurflugvelli til hugsanlegra viðskiptavina sinna í hópi íslensks æskulýðs. Svo frjálslegar virðast reglurnar.

Ég gæti, ef tíminn leyfði, nefnt margar fleiri ástæður til þess, að ég hef leyft mér að beina þessari fsp. til hæstv. utanrrh., en látum þetta nægja að sinni.