20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

88. mál, ferðir hermanna af Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur beint til mín fsp. um það, hvaða reglur gildi um ferðir hermanna út af Keflavíkurflugvelli til annarra staða á Íslandi. Svo hljóðandi svar hefur mér borist frá varnarmáladeild utanrrn.:

Höfuðreglan er sú, að þegar ókvæntir hermenn fá leyfi til þess að heimsækja þéttbýlið í nágrenni NATO-stöðvarinnar, er þeim gert að skyldu að hlíta útivistartakmörkunum. Þessar takmarkanir fela það í sér, að innan ákveðinna tímamarka er hinum ókvæntu hermönnum gert að skyldu að halda sig utan opinberra samkomustaða og mega heldur ekki vera á götum úti, nema þeir séu beinlínis á leiðinni til stöðvarinnar. Undantekningar eru þó gerðar, þegar sóttar eru samkomur, sem menningarlegt gildi hafa, eða íþróttaviðburðir. Litlar sem engar hömlur eru á ferðum kvæntra hermanna og fjölskyldna þeirra.

Reglur þessar hafa gilt síðan árið 1954 og hafa aldrei verið birtar í einstökum atriðum, enda samkomulag við varnarliðið, að svo skuli ekki gert, — eins og hv. fyrirspyrjandi raunar drap hér á. — Samkv. upplýsingum lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli hefur ferðum varnarliðsmanna út fyrir varnarsvæðin farið fækkandi. Þetta eru þau svör, sem ég get gefið.