20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

88. mál, ferðir hermanna af Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Hann ítrekar það, sem formaður varnarmálanefndar segir, að það hafi verið gert samkomulag við bandarísku herstjórnina um að birta ekki opinberlega reglur um ferðir hermanna. Ég verð að lýsa furðu minni yfir þessu, og ég álít, að Alþ., ef það krefðist þess að fá gerða grein fyrir þessum reglum í smáatriðum, þá eigi það að sjálfsögðu fullan rétt á því.

En það er reyndar fleira, sem hér hefur verið talað um í sambandi við eftirlit á Keflavíkurflugvelli yfirleitt, t. d. að því er varðar flutninga á matvælum út af Vellinum. Það er tiltekinn tími á hverjum degi, sem Bandaríkjamenn mega flytja matvæli út af Vellinum út um svokallað „Meat Gate“, eins og þeir kalla það sjálfir, eða „Matarhlið“, sem Íslendingar kalla. Þarna flytja þeir út ýmsar kjöttegundir, sem bannað er að flytja inn til Íslands, og menn sem kunnugir eru þarna, vita ekki til þess, að nokkurt eftirlit sé með því, að sjálfsögðu ekki neitt sótthreinsunareftirlit. En ákvæðin varðandi bann á innflutningi ýmissa kjöttegunda eru einmitt sprottið af því, að menn vilja verjast ýmsum hættulegum kvikfjársjúkdómum. Þetta er yfirleitt allt saman mjög svo losaralegt þarna á Vellinum, og ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. utanrrh., að hann taki betur til hendinni, að því er þetta varðar, og setji ákveðnari og gleggri reglur um þetta og afnemi umfram allt það leynibauk, sem á sér stað um reglurnar, og gangi einnig ríkar eftir því, að eftirlit sé hert, að því er varðar toll og ýmislegt, sem hermenn geta flutt inn, og einnig það, sem þeir geta farið með út af Vellinum.