20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

90. mál, endurskoðun laga um almannatryggingar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera hér enn einu sinni nokkra athugasemd við það, að hæstv. heilbr.- og trmrh. telur sér sæma í hvert skipti, sem við nokkrir sjálfstæðismenn viljum freista þess að fá nokkra leiðréttingu á almannatryggingal., að vera með skítkast í okkar garð út af stuðningi okkar við fyrrv. ríkisstj. og að hún hafi staðið svo illa að þessum málum, að við ættum raunar að skammast okkar og fara í felur og ekki að tala um þessi mál, það séu algerlega hans prívatmál. — Ég vil aðeins út af þessu vísa því til föðurhúsanna, að við megum ekki fást við þessi mál, og minni á, að fyrrv. ríkisstj. gerði þær lagabreyt., sem í meginatriðum er stuðst við í dag í þessum efnum. Við höfum hins vegar séð, að í framkvæmd væru nokkrir gallar á þessu og viljað freista þess að fá leiðréttingar þar á. Hæstv, ráðh. hefur í rauninni viðurkennt það í aðalatriðum, að við hefðum á réttu að standa í þessum efnum. En af því að hæstv. rh. er alltaf að tala um þetta við okkur, að við séum þarna í glerhúsi, vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh.: Hefur það nokkurn tíma komið fyrir hann, að hann hafi stutt ríkisstj., sem hann að öllu leyti hefur ekki verið ánægður með, m. a. í lífshagsmunamáli þjóðarinnar?