20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

90. mál, endurskoðun laga um almannatryggingar

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Ég vil þakka svör hæstv. ráðh. Mér fannst þau að vísu nokkuð óglögg. Svar við fyrri hluta fsp. minnar, hvað líði endurskoðun l. um almannatryggingar, var í raun og veru, að bráðlega mætti vænta þess, að frv. yrði lagt fram. Þetta var sagt fyrir nokkrum mánuðum, að bráðlega yrði lagt fram nýtt, endurskoðað frv. Ég geri ráð fyrir, að alla vega hljóti tíminn að styttast í það, að við sjáum hið nýja endurskoðaða frv.

Hæstv. ráðh. rakti hér nokkuð breytingar, sem fram hafa komið á þeim almannatryggingal., sem nú gilda og samþ. voru hér á Alþ. fyrir tveimur árum. Ég get ekki séð, að það skipti út af fyrir sig máli í sambandi við mína fsp., en er að sjálfsögðu ágætt til upprifjunar.

Ég vík að því, sem ég tel að hafi verið svar við síðari hluta fsp. minnar, og ég lýsi ánægju yfir því, að hæstv. ráðh. sagði, að nú yrði væntanlega horfið að því ráði að breyta ákvæðum um tekjutryggingu í þá átt, að nú kæmu einhverjar lítilsháttar tekjur bótaþega ekki að öllu leyti til skerðingar á þeim rétti, sem þeir annars eiga til tekjutryggingargreiðslu, en að hve miklu leyti lá ekki fyrir í svörum ráðh., og vildi ég því ítreka þá spurningu, ef svar við því er fyrir hendi, en að sjálfsögðu skil ég mætavel, að ekki sé hægt að svara því, ef till. endurskoðunarn. eru ekki enn þá tilbúnar um það efni.

Ég vil víkja sérstaklega að því, sem hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi, að ef að þessu ráði yrði horfið, teldi hann, að nauðsynlegt yrði eða réttlætanlegt að skerða lífeyri til sumra annarra ellilífeyrisþega. Ástæða er til að vara sérstaklega við þessu viðhorfi. Sá tími er löngu liðinn, að við getum í okkar þjóðfélagi verið að bera fram þau sjónarmið í tryggingal., sem voru á sínum tíma sveitarþegasjónarmið, ef svo má segja, og miðuðust við það, að það yrði að hjálpa fólki til að hafa til hnífs og skeiðar. Það er að sjálfsögðu ævinlega verkefni hins opinbera og þá sérstaklega sveitarfélaganna, að koma fólki til hjálpar, ef um algeran skort af einhverjum ástæðum er að ræða. En almennt tryggingakerfi hefur allt annað hlutverk. Í þeim þjóðfélögum nútímans, sem lengst eru komin á þessu sviði, er þessu sjónarmiði algerlega varpað fyrir róða, og nú ríkja þar önnur sjónarmið. Ég tel það tvímælalaust vera framtíðarstefnu í tryggingamálum, að við förum að hugsa til þess að miða hag bótaþega við það, að aðstæður þeirra skerðist sem minnst við þann atburð, sem veldur bótaréttinum, m. ö. o. að afkoma bótaþeganna verði í sem nánustu hlutfalli við fyrri kjör þeirra, og að þessu miða einmitt þær hugmyndir, sem menn ræða mjög um, um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn ellegar að lífeyrissjóðagreiðslur komi til viðbótar hinum almennu ellilífeyrisbótum eða örorkulífeyrisbófum úr tryggingakerfi ríkisins. Þarna tel ég vera um meginstefnu að ræða, sem vert er að hafa í huga við löggjöf um þessi efni í framtíðinni, og vil ítreka, að ég er eindregið mótfallin því, að við hverfum til baka til fortíðarinnar í þessu efni með því að taka upp þau illræmdu, ég vil segja ranglátu og kostnaðarsömu skerðingarákvæði, sem hér voru numin úr l. 1960, öllum til mikils léttis og til einföldunar á öllu kerfinu.