20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

90. mál, endurskoðun laga um almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af aths. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um þá hugmynd mína, að það gæti verið ástæða til þess að hætta að greiða ellilífeyri frá almannatryggingum til fólks, sem hefur mjög háar tekjur. Þar var ég ekki að hugsa um fólk, sem hefur til hnífs og skeiðar. Ég var að hugsa um þann hóp, sem fer sífellt vaxandi, sem hefur mjög há eftirlaun úr mörgum sjóðum, meira að segja úr mörgum sjóðum á vegum ríkisins, sjóðum, sem hafa verið verðtryggðir af almanna fé allan tímann. Ég veit dæmi um slíkt fólk, sem hefur hærri tekjur, eftir að það hættir að vinna, en það hefur nokkurn tíma haft áður. Mér finnst furðulegt, að þetta fólk skuli yfirleitt hirða bætur almannatrygginga, og mér finnst það ekki eiga neinn rétt á því. Það er fólk í tekjustiga af þessu tagi, sem ég var að hugsa um.