20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

368. mál, hitaveituframkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Fsp., eins og hv. þm. orðaði hana í máli sínu hér áðan, er ákaflega einföld og auðskilin. Hins vegar fylgir henni á þskj. aukasetning, sem er dálítið torskilin, þar sem sagt er, að ákveðin arðsemi af rekstri Hitaveitu Reykjavíkur sé háð því, að framkvæmdahraði geti orðið svo sem ráð er fyrir gert í samningnum. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. orði þetta á öfugan hátt og hann eigi við, að framkvæmdahraðinn sé háður arðseminni, að það sé arðsemin, sem er forsendan, og í samræmi við það hef ég hagað mínu svari.

Þessi fsp. gefur tilefni til að rifja upp með örfáum orðum forsögu þessa máls. Viðræður forráðamanna Kópavogs og Hafnarfjarðar annars vegar og fulltrúa Reykjavíkurborgar og Hitaveitu Reykjavíkur hins vegar, um, að Hitaveita Reykjavíkur taki að sér lögn og rekstur hitaveitu á þessum stöðum, munu hafa hafist fyrir alvöru á árinu 1971 og lauk, svo sem kunnugt er, með samningi milli bæjarstjórnar Kópavogs og Reykjavíkurborgar 30. nóvember 1972 og síðan samskonar samningi milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og Reykjavíkurborgar, sem dagsettur var í október í haust. Í báðum þessum samningum er í 2. gr. þeirra ákvæði um tímamörk framkvæmda þeirra, er Hitaveita Reykjavíkur tekur að sér, þ. e. lögn dreifikerfis í Kópavogi á árunum 1973–1976 og lögn aðfærsluæðar og dreifikerfis í Hafnarfirði á árunum 1974–1978. Í báðum tilvikum eru skuldbindingar Hitaveitu Reykjavíkur með þeim fyrirvara, að gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur verði á ofangreindum tímabilum ákveðin þannig, að árlegur rekstrararður verði a. m. k. 7% af endurmetinni fjárfestingu veitunnar. Verði því skilyrði ekki fullnægt, áskilur Hitaveita Reykjavíkur sér rétt til endurskoðunar á framkvæmdahraða og lengingar á tímaáætlun framkvæmda, og skal um þær breytingar haft samráð við hlutaðeigandi bæjarstjórnir.

Ástæða er til að vekja athygli á því, að hér áskilur Hitaveita Reykjavíkur sér einungis rétt til að draga úr framkvæmdahraða og þá eftir nánara samkomulagi við viðsemjendur. Hér er sem sé um að ræða skilyrta heimild, sem að sjálfsögðu er enn ekki vitað, hvort notuð kann að verða.

Þá er rétt að víkja nokkuð að beiðnum Hitaveitu Reykjavíkur um hækkun á gjaldskrá, sem taldar eru koma þessu máli mjög svo við.

Með bréfi borgarstjórans í Reykjavík dags. 6. des. 1972, var óskað eftir gjaldskrárhækkun, sem næmi 13%. Hinn 28. s. m. eða 3 vikum seinna er þessi hækkunarbeiðni talin nauðsynleg 17,9%. Og loks er með bréfi borgarstjórans í Reykjav. 28. febr. óskað eftir hækkun, sem nemi 29,6%. Við erum vanir mikilli verðhækkanagleði hjá ráðamönnum Reykjavíkurborgar, en þetta held ég sé engu að síður mesta hrotan.

Í samræmi við umsögn Framkvæmdastofnunar, dags. 8. mars 1973, var leyfð 20% hækkun og ný gjaldskrá staðfest hinn 12. mars 1973, sem fól þessa hækkun í sér. Var þá að sjálfsögðu reiknað með því að sú afgreiðsla entist árið út. Með bréfi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 22. ágúst í haust, var þó enn óskað eftir hækkun, sem næmi 12%. Í öllum þessum beiðnum eru umbeðnar hækkanir rökstuddar með ákvæðunum um 7% lágmarksarðgjöld fyrirtækisins, sem gert er að skilyrði frá Alþjóðabankanum vegna lána.

Þetta skilyrði hefur Hitaveita Reykjavíkur, eins og ég gat um áðan, tengt samningum sínum við Kópavog og Hafnarfjörð, enda hafa ráðamenn þeirra bæjarfélaga sýnt mikinn áhuga á því, að hitaveitugjöld í Reykjavík yrðu hækkuð af þessum ástæðum. Hér er þó einvörðungu um að ræða einhliða fyrirvara frá Hitaveitu Reykjavíkur, og skuldbindur sá fyrirvari hvorki Alþ. ríkisstj. né nokkurn annan aðila. Þótt Hitaveita Reykjavíkur hafi á sínum tíma fengið lán hjá Alþjóðabankanum til tiltekinna verkefna með skuldbindingum um 7% arðgjöf, merkir það auðvitað engan veginn, að ekki sé unnt að ráðast í aðrar framkvæmdir á öðrum forsendum, þ. á m. lagningu hitaveitu til Kópavogs og Hafnarfjarðar. Fæstir þeir, sem ráðast í fjárfestingu á Íslandi, eiga þess nokkurn kost að gera slíkar kröfur fyrirfram, og hafa Hitaveita Reykjavíkur og Landsvirkjun notið mikilla forréttinda með því að geta í sífellu vitnað í skilyrði frá erlendum banka. Með þessu er ég þó engan veginn að segja, að ég telji þessar forsendur rangar. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar, að við Íslendingar eigum enn eftir að læra þau sannindi, að mikilvæg fyrirtæki í félagseign verða að skila lágmarksarði og geta þannig lagt fram af eigin aflafé til aukinna framkvæmda.

Mér er engin launung á því, að ég var fyrir mitt leyti hlynntur því, að fallist yrði á umsókn Hitaveitu Reykjavíkur nú í haust, enda þótt sú skoðun mín ætti ekki byr innan ríkisstj. Var umsókninni að lokum hafnað með bréfi 8. þ. m. Á þeirri afgreiðslu ber ég að sjálfsögðu fulla ábyrgð ásamt samráðherrum mínum. Ástæðan fyrir þessari neitun er sú ein, að ríkisstj. er í sífellu að reyna að hamla gegn hinni öru verðbólguþróun á Íslandi. Við höfum ekki áhuga á því að hækka hitunarkostnað allra Reykvíkinga tvisvar á ári. Við höfum ekki heldur áhuga á því, að slík hækkun spenni upp vísitöluna og þar með tilkostnað atvinnuveganna, og þar komum við að staðreynd, sem vert er að menn muni eftir: Vísitölufjölskyldan á sem sé heima í Reykjavík. Hækkun á raforku og heitu vatni í Reykjavík hefur áhrif á vísitöluna. Hitt kemur vísitölunni ekkert við, þótt almenningur í Hafnarfirði og raunar hvarvetna um land, þar sem olía er notuð, verði að greiða meira en tvöfalt meira fyrir húshitun en þeir, sem í höfuðborginni búa. Hér er um að ræða eina afleiðinguna af því furðulega vísitölukerfi, sem við búum við. Nú er rætt um það í fullri alvöru að breyta því kerfi eitthvað í skynsamlegra horf, og vil ég í því sambandi bera fram þá till., að vísitölufjölskyldan fái sér nýja íbúð og setjist t. d. að í Hafnarfirði, þá mundu ýmis gjaldskrármál leysast og snúa öðruvísi við en þau gera núna.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að eins ör og hækkunin hefur verið á olíuverðinu nú að undanförnu, hljóti þessi umsókn Hitaveitu Reykjavíkur um breytta gjaldskrá að koma til nýrrar athugunar nú mjög fljótlega.

Loks skal vikið nokkuð að sjálfum samningnum milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og borgarstjórnar Reykjavíkur um hitaveitu í Hafnarfirði. Þessi samningur hefur verið staðfestur af bæjarstjórn og borgarstjórn, og hinn 18. okt. s. l. fór bæjarstjórinn í Hafnarfirði fram á það við iðnrn., að heimilað sé framsal einkaleyfis til Hitaveitu Reykjavíkur til að starfrækja hitaveitu í Hafnarfirði með þeim skilmálum, sem nánar er frá greint í samningunum. Rn hefur haft þennan samning til athugunar og óskað umsagnar Orkustofnunar um hann. Orkustofnun telur, að nokkuð þurfi að athuga þennan samning með tilliti til orkulaga og skuli þá nefnd aðallega þrjú atriði:

Í 11. gr. samningsins er gert ráð fyrir einkarétti Hitaveitu Reykjavíkur til jarðhitaleitar. Einkaréttur þessi hlýtur að takmarkast af ákvæðum 15. gr. orkulaga um rétt ríkisins til að láta rannsaka jarðhita hvar sem er á landi hér og skyldur landeiganda til að þola óhindraðan aðgang þess vegna að landareigninni.

Í öðru lagi takmarkast réttindaafsal á jarðhitaréttindum í Krýsuvík af ákvæðum í afsali ríkissjóðs til Hafnarfjarðar á Krýsuvíkurréttindum, dags. 20. febr. 1941, sbr. heimildalög afsalsins nr. 101/1940 og nr. 11/1936. Hafnarfjarðarkaupstaður sem landeigandi, samkv. 16 gr. orkulaga veitir ráðherra rétt til að skilja jarðhitaréttindi frá jörð sinni Krýsuvík, en í 11. gr. 2. málsgr. samningsins virðist vera um um slíkan aðskilnað að ræða.

Samningsaðilum verður nú gerð nánari grein fyrir þessum lögfræðilegu atriðum, en að þeim leiðréttum sér rn. ekkert því til fyrirstöðu, að samningur þessi verði staðfestur, ef báðir aðilar óska, og þá væntanlega í því formi, að gefið verði út heildarleyfi fyrir Hitaveitu Reykjavíkur, sem spanni yfir Reykjavík, Kópavog og Hafnarfjörð — og Garðahrepp, ef þess verður óskað. Rn. er það fullkomlega ljóst, að hér er um að ræða ákaflega stórfellt hagsmunamál fyrir íbúa þessara byggðalaga, og mun að sínu leyti reyna að stuðla að því, að hitaveituframkvæmdir þarna geti gengið eins hratt og unnt er.