20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

368. mál, hitaveituframkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Nokkrar athugasemdir vegna ummæla hæstv. iðnrh. áðan. Hann taldi það mikla verðhækkunargleði hjá borgaryfirvöldum Reykjavíkur að fara fram á frá því í desembermánuði 1972 og fram í febrúar 1973 þrjár verðhækkanir, stighækkandi. Þetta er aðeins vísbending um dýrtíðarþróunina undir stjórn þessa hæstv. ráðh., og það er ekki von, að 20% hækkun, sem gefin er heimild fyrir 12. mars og nemur aðeins 2/3 af umbeðinni hækkun, vel rökstuddri, dugi síðan árið út, eins og verðhækkanir hafa verið á þessu ári. Ráðh. veit, að á einu ári hefur dýrtíðaraukningin verið á millj. 20 og 25%.

Hæstv. ráðh. taldi, að 7% arðsemisskilyrði Alþjóðabankans gagnvart Hitaveitunni mundi ekki skuldbinda ríkisstjórnina. Ég er á öndverðum meiði við ráðherrann, vegna þess að ríkisstj. ábyrgist lán Hitaveitunnar gagnvart Alþjóðabankanum og að einstök skilyrði þess lánssamnings séu haldin. Þess vegna er ríkisstj. skuldbundin til að sjá um, að þessu arðsemisskilyrði sé fullnægt, enda hefur ráðh. viðurkennt það gagnvart Landsvirkjun ok yfirleitt veitt þær hækkunarbeiðnir, sem Landsvirkjun hefur farið fram á, en þó þannig, að dregist hefur kannske einn mánuð að veita þá verðhækkun, þ. e. a. s. eftir því, hvort búið var að reikna vísitöluna út eða ekki. Slík er umhyggja ráðh. gagnvart launþegum í landinn.

Það er svo með sérstökum hætti, sem ríkisstj. bendir þessum fyrirtækjum á að mæta fjárskorti, vegna þess að þau fá ekki að hækka verð á þjónustu sinni. Það er með erlendum lántökum. Erlendar lántökur eiga að bera uppi rekstrartap, eiga að auka spennuna innanlands, eiga að mynda eftirspurn eftir vöru og þjónustu, en síðan verða auðvitað launþegar að greiða þessi lán með vöxtum og vaxtavöxtum í enn þá dýrara verði á þjónustu á hverjum tíma.

En auðvitað var hæstv. ráðh. fylgjandi verðhækkun, það voru bara hinir ráðh., sem voru ekki jafnskynsamir og hann að fylgja verðhækkunarbeiðninni.