20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

369. mál, breytingar á skattalögum

Fyrirspyrjandi (Karl St. Guðnason):

Herra forseti. Nú þessa daga standa yfir viðræður Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands um gerð næstu kjarasamninga. Viðræður þessar hafa verið þunglamalegar, og er staðan nánast óbreytt frá því er viðræður hófust. Síðustu kjarasamningar runnu út 1. nóv. s. l., svo að ljóst má vera, að komist ekki skriður á þessar viðræður, hlýtur að draga til stórtíðinda innan skamms.

Er verkalýðsfélögin voru að móta kröfur sínar, kom sú skoðun fram hjá hverju einasta verkalýðsfélagi, að skattar þyrftu að lækka verulega hjá þeim lægst launuðu. Einkum horfðu menn til þess fólks, er vinnur í fiski, vinnur við að bjarga dýrmætum sjávarafla frá skemmdum. Nú er ástandið þannig í þessum höfuðatvinnuvegi, að fólk vill helst ekki nálægt fiskvinnu koma. Ástandið á s. l. vetrarvertíð var með versta móti. Þrátt fyrir auglýsingar og hvatningar var viðast of lítill mannskapur við þessi störf. Þetta ástand hefur það í för með sér, að óeðlilega mikil vinna hleðst á fáar hendur, sem aftur verkar þannig, að mestur hluti yfir- og næturvinnu lendir í hæsta skattstiga.

Ljóst er, að auk lélegra launa á skattabyrðin verulegan þátt í vinnuaflsskorti fiskiðnaðarins. Það er nöturleg staðreynd, að þjóðfélagið skuli búa þannig að þeim lægst launuðu, að þeir lifi í vítahring yfirvinnu og skatta, að skattstiginn skuli vera þannig, að einstaklingur með 300–400 þús. kr. árstekjur skuli lenda í sama skattstiga og sá, er hefur 3–4 millj. kr. í tekjur.

Nú hafa verkalýðssamtökin gert sérstakar ályktanir um þessi mál, þar sem gerðar eru kröfur um, að skattar hinna lægst launuðu verði lækkaðir verulega, auk sérstakrar lækkunar fyrir fólk, sem vinnur við fiskiðnaðinn. Má því ljóst vera, að leiðréttingar í þessum efnum koma til með að hafa mikil áhrif á komandi samninga.

Vegna þess, hve samningar hafa dregist á langinn, hef ég lagt fram fsp. mína, og vona ég, að ríkisstj. gefi brátt tóninn í þessum efnum, ef það mætti verða til að auðvelda samningagerð þá, er nú stendur yfir. Því spyr ég í fyrsta lagi: „Hefur ríkisstj. í hyggju að veita fólki, er starfar við fiskvinnslu, sérstaka skattalækkun?“ Og í öðru lagi: „Eru aðrar skattalækkanir fyrirhugaðar í því skyni að koma til móts við kröfur verkalýðssamtakanna í þessum efnum ?“