20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

105. mál, staðsetning opinberra stofnana

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er rétt munað hjá hv. fyrirspyrjanda, að forsrh. skipaði í apríl 1972 n. til að kanna staðarval ríkisstofnana og athuga, hverjar breytingar koma helst til greina í því efni, eins og þar segir. Form. n. er dr. Ólafur Ragnar Grímsson, prófessor, og það, sem ég les upp hér á eftir, er svar frá honum, grg. um störf þessarar n. Segir þar svo:

N. hefur hagað störfum sínum á eftirfarandi hátt: Í fyrsta lagi hefur n. rætt tilgang og eðli stofnanaflutnings og þá erfiðleika, sem honum eru samfara, og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi, til þess að hann beri tilætlaðan árangur. Á grundvelli þessarar umræðu hefur n. komið sér saman um ákveðin atriði, sem sérstaklega verður að taka tillit til við ákvörðun um, hvort flytja eigi opinbera stofnun eða ekki. Meðal þessara atriða eru: a) Skipulag stofnunarinnar og helstu einkenni starfseminnar. b) Tengsl stofnunarinnar við aðrar stofnanir og hlutfallslegt sjálfstæði hennar í starfi. c) Möguleikar á skiptingu stofnunar í deildir eða útibú. d) Starfsmannafjöldi stofnunar og sérhæfni starfsfólks. e) Húsakostur stofnunar, hvort hún býr í varanlegu húsnæði eða leiguhúsnæði, hverjar eru húsnæðisþarfir hennar á næstu árum. f) Líkleg áhrif af flutningi stofnunarinnar á atvinnulíf, þjónustustarfsemi, vaxtarmöguleika og fleiri þætti almennrar byggðaþróunar.

Í öðru lagi hefur n. tekið til meðferðar um 150 opinberar stofnanir. N. hefur aflað margvíslegra gagna um starfsemi þeirra og nú þegar rætt sérstaklega við forstöðumenn um 100 stofnana til þess að kanna nánar möguleika á flutningi stofnana. Á grundvelli gagna og viðtala tekur n. afstöðu til þess, hvort og þá á hvern hátt eigi að flytja viðkomandi stofnun. N. hefur nú þegar tekið slíka afstöðu til tæplega 50 stofnana. Á næstu tveimur mánuðum mun n. ljúka viðtölum sínum við forstöðumenn ríkisstofnana og taka afstöðu til flutnings þeirra stofnana, sem eftir er að meta.

Í þriðja lagi hefur n. kynnt sér umr. og skýrslur um stofnanaflutning í nágrannalöndum. Störf n. af þessu tagi hafa erlendis tekið 3–5 ár.

Í fjórða lagi hefur n. aflað sér gagna um líklega framtíðarskipan nokkurra þjóðfélagsþátta, sem móta mjög skilyrði til stofnanaflutnings, og má sem dæmi nefna framtíðarþróun samgangna.

N. áformar að skila áliti í febrúar n. k.“ Þetta, sem ég las, var grg. frá form. þessarar n., og ég held, að fsp. gefi ekki tilefni til. að ég fari ítarlegar út í þessi mál. Vitaskuld er það svo, að bæði af stjórnvöldum og í lagafrv. er gert ráð fyrir því, að vissar stofnanir eða útibú frá þeim verði staðsettar úti um land, en ég skildi hv. fyrirspyrjanda svo, að það væri þessi heildaráætlun, sem hann væri að spyrja um.