20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

370. mál, áætlanagerð

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. boðaði nýja stefnu við valdatöku sína, var það einkum undir kjörorðunum: skipulagshyggja og áætlanabúskapur. Í framhaldi af því var það eitt af fyrstu verkum hennar að setja á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hafði það ætlunarverk að hrinda þessum boðorðum í framkvæmd. Nú hefur það vakið athygli alls þorra manna, að í öllum meiri háttar áætlunargerðum og viðameiri málum hefur Framkvæmdastofnun ríkisins virst sniðgengin, og reyndar hefur skipulagsleysið verið svo allsráðandi í allri stjórn ríkisvaldsins á framkvæmdum og efnahagsmálum, að hin boðaða stefna um áætlunarbúskap er orðin að hrópandi öfugmæli. Engu að síður er ekki að efast um, að Framkvæmdastofnun ríkisins vinni að ýmissi áætlanagerð, og jafnframt því, sem ég her fram þessa fsp. hafði ég hugsað mér að spyrjast fyrir um, hvernig þessari áætlanagerð ætti að hrinda í framkvæmd, og lék mér reyndar meiri hugur á að vita, hvernig með þær áætlanagerðir ætti að fara, þar sem mér býður í grun, að áætlanagerð sú, sem unnið er að hjá Framkvæmdastofnun ríkisins í ýmsum málum, sé unnin eftir lítilli áætlun. En engu að síður er fróðlegt að fá upplýsingar um það, að hvaða áætlunargerð sé unnið nú, og ég mun þá væntanlega síðar freista þess að fá upplýsingar um, hvernig framkvæma eigi þá áætlanagerð.