24.10.1973
Neðri deild: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

17. mál, heykögglaverksmiðjur ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, áður en þetta frv. fer til landbn. Ég tel, að það sé eðlilegt að setja lög um heykögglaverksmiðjur, eftir að reynslan hefur sýnt, að þær eiga fullan rétt á sér, og um leið og ákveðið er að byggja fleiri verksmiðjur.

Þetta frv. er viðurkenning á því, að stigið var rétt spor, þegar fyrsta verksmiðjan var sett á stofn í Gunnarsholti 1964. Árið 1970 yfirtók ríkið grasmjölsverksmiðjuna á Hvolsvelli og keypti hana af Sambandinu. Eftir það var sett heykögglaverksmiðja þar á stofn, þar sem grasmjölið hafði ekki gefið eins góða raun og kögglarnir. Á þessu ári hefur verið byggð verksmiðja í Dölum. Hún á vitanlega við sína byrjunarörðugleika að stríða og hefur verri aðstöðu en hinar tvær, þar sem stofnkostnaður hennar er miklu meiri. Því var lýst hér áðan, að ein verksmiðja væri í einkaeign. Fyrir þremur árum keypti Landnám ríkisins land norður í Skagafirði með það fyrir augum að koma upp heykögglaverksmiðju þar. Og Landnámið á einnig land í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem Suður-Þingeyingar hafa óskað eftir að fá verksmiðju. Í Hornafirði eða við Hornafjörð er einnig góður staður fyrir sams konar verksmiðju. En ég vil leggja áherslu á, að um leið og ákveðið er að auka heykögglaframleiðsluna, sem sparar erlent fóður, þá verði hverju sinni vel athugað, hvar er best að setja verksmiðju niður. Það er enginn vafi á því, að það mundi borga sig vel að stækka verksmiðjuna í Gunnarsholti til helminga og einnig verksmiðjuna á Hvolsvelli. Þessar verksmiðjur geta fengið nóg land og þær geta fengið nóg gras. Rekstur verksmiðjanna er undir því kominn, að það sé til nóg gras. Ég veit, að það hlýtur að verða á dagskrá og tekin ákvörðun um það mjög fljótlega að tvöfalda afköst verksmiðjanna fyrir austan um leið og haldið verður við þá áætlun eða réttara sagt ákvörðun um að byggja fleiri verksmiðjur.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því að setja á stofn eina stjórn yfir allar verksmiðjurnar og látið að því liggja, að í því geti verið nokkur sparnaður. Það efast ég mikið um. Með því fyrirkomulagi, sem núna er, er þriggja manna stjórn fyrir hverri verksmiðju. Það eru tveir heimamenn og einn maður frá Landnáminu, og mér er kunnugt um, að stjórnarkostnaður við Gunnarsholtsverksmiðjuna og Hvolsvallarverksmiðjuna er sama sem enginn. Hann er ekki umtalsverður. Þeir menn, sem hafa verið þar við stjórn, hafa ekki lagt áherslu á að fá veruleg laun fyrir þetta starf. Þeir hafa unnið starfið af áhuga og ósk um að geta komið málum þannig fyrir, að þjóðin geti notið góðs af því. Allir þeir, sem eru í stjórnum þessara verksmiðja, hafa það sem aukastarf, sem þeir hafa ekki krafist neinna verulegra launa fyrir. Ég legg áherslu á, að það er nauðsynlegt að hafa heimamenn, sem eru málunum kunnugir, í stjórnum verksmiðjanna. Verksmiðjunum verður betur stjórnað heldur en að fara að fjarstýra þeim með einni stjórn. Þegar svo er komið, að það er ein stjórn, sem á að grípa yfir margar verksmiðjur til stjórnar, þá er öruggt, að því fylgir kostnaður og sú stjórn verður hátt launuð.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það mundi felast sparnaður í því að hafa sameiginlegt bókhald. Ég skal upplýsa það, að bókhaldið við tvær elstu verksmiðjurnar hefur verið mjög ódýrt og það hefur verið unnið, að ég ætla, að mestu hjá Landnáminu. Þessar verksmiðjur eru undir yfirstjórn Landnámsins í umboði landbrh. Það fer vel á því, að Landnám ríkisins hafi með þessi mál að gera, vegna þess að Landnámið á land undir verksmiðjurnar og er kunnugast öllum staðháttum. Þess vegna teldi ég það spor aftur á bak að hætta að nota Landnámið sem tengilið milli rn. og verksmiðjanna, eins og undanfarið hefur verið gert og gefist ágætlega.

Sannleikurinn er sá, að ég er mjög ánægður með það, að hæstv. ráðh. hefur skipað Dalaverksmiðjunni stjórn með sama hætti og gert var í Gunnarsholtsverksmiðjunni og Hvolsvallarverksmiðjunni. Hæstv. ráðh. hefur skipað tvo heimamenn í stjórn Dalaverksmiðjunnar og landnámsstjóra. Er það alveg með sama hætti og áður var gert, eins og vel hefur gefist. En það brýtur í bága við það, sem þetta frv. ætlast til að verði í framtíðinni. Ég vænti þess, að bæði hæstv. ráðh. og landbn. taki þetta til íhugunar og breyti frv. þannig, að það verði áfram stuðst við þá reynslu, sem hefur gefist vel og verið ódýr í framkvæmd.

Ég vil benda á, að hv. landbn. ætti að senda frv. til umsagnar, ekki aðeins landnámsstjóra, heldur einnig til umsagnar landnámsstjórnar. Það er nauðsynlegt fyrir þn. og fyrir Alþ. að fá umsögn landnámsstjórnar einmitt um þetta, þar sem landnámsstjórn og landnámsstjóri þekkja þetta best. Ég tel, að það þurfi að breyta frv. í þessa átt.

Þá er það 1. gr. Þar er sagt:

„Landbrh. ákveður, í samráði við Búnaðarfélag Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins, stofnun heykögglaverksmiðja.“

Ég held, að ekki ætti að vera að hafa Framkvæmdastofnun ríkisins í þessari gr. Ég held, að margir hv. þm. sjái þá draumsýn framundan, að Framkvæmdastofnun ríkisins verði afnumin úr lögum. En Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins eru réttir aðilar. Þá er stuðst við þá aðila, sem hafa með málin að gera og þekkja best til þeirra, en fyrir alla muni að strika Framkvæmdastofnun ríkisins út. Og vissulega hafa margir þm. glaðst yfir því, að hæstv. ríkisstj. sjálf er byrjuð á því að reyta fjaðrirnar af Framkvæmdastofnun ríkisins, sem átti að verða óskabarn. Það verða margir hv. þm., sem verða fúsir til þess að hjálpa hæstv. ríkisstj. til þess að leggja þá óþörfu og dýru stofnun niður.

Svo er það 4. gr., sem vitanlega breytist í samræmi við þá breytingu, sem lagt er til, að gerð verði á 1. gr. Það verða stjórnir í staðinn fyrir stjórn. Og í 3. gr. er talað um, að ein stjórn skuli vera. Það þarf að breyta henni til samræmis við það, sem ég hér hef verið að segja. Og 11. gr. þarf að breyta þannig, að það verði ekki felldur úr gildi X. kafli, heldur aðeins 55. og 60. gr. X. kafla landnámslaganna.

Þetta eru aðeins ábendingar, sem ég vænti, að bæði hæstv. ráðh. og hv., landbn. vilji taka til vinsamlegrar athugunar.

Það er rétt, sem hér var sagt áðan. Hæstv. ráðh. upplýsti, að framleiðsla þessara fjögurra verksmiðja er allmikil, og það er sparnaður á innfluttu kjarnfóðri að auka heykögglaframleiðsluna. Heykögglarnir eru gott fóður. Það er talið, að það séu 1.2 kg í fóðureiningunni, en í fóðureiningu er eitt kg af góðu innfluttu mjöli. Og verðlagið á kögglunum hefur verið sett þannig nú, að það er aðeins ódýrara en fóðurblanda eða innflutt mjöl. Ef verðið er 15 kr. eða 15.60, þá jafngildir það því, að innflutt fóður væri milli 18 og 19 kr., en fóðurblandan mun nú vera komin um eða yfir 20 kr. Verðið er mjög sambærilegt og stenst samkeppni við innflutt fóður.

Mér er kunnugt um, að það er talið, að verksmiðjurnar í Gunnarsholti og á Stórólfshvoli séu reknar með hagnaði á þessu ári, verulegum hagnaði, vegna þess að innfluttur fóðurbætir hefur stórhækkað í verði, eins og kunnugt er, og þá verður vitanlega samkeppnisaðstaða verksmiðjanna miklu betri. Auk þess hefur verið gott grasár nú og nýtingartími verksmiðjanna, vegna þess að tíðarfar hefur verið gott, lengri en áður. En það er auðvitað nauðsynlegt fyrir verksmiðjurnar, að reksturinn geti verið hagkvæmur, og æskilegt að geta safnað í varasjóð til þess að geta aukið við starfsemina. Það ætti ekki að draga úr því, sem ég áðan sagði, að tvöfalda afköst verksmiðjanna í Gunnarsholti og á Stórólfshvoli, ef það sýnir sig, að þær eru reknar með góðum rekstrarhagnaði.