20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

370. mál, áætlanagerð

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Um leið og ég nota aðeins tækifærið til að þakka fyrir svarið, vil ég vekja athygli hæstv. forsrh. á því, að það þarf hvorki honum né öðrum að koma á óvart, að það geti vakið deilur, þegar minnst er á Framkvæmdastofnun ríkisins. Og þó að ekki hafi vakað fyrir mér að vekja slíkar deilur í fsp.-tíma, þá er það vissulega eðlilegt, að upp vakni ýmsar spurningar, þegar Framkvæmdastofnunina ber á góma og þegar skoðað er hlutverk þeirrar stofnunar, ekki síst með hliðsjón af þeim störfum, sem unnin eru þar.

Nú skal ég ekki gera lítið úr áætlanagerð og þeim áætlunum, sem unnið er að nú. En hitt er ljóst og vekur athygli af þessari upptalningu hæstv. ráðh., að allar þessar áætlanagerðir eru enn þá í deiglunni og ekki sjáanlegt, að niðurstöður liggi — nema þá í örfáum þeirra — fyrir innan skamms. Ég vil leggja á það áherslu, um leið og ég lýk máli mínu, að auðvitað þurfa áætlanir og áætlanagerð að vera með þeim hætti, að eitthvert gagn sé að þeim, að þær hafi eitthvert hagnýtt gildi, en ekki að það sé aðeins áætlað til þessa eins að áætla.