20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

370. mál, áætlanagerð

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. taldi upp þær landshlutaáætlanir, sem kvað nú vera unnið að, og síðast í þeirri upptalningu voru Vestfirðir ásamt Vesturlandi. Mér skildist, að það ætti að fara að byrja á áætlunargerð fyrir Vestfirði.

Mér kemur þetta nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir. Þarna eru teknar og nefndar á undan sumar byggðaáætlanir, sem ég hygg, að hafi ekki verið farið að nefna — og engar farið að nefna sérstaklega — þegar hafin var áætlunargerð fyrir Vestfirði.

Í nóv. 1971 svaraði hæstv. forsrh. fsp. frá mér um það, hvað liði framhaldi Vestfjarðaáætlunarinnar. Ég spurði að því, hvað væri gert ráð fyrir, að áætlunargerðin sjálf tæki langan tíma, annars vegar og hins vegar, hvað væri gert ráð fyrir, að framkvæmd verksins tæki langan tíma. Hæstv. ráðh. sagði, að Efnahagsstofnuninni hefði verið falið að vinna að framhaldi Vestfjarðaáætlunarinnar og hin væntanlega Framkvæmdastofnun mundi halda áfram með það verk. Það var svo að skilja á orðum hans, að það væri eitt af fyrstu verkefnum Framkvæmdastofnunarinnar að vinna þetta verk. Ráðh. tók einnig fram, að hann gerði ráð fyrir, að það tæki 5–6 ár að framkvæma framhald Vestfjarðaáætlunar, eftir að áætlanagerð væri lokið.

Í apríl s. l., 1973, gerði ég enn á ný fsp. til hæstv. ráðh. um sama efni í umr. um skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Þá kvað nokkuð annað við, því að þá sagði hæstv. ráðh., að það mundi taka 5–6 ár að gera Vestfjarðaáætlunina, svo tæki við framkvæmdatímabilið. Ég leyfði mér að efast um, að hæstv. ráðh. meinti þetta og hann myndi ekki, hvað hann áður var búinn að segja, en ég hef ekki fengið svar við þessu hjá hæstv. ráðh. Ég ítreka það, hvort það er óbifanleg stefna hæstv. ríkisstj. að setja framkvæmd Vestfjarðaáætlunar aftur fyrir allt annað, sem Framkvæmdastofnun ríkisins á að gera.