20.11.1973
Sameinað þing: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

6. mál, öryggismál Íslands

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Þm. Alþfl. hafa öðru sinni lagt fram till. til þál. um öryggismál Íslands. Þær hugmyndir, sem hreyft er með þessari till., komu fyrst fram innan raða flokksins á þingi hans fyrir liðlega ári og voru skömmu síðar fluttar inn á Alþ. Hlutu þær nokkra meðferð á síðasta þingi, var vísað til utanrmn., en náði ekki fullnaðarafgreiðslu í n. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég rifja upp efni till. með því að lesa hana upp:

„Þar eð tæknibreytingar síðustu ára hafa valdið því, að hernaðarleg þýðing Íslands felst nú að langmestu leyti í eftirliti með siglingum í og á hafinu milli Grænlands, Íslands og Færeyja, ályktar Alþ. að fela ríkisstj.:

1. að láta rannsaka, hvort Ísland geti verið óvopnuð eftirlitsstöð í sambandi við það öryggisbandalag, sem landið er aðili að, en síðar meir á vegum Sameinuðu þjóðanna, og

2. að rannsaka, hvort íslendingar geti með fjárhagslegri þátttöku bandalagsins komið upp sveit fullkominna, en óvopnaðra eftirlitsflugvéla, svo og nauðsynlegum björgunarflugvélum, og tekið við þessum þýðingarmesta hluta af verkefni varnarliðsins og stjórn varnarsvæðanna.“

Till. þessi gengur ekki lengra en að leggja til, að rannsakað verði, hvort þær hugmyndir, sem í henni felast, eru líklegar til að geta orðið lausn á öryggisvandamálum Íslands um nokkra framtíð eða hvort þær verða taldar óraunhæfar eða ólíklegar til að gegna því hlutverki. Allmiklar umr. hafa orðið um þessa till. síðan hún kom fyrst fram, og má á þeim heyra, að áhugi á þessum málum er mikill í landinu og menn velta fyrir sér, hvernig rétt verði að haga þessum málum á næstunni. Hefur raunar gefist ærið tilefni til umr. um öryggismálin í sambandi við stefnu núv. ríkisstj., eins og henni var lýst, þegar stjórnin kom til valda, og það, sem gerst hefur á þessu sviði síðan.

Í umr. till, hafa smám saman komið í ljós hópar, sem eru henni að verulegu leyti andsnúnir, svo og aðrir, sem telja hana líklega til að verða grundvöllur undir lausn öryggismálanna. Þeir, sem andsnúnir eru till., eru það að vísu af mjög mismunandi ástæðum. Svo virðist sem hugmyndir Íslendinga um öryggismál landsins falli aðallega í þrjá meginflokka. Í fyrsta flokknum eru þeir, sem vilja, að Ísland verði áfram í Atlantshafsbandalaginu og að Varnarlið Íslands, sem svo heitir, verði fyrst um sinn áfram í landinu. Í öðru lagi eru þeir, sem vilja, að varnarliðið fari úr landinu, og skiptast þeir aftur í minni hópa eftir því, hvort þeir vilja, að Ísland verði áfram í bandalaginu eða ekki, svo og eftir því, hverjar forsendur þeirra fyrir þessari afstöðu eru. Í þriðja lagi eru þeir, sem hafa, eins og Alþfl.-menn, leitað að einhverri leið, sem gæti sameinað það, að Íslendingar héldu áfram nánu samstarfi við nágranna sína um öryggis- og varnarmál, að Ísland yrði fyrst um sinn, þangað til betri skipan kemst á friðarmál í Evrópu og Norður-Atlantshafi, hluti af því varnarkerfi, sem það hefur verið í, en jafnframt þessu, að fullnægt verði þeirri vaxandi kröfu Íslendinga, og þá sérstaklega yngri kynslóðarinnar, að erlent herlið verði hér ekki um ófyrirsjáanlega framtíð.

Um fyrstu leiðina, að varnarliðið skuli vera hér um kyrrt vegna þess, hvernig ástand er í heimsmálum, hversu víða er ófriðlegt og hversu mikill vopnabúnaður er á hafinu í kringum okkur, er það að segja, að ýmsa er farið að gruna, að þær skoðanir kunni að leiða til þess, að varnarliðið verði hér um ófyrirsjáanlega framtíð. Það þarf mikinn bjartsýnismann til að búast við svo friðvænlegu ástandi, að ekki megi draga einhver stríð einhvers staðar á heimskringlunni fram sem rök fyrir því, að varnarlið þurfi að vera hér áfram. Það er þessi hætta á, að við venjumst slíku ástandi og förum að telja það eðlilegt, sem veldur því, að ýmsir, sem hafa stutt dvöl varnarliðsins hér, leita í huga sínum eftir því, hvort aðrar leiðir séu ekki finnanlegar.

Þegar rætt er um varnarliðið, sem hér er, virðast flestir gera ráð fyrir, að það sé fyrst og fremst samansett til að verja Ísland eitt gegn hugsanlegri árás, sem kynni að verða gerð á landið. Í grg. með till. þeirri til þál., sem Alþfl.-menn hafa flutt, er rakin sú þróun, sem hefur orðið á samsetningu varnarliðsins og hvernig það hefur breyst frá því að vera upphaflega herlið búið til þess að verja strendur landsins yfir í það, sem það er í dag: fyrst og fremst eftirlitssveitir, sem fylgjast með höfunum umhverfis landið. Ég leyfi mér að halda því fram, að lítill hluti af varnarliðinu, sem staðsett er hér á Íslandi í dag, sé beinlínis ætlaður til þess að verja landið í þeim bókstaflega skilningi að beita vopnum gegn hugsanlegum innrásaraðila.

Gerðar eru samþykktir um, að eftirlitsstöð sé ekki nóg, hér verði að vera varnarlið. Með þessum samþykktum er gerður greinarmunur á eftirlitsstöð með og án varnarliðs. Þá kemur til hugar, hvort raunverulegt efni slíkrar samþykktar sé það að krefjast stóraukinna varna Íslands, því að beint varnarlið er hér svo lítið.

Samkv. prentuðum heimildum, sem komið hafa fyrir sjónir manna hér á Íslandi, er samsetning varnarliðsins í dag þannig, að til þess teljast 3147 menn. Af þessum mönnum eru 2000 í bandaríska flotanum. Verulegur hluti þeirra annast almenn störf, sem mætti kalla heimilisrekstur, samgöngur og annað slíkt á flugvellinum. Annar hluti þessara sjóliða flýgur sumum af þeim eftirlits- og björgunarflugvélum, sem eru á flugvellinum. Þær eru ekki miklum vopnum búnar. Þessir 200 liðsmenn úr flotanum eru því ekki beinlínis varnarhermenn, heldur eru þeir það óbeinlínis, með því að í eftirlitinu sjálfu er kjarni varnanna fólginn. Þá er sagt, að hér séu um 1000 menn úr bandaríska flughernum, og þeir annast líka flug eftirlitsflugvéla, þ. á. m. nokkurra orrustuflugvéla, sem sendar hafa verið til að leita uppi sovéskar flugvélar og hafa tekið myndir af þeim. Það er nokkur vörn í þessum örfáu orrustuflugflugvélum, en varla svo, að það eitt mætti sín mikils. Hins vegar er það eftirlitshlutverk þessara aðila, sem veitir Íslandi þá vörn, sem það hefur.

Þá kem ég að þeim hluta varnarliðsins, sem er hermenn, þjálfaðir í vopnaburði daglega og beinlínis er ætlað til þess að beita vopnum gegn hugsanlegum árásaraðila. Þetta eru menn úr hinum annáluðu landgöngusveitum bandaríska flotans og eru 130 talsins, að sjálfsögðu notaðir fyrst og fremst sem öryggisverðir eða lögreglumenn. Í upphafi var varnarliðið að langmestu leyti skipað mönnum úr bandaríska landhernum. Þeir skiptu þá þúsundum. Þeir höfðu þau vopn, sem venjuleg eru til strandvarna. Nú eru aðeins tveir menn úr bandaríska hernum í varnarliðinu.

Við þetta bætast 15 menn úr strandgæsluliði, sem munu hafa með loranstöðvar að gera, ef réttar eru þær heimildir, sem ég gat um, að væru birtar, ég hef ekki fengið þessar tölur hjá opinberum aðilum.

Til fróðleiks get ég bætt því við, að við þessi 3 þús. manns bætast 2 þús. úr fjölskyldum þeirra, 68 kennarar og um 700 bandarískir og íslenskir borgarar, sem ekki eru einkennisklæddir, en búa á bækistöðinni. Alls eru þetta rétt yfir 5900 manns.

Það er augljóst af samsetningu þessa liðs og því, sem hún gefur til kynna, að varnir Íslands eru fólgnar í því, að landið er hluti af viðtækri varnarkeðju og að þetta lið heldur bækistöðvunum hér tilbúnum, ef á þeim þyrfti að halda. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt mál að fá liðsauka, ef þess gerðist brýn þörf. Þetta lið ber þess engan vott, að það eigi von á beinum árásum, heldur er það allt sniðið við eftirlitsstörf.

Þá vil ég víkja örlítið að þeim hugmyndum, að varnarliðið eigi að hverfa úr landi. Ég tel að þeir, sem hafa þær skoðanir, skiptist í stórum dráttum í tvo flokka. Annars vegar sá hópur manna, sem vísvitandi berst fyrir því að gerbreyta utanríkisstefnu Íslands, og er í stystu máli hægt að einkenna þá menn svo, að þá dreymir um að Ísland fái svipaða pólitíska stöðu og t. d. Kúba, bæði hvað innanlands- og utanríkismál snertir. Mikill meirihluti þeirra, sem hafa krafist þess, að varnarliðið fari, munu þó ekki vera í þessum hóp, heldur eingöngu íslenskir þjóðernissinnar, sem geta ekki sætt sig við, að hér sé erlent lið. Býst ég við, að langflest af æskufólkinu teljist til þess hóps.

Í grg. með till. okkar er sagt berum orðum, að við teljum, að það sé óhugsandi að láta varnarliðið fara skyndilega, án þess að eitthvað annað komi í staðinn. Ég hygg, að þeir, sem vilja, að varnarliðið fari, án þess að hafa gert sér grein fyrir nýrri pólitískri stöðu, sem Ísland kæmist þá í, hafi lítið hugsað um, hvað geti tekið við, ef varnarliðið færi.

Ástæðan til þess, að við teljum, að það verði eitthvað að koma í staðinn fyrir varnarliðið, er sú, að flugvöllurinn verður í Miðnesheiði áfram, ekki er ætlun okkar að eyðileggja hann, því að við þurfum sjálfir á honum að halda til annarra nota. Landfræðileg staða Reykjaness og landsins alls verður óbreytt, þýðing þessara staða og svæðisins alls verður eftir sem áður hin sama, jafnvel þó að varnarliðið verði tekið í burtu. Það er ekki hægt að stinga hausnum í sandinn hvað allt þetta varðar og láta eins og menn viti ekki af því.

Það fékkst dálítil reynsla af þessu í lok síðasta heimsófriðar 1946, þó að aðstæður væru þá að ýmsu leyti ólíkar því, sem nú er. Þegar Bandaríkin báðu Íslendinga um að veita sér herbækistöðvar til 99 ára, sameinuðust allir stjórnmálaflokkarnir í landinu um að svara þeirri ósk neitandi. Hygg ég, að aldrei hafi verið meiri eining í íslenskum utanríkismálum en þá var. Af þessu leiddi, að bandarískt herlið, hvaða nafni sem það nefnist, var kallað heim frá landi okkar. Þegar það ástand blasti við, varð þáv. forsrh. og öðrum, sem reyndust svipaðrar skoðunar og hann, ljóst, að það varð eitthvað að taka við, það varð eitthvað að gera við þessar stöðvar, það var ekki hægt að skilja þær eftir mannlausar, það var ekki hægt að sprengja þær í loft upp eða fjarlægja þær. Því gerðist það, að þáv. forsrh. Ólafur Thors hafði forustu um að gera samninginn, sem þá var gerður við Bandaríkjamenn, Keflavíkursamninginn. Ég hygg, að enginn maður muni ætla honum það látnum að það hafi verið um nokkur svikráð að ræða, því að hann var engin undantekning frá öðrum alþm. um að vilja, að bandaríska berliðið, sem hafði verið hér á stríðsárunum, hyrfi heim. Þegar horfst var í augu við staðreyndir málsins, var ekki hægt að ganga fram hjá því, að eitthvað varð að taka við af því liði, sem farið var, það varð að gera eitthvað við þau mannvirki, sem búið var að reisa í landinu.

Af þessum staðreyndum hefur sprottið það, sem kalla mætti þriðju leiðina í varnarmálum og þessi till. hallast að, sem sagt viðleitni til að gera sér grein fyrir því, hvort Íslendingar geti ekki smám saman tekið við stjórn þessara mannvirkja og tekið við mörgum af þeim störfum, sem talið er nauðsynlegt, að gegnt sé í sambandi við varnarmannvirkin, án þess þó að taka upp herþjónustu eða vopnabúnað. Það er eitt meginatriði í þeim hugmyndum, sem till. fjallar um, að breyttar aðstæður kunni að gera þetta kleift, þar sem þýðing stöðvanna á Íslandi felist nú í eftirliti, sem útheimti í sjálfu sér ekki vopnaburð. Mér er fullkomlega ljóst, að allar slíkar stöðvar þurfa að hafa öryggisgæslu, alveg eins og við þurfum vafalaust, Íslendingar að hafa einhverja gæslu til þess að tryggja, að 25 Arabar komi ekki fljúgandi um eina helgi og taki lýðveldið Ísland. Það væri hægt að taka alla ríkisstj. og forseta Íslands í einu litlu húsi í miðbænum í Reykjavík. Sem betur fer hefur þeim ekki dottið þetta í hug, en ég er ekki frá því, að þetta gæti gerst, og við hljótum að hugsa eitthvað fyrir slíkum hættum. Ég efast ekki um, að íslensk yfirvöld hafi gert það, enda hefur íslensk lögregla verið viðbúin ýmsu slíku allt frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Þegar litið er á till. okkar Alþfl.-manna og hún íhuguð, hlýtur að verða ljóst, að hana má framkvæma á margvíslegan hátt, og í öðru lagi, að það hlýtur að taka töluverðan tíma og verður að gerast í áföngum. Mikið af þeim störfum, sem um er að ræða, er þess eðlis, að það þarf að þjálfa fólk til þeirra, og mundi taka nokkurn tíma, bæði að fá fólk, sem vill sinna slíkum störfum, og þjálfa það. Þetta getur ekki gerst á einni nóttu og er það að því leyti til miklu flóknari lausn á málinu en að segja varnarliðinu hreinlega að hypja sig fyrir einhvern ákveðinn dag.

Ég tel að það mundi verða nauðsynlegt að framkvæma þessa till. í áföngum. Mætti hugsa sér sem áfanga að taka við sjálfri yfirstjórn flugvallarins. Þar á ég ekki við neina herstjórn, heldur stjórn vallarins eins og einni borg er stjórnað, en hann er 6. þús. manna bær. Það mætti í öðru lagi hugsa sér sem áfanga, að nokkrir tugir eða jafnvel hundruð Íslendinga tækju við ýmsum störfum, sem menn yrðu sammála um, að þyrftu að verða varanleg, til þess að þessi bækistöð yrði áfram til í því formi, sem við viljum hafa hana. Þá er hugsanlegt, að Landhelgisgæslan taki algerlega við björgunarflugi, og gæti það byrjað á þann hátt, að Atlantshafsbandalagið legði til flugvélar og greiddi einhvern hluta af kostnaði. Efast ég ekki um, að á nokkrum tíma gætu Íslendingar tekið við því starfi. Mér er tjáð, að það séu til tæplega 100 íslenskir flugmenn, sem ekki hafa getað fengið störf hjá íslenskum flugfélögum og eru víðs vegar um veröldina. Það gefur nokkurt hugboð bæði um áhuga, sem er á slíkum störfum, og getu. Mér finnst, að það væri ekki illa viðeigandi, að Landhelgisgæslan okkar annaðist allt björgunarflug á þessu svæði og gæti þá haft þar með ýmislegt eftirlitsflug, bæði með landhelgi okkar og mengunarhættu, og annað slíkt.

Varla þarf að nefna þá framkvæmd, að farþegaflugsafgreiðsla verði algerlega aðskilin frá öllu öðru á flugvellinum og að vel verði yfir hana byggt, svo að hún sómi okkur sem anddyri þessa lands fyrir þá, sem hingað koma. Það mál hefur þegar hlotið nokkurn undirbúning, og ég vona, að það haldi áfram.

Á síðara stigi virðist hugsanlegt, að Íslendingar gætu tekið við stjórn radarstöðvanna og þeirrar einu loranstöðvar, sem við stjórnum ekki nú þegar. Þá væri í raun og veru ekki mikið eftir annað en sjálft eftirlitsflugið, og gæti það síðar, þegar fyrri áfangar hafa komist í höfn, orðið ákvörðun íslenskra stjórnvalda, hvort því yrði breytt og það rekið frá öðrum löndum eða Íslendingar kærðu sig um að taka á einhvern hátt óvopnaðan þátt í því.

Ég vil leggja ríka áherslu á, að framkvæmd slíkra hugmynda hlyti að verða í áföngum og hún hlyti að taka nokkurn tíma, enda væri verið að leggja grunn að því, að við gætum síðan varanlega annast stjórn þessara stöðva á hvern þann hátt, sem ríkisstjórnir íslands í framtíðinni kjósa. Það er talið nauðsynlegt fyrir stjórnir landa, ekki síst í öryggismálum, að eiga jafnan valkosti. Ég tel það fram sem einn meginkost þessara hugmynda, ef framkvæmdar væru, að ríkisstjórnir Íslands á komandi árum mundu jafnan eiga mismunandi kosti, sem þær gætu valið eftir því, hvernig þær meta öryggi landsins og stöðu þess gagnvart öðrum löndum, svo og alþjóðaástand. Ef íslensk ríkisstj. metur ástandið svo, að hætta sé á ferðum, getur hún kallað til aðila, sem hún kann að hafa bandalag við, hvort sem það er Atlantshafsbandalagið eða eitthvað, sem kynni að taka við af því eða koma fram á næstu áratugum. Ef ríkisstjórnir Íslands á hinn bóginn meta ástand heimsmála svo, að það sé orðið nægilega friðvænlegt, til þess að allt þetta eftirlitsflug og annað, sem því fylgir, geti farið héðan, verður við búnir að byggja upp mannafla og skipuleggja starfsemi þannig, að við getum látið þessa aðila fara, en haldið þó jafnframt við þeim mannvirkjum, sem ástæða er talin til. Þessi lausu er því byggð á þeirri grundvallarhugmynd, að Ísland verði fyrst um sinn áfram í Atlantshafsbandalaginu. Þær skoðanir eru ríkjandi innan Alþfl., að svo þurfi að vera, þangað til núv. samningaviðleitni, sem stendur yfir í Evrópu leiðir til þess, að komið verður upp öðru öryggiskerfi, sem við teljum betra.

Í öðru lagi tel ég, að með þessu móti yrði ekki á stundinni raskað þeirri staðreynd, að Ísland er hluti af varnarkerfi, sem nágrannaþjóðir, eins og t. d. Norðmenn, hafa miklar áhyggjur af og telja sér nauðsynlegt. Ísland þarf því ekki að verða neins konar tómarúm eða valda þessum nágrönnum okkar sérstökum áhyggjum með því að sú þróun, sem hér er um að ræða, mundi taka tíma. Til viðbótar mundi hún opna möguleika á því, að íslensk yfirvöld gætu leitað aðstoðar frá þjóðum eins og Norðmönnum eða Dönum ekki síður en frá stórveldunum, ef mönnum sýndist svo og það reyndist vera nauðsynlegt.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það, sem ég benti á í upphafi með því að lesa till., að hún fjallar um að láta ranasaka þessar leiðir. Okkur er ljóst, að við höfum sem lítill stjórnarandstöðuflokkur mjög takmarkaða aðstöðu til að meta þessi mál að fullu, og við höfum því ekki viljað stíga skref til fulls með því að leggja til þá stefnubreytingu, sem ég hef gert að umræðuefni, heldur er þetta lagt fram sem hugmynd til athugunar. Er ánægjulegt að heyra, að aðrir flokkar og einstaklingar hafa íhugað þessi mál sumir komist að öðrum niðurstöðum, en margir að þeirri niðurstöðu, að þetta sé leið, sem rík ástæða sé til þess að kanna vandlega.

Með þessum tillöguflutningi er það ásetningur okkar Alþfl.-manna að reyna að koma öryggismálum Íslands út úr þeirri sjálfheldu, að þar sé ekki um neitt að velja annað en varnarlið um ófyrirsjáanlega framtíð eða að varnarliðið hypji sig innan nokkra mánaða. Við teljum, að hvort tveggja sé þetta óraunhæft eða óviðunandi, og erum við að leita að leiðum, sem gætu orðið til þess, að við leystum þetta vandamál, sem hefur vafist fyrir íslenskum stjórnmálamönnum frá því fyrir aldamót, á þann hátt, að við höfum sjálfir af því fulla sæmd og fullt öryggi, að við verðum taldir góðir nágrannar meðal þeirra þjóða, sem búa næst okkur, og að við getum sjálfir af veikum mætti stuðlað að því, að það verði friður og öryggi á því svæði, sem við búum á.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til utanrmn.