20.11.1973
Sameinað þing: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

6. mál, öryggismál Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér aðeins örfá orð við 1. umr. um þáltill. á þskj. 6.

Þessi till. Alþfl.-manna er nú hér öðru sinni til meðferðar á hv. Alþ. Hún var hér til umr. í fyrra, en varð ekki útrædd, kom aldrei úr utanrmn.

Eins og fram hefur komið hjá hv. 1. flm., er till. um það í fyrsta lagi að láta rannsaka, hvort Ísland geti verið óvopnuð eftirlitsstöð í sambandi við það öryggisbandalag, sem landið er aðili að, þ. e. a. s. Atlantshafsbandalagið, en síðar meir á vegum Sameinuðu þjóðanna, og í öðru lagi að rannsaka, hvort Íslendingar geti með fjárhagslegri þátttöku bandalagsins komið upp sveit fullkominna, en óvopnaðra eftirlitsflugvéla, svo og nauðsynlegum björgunarflugvélum og tekið við þessum þýðingarmesta hluta af verkefni varnarliðsins og stjórn varnarsvæðanna.

Þegar þessi till. var til umr. hér í fyrra, sagði ég, að ég teldi hana góðra gjalda verða og að ég liti á hana sem tilraun í þá átt að hrinda í framkvæmd því ákvæði málefnasamnings ríkisstj., er um öryggismálin fjallar. Tilhögun sú, sem hér er gert ráð fyrir, að rannsökuð verði, hlýtur vissulega að verða eitt af þeim atriðum, sem til greina kemur og verður athugað í sambandi við þá endurskoðun, sem yfir stendur. Ég sagði jafnframt, að ég teldi sjálfsagt, að þessi till. fái gaumgæfilega athugun í hv. utanrmn. og að ég gæti fyrir mitt leyti lofað henni atkv. mínu, þegar hún kæmi þaðan. Það má kannske út af fyrir sig segja, að hennar sé ekki bein þörf, þar eð hvort eð er verður nokkuð könnuð sú leið, sem þar er bent á, en engu að síður vil ég segja það hér nú, að ég er sama sinnis og ég var í fyrra og vil láta það koma fram.

Nú stendur yfir endurskoðun varnarsamningsins. Hinn 25. júní s. l. ritaði ég Atlantshafsráðinu bréf og bað um álitsgerð þess um málið, eins og skylt er samkv. 7. gr. varnarsamningsins, og tilkynnti jafnframt, að 6 mánaða frestur sá, er gr. gerir ráð fyrir til endurskoðunarinnar, hæfist þá um leið. Það er því 25. des. n. k., sem sá frestur er liðinn, og þá verður hægt að segja til um það, hvort til uppsagnar kemur eður eigi. Þegar NATO-ráðið fékk þetta bréf, bað það um frest til þess að láta herfræðinganefnd sína fjalla um málið. Sá frestur stóð þangað til Josep Luns framkvæmdastjóri kom hingað hinn 16. sept. s. l. og kynnti okkur sjálfur efni skýrslunnar, eins og menn muna. Í þessari skýrslu var, eins og fram hefur komið, þung áhersla lögð á mikilvægi varnarstöðvarinnar, bæði fyrir Ísland og fyrir aðrar bandalagsþjóðir og bandalagið í heild, en efni hennar að öðru leyti gef ég ekki rakið, þar sem skýrslan er leyndarskjal NATO, og þann trúnað vil ég ekki brjóta.

Ekki var talið fært að hefja samningaviðræður við Bandaríkin fyrr en umrædd NATO-skýrsla lægi fyrir. Var því lítið gert framan af sumri í þessum málum. Ég fékk þó lögfræðing, Sigurð Gizurarson, til að vera mér hjálplegur við ýmsar athuganir í þessu sambandi, og fór hann m. a. til Bandaríkjanna til upplýsingar- og kynningarferðar í sept. s. l., og hefur skýrsla hans um þá ferð ásamt skýrslu Haralds Kröyers sendiherra, sem með honum var, verið afhent utanrmn., Alþ. og ríkisstj. Það varð svo að samkomulagi milli mín og Bandaríkjamanna, að ég skyldi í sambandi við dvöl mína á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fara til Washington til viðræðna við ráðamena þar, og það gerði ég hinn 3. og 4. okt. s. l. Ég hitti þar að máli ýmsa málsmetandi menn, bæði í varnarmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu, en það varð að ráði, að allar samningaviðræður, sem fram kynnu að fara um endurskoðun varnarsamningsins, yrðu á vegum utanrrn. Bandaríkjanna undir forustu aðstoðarráðherra að nafni Willian Porter.

Á fundunum í Washington komu fram ýmsar hugmyndir Bandaríkjamanna um breytt fyrirkomulag herstöðvarinnar, sem ég get ekki greint hér frá í einstökum atriðum, enda hvergi um endanlegar till. að ræða, heldur aðeins hugmyndir á þróunarstigi, sem eflaust eiga eftir að taka miklum breytingum, áður en þær komast í endanlegt horf. Ég hef þegar gert ríkisstj. og utanrmn. Alþ. grein fyrir þessum viðræðum, en allt er þetta trúnaðarmál á þessu stigi, og ég get ekki greint frá neinu, sem þarna fór fram, nema því, að rætt var um það, að ameríski hervörðurinn hyrfi úr hliðinu á Keflavíkurflugvelli og svo var gert hinn 1. þ. m. Er þar auðvitað um algert smáatriði að ræða og aukaatriði. En það hefur þó angrað margan manninn, sem leið hefur átt þarna um, að þurfa að fá leyfi erlends hermanns til að koma eða fara frá íslenskri flugstöð.

Í s. l. viku fóru svo fram í Reykjavík viðræður um þessi mál, en hingað kom sendinefnd frá Bandaríkjunum undir forsæti áðurnefnds Williams Porters. Voru hugmyndir Bandaríkjamanna um breytingar á herstöðinni þar útfærðar nánar og skipst á skoðunum um það, hvernig koma mætti þessum málum fyrir í framtíðinni. Ég mun gera bæði ríkisstj. og utanrmn. Alþ. grein fyrir efni þessara viðræðna alveg á næstunni, en vegna veikinda formanns utanrmn. hefur ekki verið unnt að kalla saman fund þar, en að öðru leyti get ég því miður ekki greint frá efni viðræðnanna. Ég get þó sagt það, sem auðvitað er augljóst mál, að um þrjá valkosti er að ræða:

1. Að allt verði óbreytt. Sá valkostur kemur ekki til greina frá sjónarmiði íslensku ríkisstj.

2. Að herinn fari algerlega burtu á kjörtímabilinu. Sá valkostur er mjög óaðgengilegur frá Bandaríkjanna hálfu.

3. Að finna leið, sem gæti farið þarna einhvers staðar á milli og þá fyrst og fremst yrði fólgin í því, að starfseminni yrði haldið uppi frá öðrum stöðum.

Ég skal engu spá um það, til hvers þessar viðræður kunna að leiða, en aðeins segja, að enn er þó ekki fullreynt, hvort Bandaríkjamenn fást til þess að fallast á það, sem við gætum sætt okkur við, án þess að til uppsagnar þurfi að koma. Ákveðið hefur verið, að næstu viðræðufundir fari fram um eða upp úr miðjum des., og verða þeir þá væntanlega hér í Reykjavík. Ef þessar samningaviðræður, sem ég hef hér gert að umtalsefni, leiða ekki til niðurstöðu, verður á framhaldsþinginu lögð fyrir Alþ. till. um að segja varnarsamningnum upp.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að ræða þessi mál frekar á þessu stigi. En ég vildi láta það koma fram nú við 1. umr., að ég er því fylgjandi, að till. þessi fái þinglega meðferð og að hún verði rækilega skoðuð í utanrmn. Alþ. Markmið okkar með endurskoðun varnarsamningsins er m. a. að koma málum svo fyrir, að Íslendingar geti uppfyllt skyldur sínar við Norður-Atlantshafsbandalagið án þess að hafa hér erlendan her. Mér virðist þess vegna, að sú rannsókn, sem till. Alþfl. gerir ráð fyrir, að eigi að fara fram, og sú leið, sem þar er bent á, geti verið spor í þá átt, sem að er stefnt.