20.11.1973
Sameinað þing: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

6. mál, öryggismál Íslands

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þar sem talað er um það í till. þessari, að Ísland gæti einhvern tíma „síðar meir“, eins og það er orðað, orðið eftirlitsstöð á vegum Sameinuðu þjóðanna, virðist mér, að tekið sé undir þá hugmynd, að Sameinuðu þjóðirnar friðlýsi Norðaustur-Atlantshafið eða a. m. k. nokkurn hluta þess næst Íslandi, banni þar allar herstöðvar, allt hernaðarbrölt og þar með taldar að sjálfsögðu heræfingar hvers konar og flotaæfingar. Enda væri slíkt eftirlit að sjálfsögðu ekki í verkahring Sameinuðu þjóðanna, nema því aðeins að þær hefðu áður tekið á sig ábyrgð á þessu sviði og þá væntanlega með einhvers konar friðlýsingu, reglum, sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu sett gegn hernaði á þessum slóðum. Flm, till. veigra sér hins vegar við að gera nánari grein fyrir þessu atriði. Á þessu stigi treysta þeir sér ekki til að taka berum orðum undir friðlýsingarhugmyndina. Enn sem komið er treysta þeir sér ekki til að ganga í berhögg við hina úreltu NATO-pólitík, sem forustumenn Alþfl. áttu á sínum tíma ásamt öðrum frumkvæðið að og hafa jafnan stutt, þá NATO-pólitík, sem glögglega var túlkuð hér í ræðu hv. síðasta ræðumanns, þá blindu NATO-dýrkun, þessa gagnrýnilausu dýrkun, þennan gagnrýnilausa halelújasöng áratug eftir áratug.

Þetta virðist mér sem sagt skýringin á þeirri tæpitungu, sem flm. till. viðhafa að því er varðar hlutverk Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði. Flm. er auðsæilega orðið það ljóst, eða a. m. k. 1. flm., það er ég viss um, enda er hann glöggskyggn maður og fylgist vel með gangi mála í heiminum, að kröfunni um friðlýsingu Norðaustur-Atlantshafs mun aukast mjög í náinni framtíð. Dæmi um þá þróun er m. a. friðlýsingartill., sem borin hefur verið fram af fulltrúum fimm Norðurlandaþjóða og rædd verður í Norðurlandaráði í febr. n. k. Forustumenn ungra jafnaðarmanna í Noregi hafa látið í ljós áhuga á því máli, og kannske hefur einhver flm, haft af því spurnir eins og ég, að innan breska Verkamannaflokksins er þegar farið að vinna að því að afla þessari hugmynd fylgis. En hvað um það, flm, telja, að þeir séu enn of bundnir af fortíð flokksins til þess að slíta af sér NATO-haftið og stíga fram til eindregins stuðnings við friðlýsingarhugmyndina. Þeir bíða átekta. En þegar friðlýsingarhugmyndin hefði öðlast þann styrk í vitund þjóðanna við Norðaustur-Atlantshaf, að sigur hennar gæti talist tryggður, þá kæmi mér ekki á óvart, þó að þeir Alþfl.-menn vísuðu hreyknir til þessarar till. sinnar sem sönnunar þess, að þeir hafi snemma haft skilning á því góða máli. Allt er þetta að sjálfsögðu gott og blessað. Hver minnsti vottur þess, að forustumenn Alþfl. séu að ná áttunum í svonefndum öryggismálum Íslands, hlýtur að vera fagnaðarefni. Þetta er hin jákvæða hlið þessarar þáltill. Að þessu leyti get ég tekið undir með hæstv. utanrrh., það sem hann sagði áðan, að þessi till. sé góðra gjalda verð.

Hins vegar verð ég að segja það, að hún þarf að taka æðimiklum breytingum, áður en ég get gert það sama og utanrrh. lýsti yfir, að hann mundi gera, ef hún kæmi aftur úr n., að greiða henni atkv. Hún þarf að mínum dómi að taka æðimiklum breytingum til þess — já og til þess að utanrrh. geti greitt henni atkv., án þess að það verði talið brot á málefnasamningi ríkisstj. (GH: Er þm, að segja ráðh. fyrir verkum?) Ég er að lýsa skoðun minni hér. Það er algengt í stjórnarherbúðunum, að einstaklingar láti í ljós skoðanir sínar, án þess að það teljist sérstök móðgun við ráðh. eða forustumenn. (Gripið fram í: Svo á það að vera líka.) Svo á það líka að vera, já.

Nú ætla ég að snúa mér að hinni neikvæðu hlið þessarar till., ráðagerðum, sem eru tengdar því, að Ísland verði svo og svo lengi enn í NATO, þeirri grundvallarhugmynd, sem hv. 1. flm. nefndi. Það er skoðun mín í stuttu máli, að þær ráðagerðir valda því, að þetta er að meginefni til vond till. og hættuleg, og skal ég nú rökstyðja þessa fullyrðingu mína.

Persónunjósnir, þ. e. njósnir um skoðanir einkalíf manna, eru eitt óhugnanlegasta fyrirbærið í mörgum þjóðfélögum nútímans, bæði í austri og vestri. Við Íslendingar höfum fram til þessa haft blessunarlega lítið af þeim ófögnuði að segja. Hann sýkti að vísu þjóðfélag okkar talsvert á því tímabili, þegar slæmt atvinnuástand neyddi menn hópum saman til að leita sér atvinnu á Keflavíkurflugvelli, þar sem svonefndar öryggisreglur hinna bandarísku hernaðaryfirvalda réðu öllu um það, hverjir þar töldust hæfir til starfa. En með batnandi atvinnuástandi minnkaði þörf manna fyrir störf í herstöðinni, og að sama skapi dró úr ófögnuðinum. Og þjóðfélag okkar varð að sama skapi heilbrigðara á ný.

Allir sæmilegir Íslendingar hljóta að hafa fagnað þeirri þróun, og fáir mundu hafa búist við því, að af hálfu Íslendinga sjálfra yrðu hafðir í frammi tilburðir til að magna aftur ófögnuðinn. Samt hefur þetta nú gerst og m. a. með þeirri till., sem hér er til umr.

Ef sú hugmynd nær fram að ganga, að Íslendingar taki að sér svonefnt eftirlitsflug og önnur skyld störf á vegum Atlantshafsbandalagsins, þá munu upp vekjast í þessu þjóðfélagi miklu óhugnanlegri persónunjósnir en við höfum áður þekkt. Það stoðar lítt, þótt í till. þessari séu notuð sakleysisleg orð eins og „óvopnuð eftirlitsstöð“ og „óvopnaðar eftirlitsflugvélar“. Sú óumdeilanlega staðreynd blasir við engu að síður, að hér er verið að tala um njósnastöð og njósnaflugvélar hernaðarbandalagsins NATO. Það eru herforingjar í NATO, sem í dag ráða öllu um rekstur þessarar stöðvar og þessara flugvéla, og þeir mundu auðvitað eftir sem áður öllu ráða, þó að Íslendingar yrðu fram boðnir til einhverra þeirra starfa, sem snerta þennan rekstur, hvort sem þessir foringjar kynnu nú að sitja á Keflavíkurflugvelli sjálfum, vestur í Pentagon, í Brüssel eða einhvers staðar annars.

Þessi till. felur sem sé í sér þá hugmynd, sem íslenska þjóðin hefur jafnan talið og telur enn með öllu forkastanlega, þá hugmynd, að Íslendingar taki upp hernaðarstörf, og þau störf yrðu að sjálfsögðu unnin undir stjórn og ströngu eftirliti ráðamanna NATO. Og hvernig yrði svo hagað vali þeirra ungu Íslendinga, sem til gætu komið að rækja þessi störf? Mundu NATO-foringjarnir ekki telja sig þurfa að vita nokkur deili á þeim mönnum? Að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu yrði engum Íslendingi treyst til þeirra starfa, fyrr en nákvæm rannsókn hefði leitt í ljós, að í fari hans og fortíð reyndist ekkert það, sem grunsamlegt gæti talist samkv. öryggisformúlum hernaðarbandalagsins. Það yrði njósnað. Það yrði njósnað ekki aðeins um persónulegar skoðanir og einkalíf umsækjenda, það yrði líka njósnað um skoðanir og einkalíf ættingja þeirra, vina þeirra og kunningja.

„Segðu mér, hverja þú umgengst, og ég skal segja þér, hver þú ert.“ Eflaust yrðu kvaddir til sérfræðingar af hálfu bandalagsins að skipuleggja þessar njósnir. Það er ekki ósennilegt, að heil stofnun slíkra sérfræðinga kæmi þar til skjalanna. Hugsast gæti líka, að einhverjir íslenskir menn veldust til þessara njósnastarfa samkv. því fornkveðna, að hæg eru heimatökin. Ekki mundi það gera málið geðslegra fyrir okkur Íslendinga.

Fyrst og síðast yrði að sjálfsögðu leitað vitneskju um stjórnmálaskoðanir umsækjenda, en einkum og sér í lagi um viðhorf þeirra til Atlantshafsbandalagsins. Stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins einir kæmu þarna til greina, og þar mætti ekkert fara á milli mála, stuðningurinn yrði að vera alveg ótvíræður. Flm. þessarar till., þm. Alþfl., allir 6 með tölu, hafa að vísu lýst yfir stuðningi við Atlantshafsbandalagið. Að því leyti yrðu kannske ekki taldir neinir meinbugir á, ef það dytti í þá að sækja um einhver svonefnd eftirlitsstörf, sem gert er ráð fyrir í þessari till. En hvað um aðra Alþfl.-menn? Hafa þeir hugleitt það, hv. flm. þessarar till.? Hvað t. d. um unga Alþfl.-menn? Þeir hafa hvað eftir annað lýst yfir andstöðu sinni við Atlantshafsbandalagið og hvað eftir annað krafist þess, að Ísland segði sig úr NATO, nú síðast á sambandsþingi sínu í lok sept. Það eru ekki beinlínis meðmæli með mönnum, sem sinni við Atlantshafsbandalagið og hvað eftir kynnu að sækja um svonefnt eftirlitsstörf á vegum NATO. Auðvitað kæmi ekki einn einasti ungur Alþfl.-maður til greina í þau störf. Sama mundi að sjálfsögðu gilda um unga framsóknarmenn. Ekki hefur Samband ungra framsóknarmanna verið vægara í gagnrýni sinni á NATO og kröfuna um það, að Ísland segi sig úr því. Um Alþb.-menn þarf auðvitað ekki að ræða í þessu sambandi. Ég held nú reyndar, að vandfundinn sé sá ungur Alþfl.-maður eða ungur framsóknarmaður, hvað þá heldur Alþb.-maður, sem mundi hafa hug á að komast í margnefnd eftirlitsstörf á vegum NATO og gangast þar með undir heraga. En það er gert ráð fyrir fleiru en eftirlitsstörfunum í þessari till. Það er meira blóð í kúnni. Í beinum tengslum við eftirlitsflugvélar er talað um „nauðsynlegar björgunarflugvélar“, og sú hugmynd, sem þarna liggur til grundvallar, er nánar útfærð í grg., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú krefst meginhlutverk varnarliðsins, eftirlitsflugið, ekki vopnabúnaðar. Þess vegna er varpað hér fram þeim spurningum, hvort ekki nægi að hafa hér vopnlausa eftirlitsstöð, en Íslendingar taki að sér eftirlitið. Landhelgisgæslan“ — takið eftir — „eða annar aðili mundi koma á fót eftirlits- og björgunarsveit, sem gæti fylgst vandlega með öllum siglingum, fiskveiðum og annarri hagnýtingu á auðæfum hafsins, hættu á mengun og öðru, er máli skiptir. Á nokkrum árum mundu Íslendingar taka alveg við rekstri og stjórn varnarliðsstöðvanna. Meðan Atlantshafsbandalagið starfar og Íslendingar eru í því, hlyti þessi starfsemi að vera í nánum tengslum við það.“

Svo mörg voru þau orð. Hér virðist sem sagt ætlunin að setja allt í einn pott, allt í NATO-pottinn: eftirlitsstörfin svonefndu, björgunarstörf ýmiss konar, jafnvel sjálfa landhelgisgæsluna, hræra þessu öllu saman. Og þetta táknar ósköp einfaldlega það, að allir andstæðingar NATO á Íslandi yrðu ekki aðeins útilokaðir frá eftirlitsstörfunum svonefndu, heldur líka björgunarstörfum ýmiss konar og sjálfri landhelgisgæslunni.

En eftir að björgunarstörf og jafnvel sjálf landhelgisgæslan hefði verið tengd eftirlitsstörfunum og þar með ofurseld öryggisformúlum hernaðarbandalagsins, hverjir kæmu þá til greina í þessi störf? Lítum aftur á stjórnmálasamtök ungra manna. Heimdallur eða Samband ungra sjálfstæðismanna er einu pólitísku æskulýðssamtökin, sem styðja Atlantshafsbandalagið og þátttöku Íslands í því, þó að ýmsir í þeim röðum geri þetta með nokkrum semingi að vísu. Mér dettur ekki í hug, að forustumenn þeirra samtaka mundu vilja beita áhrifum sínum til þess, að liðsmenn þeirra fengju einhver sérstök forréttindi í sambandi við þessi störf, því síður, að þeir mundu á nokkurn hátt vilja bendla sig við þann ófögnuð persónunjósna, sem ég tel að mundi orsakast af því ástandi, sem stefnt er að með þessari till. En hitt ætti að vera deginum ljósara, að félagsskírteini í Heimdalli eða Sambandi ungra sjálfstæðismanna mundu a. m. k. ekki spilla fyrir ungum manni, sem kynni að hafa hug á að komast í umrædd störf. Ef þessi till. Alþfl. næði fram að ganga, þá kynni sú að verða raunin, að ungir sjálfstæðismenn yrðu þeir einu, sem teldust hæfir til að gegn aðeins margnefndum eftirlitsstörfum, heldur líka björgunarstörfum ýmiss konar og landhelgisgæslu.

Það felst sem sagt í þessari till. Alþfl., að eftir reynsluna af breska flotanum nú að undanförnu skuli hann og íslenska landhelgisgæslan sett undir yfirstjórn NATO, sameiginlega yfirstjórn NATO. Og svo gæti hin alkunna tilkynning frá Slysavarnarfélagi Íslands: „Björgunarþyrla varnarliðsins var send á vettvang“, að breytast eitthvað í þá átt, að nú væri björgunarþyrla ungra sjálfstæðismanna tekin við.

Að lokum þetta: Ég ætlaði ekki að fjalla hér ítarlega um NATO og herinn, en ég vildi aðeins í þessu sambandi koma á framfæri þessum viðvörunum mínum. Ég vænti þess, að hv. flm. þessarar till. og allir aðrir hv. alþm. hugleiði þessar viðvaranir vandlega, sérstaklega að því er varðar persónunjósnaófögnuðinn.

Ég las fyrir skömmu grein um persónunjósnir eftir mætan mann bandarískan. Hann líkti persónunjósnum í Bandaríkjunum við kolkrabba, sem grúfði yfir Washington og gæti óðar en varði verið búinn að teygja sína slímugu arma um allt hið bandaríska þjóðfélag.

Slíkur kolkrabbi grúfir líka yfir herstöðinni á Miðnesheiði — og slímugir einnig hans armar. Við skulum umfram allt varast það, Íslendingar, að gera nokkuð, sem gæti veitt krabba þessum tækifæri til þess að teygja arma sína lengra þaðan og út í þjóðfélag okkar.