21.11.1973
Efri deild: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

112. mál, vegalög

Flm. (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Ég flyt hér frv. um breyt. á vegal. ásamt þeim hv. 4. þm. Sunnl., hv. 4. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Austf. Frv. þetta fjallar einkum um fjáröflun til sýsluvega.

Það má segja, að 1. og 2. gr. þessa frv. sé til leiðréttingar á því misræmi, sem hefur komið í ljós við framkvæmd vegal., en það er, að einstaka bændur verða að kosta vegi heim til sín, sem eru allt að því 399 metra langir, þótt aðalreglan sé sú, að þeir kosti fyrstu 200 metrana. Ákvæði þessi í vegal. hafa orðið þannig í framkvæmd, að sýsluvegum hafa tilheyrt 200 m langir vegir, þ. e. a. s. hafi vegurinn verið það langur umfram það, sem tilheyrir bóndanum, en ef hann hefur ekki náð 200 m hefur það, sem er innan við 400 m, fallið í hlut bóndans að kosta til viðbótar við sína 200 metra, og hefur það getað þýtt tvöföldun á kostnaði við vegarlagningu hjá hlutaðeigandi aðila, ef aðstæður hafa verið þannig. Ég hygg, að það hafi ekki verið meiningin í upphafi, þegar vegalög voru sett, að þetta misræmi félli á hlutaðeigandi bændur, og því eru þessar breytingar gerðar á 19. og 20. gr. vegal. til leiðréttingar á þeim misskilningi, sem orðið hefur á þessum málum í framkvæmdinni. Ég hygg, að hér sé ekki um stórar upphæðir að ræða fyrir vegagerðina sem slíka, en einstaka bændur getur munað þetta allmiklu.

Aðalbreytingin, sem í frv. þessu felst, er í 3. og 4. gr. frv., um að efla sýsluvegasjóðina. Sýslunefndir þær, sem þess óska, geta hækkað framlög sín um allt að 100% umfram það, sem gert er ráð fyrir í vegal., en þar er ákveðið, að framlag til sýsluvegasjóða skuli bundið við andvirði þriggja stunda dagvinnutaxta 1. des., áður en gjöldin eru á lögð, af hverjum íbúa í hlutaðeigandi sýslu. Það er þriggja stunda dagvinnufjöldi og íbúatalan, sem ræður framlagi sýslnanna. En á móti kemur í heild framlag ríkisins, sem skal eigi vera lægra en tvöfalt framlag það, er frá sýslunum kemur.

Ef við lítum á þær skýrslur, sem fylgja með grg. þessa frv., er eftirtektarvert, að sýsluvegakerfi landsins tilheyra 2820 km, og lætur nærri, að það sé fjórði hlutinn af öllu vegakerfi landsins. En þó er það svo í reynd, að sýsluvegasjóðir ráða ekki yfir fjármagni nema sem svarar hluta af því fjármagni, sem til vegaframkvæmda fer. Það þarf því engan að undra, þótt allvíða gangi seint að byggja upp sýsluvegi, þegar þau mál eru skoðuð niður í kjölinn.

Ef við lítum á einstakar sýslur og tökum þær, þar sem andstæðurnar eru mestar, kemur í ljós, að Gullbringusýsla hefur aðeins 23 km langa sýsluvegi, en sú sýslan, sem hefur lengsta sýsluvegi að sjá um, Norður-Múlasýsla, hefur 251 km. Á þessu er mikill munur og ekki síst ef við höfum það í huga, að í Norður-Múlasýslu eru íbúar rúmlega 2000 á móti nær 9000 í Gullbringusýslu.

Eins og ég gat um áðan, eru tekjur sýsluvegasjóða byggðar á fólksfjölda, andvirði þriggja stunda dagvinnutaxta á íbúa, og auk þess nokkur fasteignaskattur, sem í flestum sýslum landsins er tiltölulega lítill. Gefur því auga leið, að það veitist íbúum Gullbringusýslu mun léttara að standa vel að vegagerð á rúmum 23 km, jafnframt því sem það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir Norður-Mýlinga að standa að vegagerð á 251 km, og á milli þessa eru öll önnur sýslufélög landsins með mjög misjafna íbúatölu og þar af leiðandi, þótt ekki sé annað haft í huga, mjög misjafna aðstöðu til þess að byggja upp sitt vegakerfi. En tilgangur þessa frv. er sá, að þau sýslufélög, sem þess þurfa með og vilja leggja meira á sig í vegagerð, fái heimild til þess samkv. þessu frv., samhliða því sem ríkinu er lögð sú skylda á herðar að veita aldrei minna á móti þessu aukaframlagi, sem heimildin nær til, en sem nemur tvöföldu framlagi hlutaðeigandi sýslu. Það mun ekki af þessu framlagi veita, þegar það er haft í huga, að bæði uppbygging þessara vega og viðhald veganna sjálfra er geysimikið og erfitt fyrir sýsluvegasjóðina að rísa undir.

Sjálfsagt má fara ýmsar aðrar leiðir til þess að leiðrétta það misræmi, sem hér er annars vegar á milli sýsluvega og hins vegar á milli þjóðvegakerfis landsins. Það mætti hugsa sér þá leið, að þjóðvegakerfið tæki að sér sýsluvegina. En ég held, að það yrði ekki alls staðar til frádráttar sýsluvegakerfinu, ekki síst þegar það er haft í huga, að þjóðvegakerfið er misjafnlega á sig komið í hinum einstöku landshlutum. En sá hlutinn, sem hæstu upphæðirnar fara til á vegum landsins, eru svokallaðar hraðbrautir. Má segja, að þær taki megnið af því fjármagni, sem fer til nýbygginga vega í landinu. Um það er að sjálfsögðu ekki nema gott eitt að segja. En það má þó ekki verða um of á kostnað hinna vondu vega víðs vegar úti á landsbyggðinni.

Það eru margar sýslunefndir, sem hafa rætt þessi mál á sýslufundum og gert um þau ályktanir, og vil ég þar nefna sýslunefnd Dalasýslu, sýslunefnd Snæfellsnessýslu, sýslunefndir Múlasýslna, sýslunefnd Rangárvallasýslu og margar fleiri.

Ég vonast til þess, að hv. alþm. geti stutt þetta frv. eða þá einhverjar aðrar leiðir, sem stefna í svipaða átt og geta orðið til framdráttar sýsluvegakerfi landsins. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta frv. nú, nema sérstakt tilefni gefist til, en vísa til grg. frv.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. samgn.