21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

66. mál, Norðurlandasamningur um skrifstofur Ráðherranefndar og skrifstofu Norðurlandaráðs

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ráðherranefnd Norðurlanda samþykkti á fundi sínum í Helsinki hinn 18. febr. 1972 að stofna fasta skrifstofu fyrir norræn samstarfsmálefni, og skyldu starfa þar embættismenn, sem óháðir væru ríkisstjórnum heimaríkja sinna. Ráðherranefndin setti eftirfarandi rammaákvæði um starfsemi skrifstofanna: Þær skulu aðstoða ráðherranefndina við meðferð norrænna samstarfsmálefna. Þær skulu vera til aðstoðar við framkvæmd á þeim rannsóknum, sem ráðherranefndin óskar eftir, að gerðar séu, og framkvæma þær umfangsminni athuganir, sem liggja þurfa til grundvallar við ákvarðanatöku ráðherranefndarinnar. Á fundi sínum í Osló hinn 17. og 18. febr. 1973 samþykkti ráðherranefndin reglur um starfssvið skrifstofanna, sem eru í samræmi við framangreind rammaákvæði. Auk þess veita þessar reglur skrifstofunum svigrúm til þess að eiga sjálfar frumkvæði að þessum samstarfsverkefnum.

Samningur þessi tekur til skrifstofu ráðherranefndarinnar í Osló, sem hóf starfsemi sína til bráðabirgða 1. júní 1972 með einum starfsmanni frá hverju Norðurlanda. Enn fremur tekur hann til skrifstofanna í Kaupmannahöfn fyrir norrænt menningarmálasamstarf, sem áður hafði verið komið á fót, og öðlast þessar skrifstofur þar með báðar sömu réttarstöðu. Svipar henni að mörgu leyti til þeirrar réttarstöðu, sem alþjóðastofnanir njóta.

Þetta frv. er flutt til þess að afla ríkisstj. heimildar til að fullgilda þennan samning, sem ég hef nú gert grein fyrir í örstuttu máli. Frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það fékk skjóta og samhljóða afgreiðslu, og vona ég, að svo geti einnig farið í þessari hv. d. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr., og hv. allshn.