21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. á þskj. 127 er um lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunarinnar. Frv. er flutt til staðfestingar á brbl., sem sett voru í sept., um heimild fyrir erlenda lántöku allt að 1400 millj. kr., eða jafnvirði þess í erlendri mynt. Brbl. voru sett, þegar útlit var fyrir, að ná mætti hagstæðu láni í frönskum bönkum á markaði þar í landi. Svo fór, að hreyfing, sem varð á gengi frankans á markaði um þessar mundir, kom í veg fyrir þá lántöku. Síðan fékkst lán, rúmlega 1300 millj. kr., með vernduðu gengi nokkurra Evrópumynta. Heimildir til þessarar lántöku voru í raun og veru til: í l. um Framkvæmdastofnunina, um lántöku vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar og heimildarlögum um togarakaup. Hins vegar þótti óæskilegt, að lán, sem boðið væri út á almennum markaði, eins og þetta, byggðist á slíku safni heimilda, og því var þeim steypt saman með þessum hætti. Af fjárhæðinni rennur um 800 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs í samræmi við framkvæmdaáætlun, 273 millj. kr. til ríkisframkvæmda, sömuleiðis samkv. framkvæmdaáætlun, og um 150 millj. kr. til að fjármagna síðasta japanska togarann. Ætlunin er að nota síðan óráðstafaða hluta lánsins til að fjármagna útgjöld ríkissjóðs vegna togarakaupa samkv. l. nr. 40 1970 sbr. lög nr. 78 1972, um kaup á skuttogurum.

Áður en þessi brbl. voru gefin út í sumar, hafði ég m. a. samband við formenn stjórnarandandstöðuflokkanna, þingflokkanna, um þessa brbl.-útgáfu, og var það álit þeirra að við hana hefðu þeir ekkert að athuga, enda voru, eins og ég hef áður tekið fram, til þær heimildir, sem hér er um að ræða. Var aðeins verið að safna þeim saman í eina heild til þess að gera útboðið aðgengilegt.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.