21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

73. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 79, fjallar um vernd manna gegn því, að veist sé að þeim á opinberum vettvangi vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða.

Tilefni þess, að hér er lagt til, að sett verði sérákvæði í almennum hegningarl. um þetta efni, er, að Ísland hefur gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna frá 21. des. 1965 um útrýmingu alls Kynþáttamisréttis. Samningur þessi var fullgiltur af Íslands hálfu 13. mars 1967, en hann tók gildi 4. jan. 1969. Vegna aðildar Íslands að samningnum var hegningarlaganefnd svokallaðri falið að gera könnun á hverra breytinga væri þörf á íslenskum refsilögum, og er frv. það, sem hér liggur fyrir, árangur af þeirri athugun.

Samkv. 4. gr. samningsins skuldbindur aðildarríki sig til að lýsa refsiverða hvers konar starfsemi, sem útbreiðir skoðanir um yfirburði eins kynþáttar yfir annan, svo og starfsemi, sem hvetur til kynþáttamismunar eða til ofbeldisverka gagnvart kynþætti eða tilteknum hópi manna vegna litarháttar þeirra eða þjóðernis.

Þó að það hafi, sem betur fer, ekki kveðið mikið að því hér á landi, að veist hafi verið að mönnum vegna kynþáttar, litarháttar eða þjóðernis, þykir sjálfsagt og er skylda að fullnægja þeim samningi, sem Ísland hefur gerst aðili að, með því að taka ákvæði um þetta í lög. En það er ekki talin þörf á frekari lagasetningu en þeirri, sem hér liggur fyrir, um þetta efni til þess að fullnægja ákvæðum þessa samnings, sem ég nefndi.

Samkv. frv.-textanum varðar einungis háttsemi, sem beinist að hópi manna, refsingu, en ummæli, myndagerð eða því um líkt, sem beint er að einstaklingi, varðar við ákvæðið, ef með því er gefið til kynna háð, smánun eða rógur um ákveðinn hóp eða flokk manna. Þá er í leiðinni tekið upp í frv.-textann ákvæði, sem ekki snertir framangreindan samning. Í norrænum refsilögum hafa um nokkurt skeið verið refsiákvæði um atlögur að hópi manna vegna trúarbragða. Slíkt ákvæði hefur skort í íslensk hegningarlög, og hefur hegningarlaganefnd talið ástæðu þess vegna til að fella ákvæði um þetta efni inn í frv.-textanu, enda þótt ég telji, að það megi segja, að Íslendingar, sem betur fer, séu svo frjálslyndir í trúarefnum, að það hafi ekki heldur kveðið að neins konar ofbeldisárásum út af þeim hér á landi á síðari árum, þó að slíkt þekktist og ekki þurfi að fara óskaplega mörg ár aftur í tímann, en sem betur fer er það úr sögunni. Samt sem áður hefur þótt rétt að taka þetta upp í frv., og ég hef auðvitað í því efni farið eftir till. hegningarlaganefndar .

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Það skýrir sig sjálft. Þar að auki fylgir því alveg sérlega ítarleg grg., sem samin er af hegningarlaganefndinni, og raunar fylgir ennþá ítarlegri grg., sem ekki þótti fært af hagkvæmnisástæðum og sparnaðar að prenta alveg óstytta með frv. Er sú grg., sem hér fylgir með, eins og ég sagði, aðeins útdráttur úr þeirri fyllri grg., sem fylgdi þessu stutta frv. Frv. hefur gengið í gegnum Ed. og verið samþ. þar óbreytt. Ég leyfi mér að óska eftir því, að því verði vísað til 2. umr. hér og hv. allshn.