21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

65. mál, orlof

Flm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég flyt og er á þskj. 71, er um lítils háttar breyt. á l. um orlof. Hún er á þá leið efnislega, að skólafólki, sem stundar nám við viðurkennda skóla, verði heimilt að taka orlof sitt utan hins lögbundna orlofstímabils.

Frv., þetta er flutt að beiðni Sjómannafélags Reykjavíkur, en ástæða þess, að það félag óskaði eftir þessari breytingu, var ósk nemenda úr Stýrimannaskólanum hér í Reykjavík og reyndar Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum, sem nú er staðsettur í Reykjavík, en eins og kemur fram í grg., þá eru þessir menn að fara til vinnu og vinna stuttan tíma á hverju sumri, en falla ekki undir það, sem verður að teljast meginsjónarmið orlofslaganna, að veita hvíld því verkafólki, sem vinnur hörðum höndum allt árið. Legg ég til, að gerð verði breyting á löggjöf um orlof sem var samþ. fyrir tæpum tveimur árum. Reglugerðin er það ný, að hún er aðeins síðan um mitt ár í fyrra. Hvorki í l. né reglugerðinni eru ákvæði um skólafólk. Og eins og ég bendi á í grg., þá er þetta ekki rétt. Ég er ekki að sakast við þá, sem sömdu þessi lög. Það er kannske miklu frekar um að sakast við okkur alþm., sem höfðum þetta mál til umr. í báðum d., vegna þess að það er kannske á fáum stöðum, sem oftar er haft á orði, hvað þessi hluti okkar vinnuafls sé þýðingarmikill fyrir okkar atvinnuvegi skólafólkið.

Ég hef tekið það fram margoft, bæði hér á Alþingi, þegar þessi lög voru til umr., og reyndar víðar, að ég hafi verið mjög fylgjandi því meginsjónarmiði, sem kom fram í þessum nýju orlofslögum, því sjónarmiði, að vegna hins mjög langa vinnudags hjá öllu verkafólki þyrfti að sjá svo um, að ekki væri aðeins réttur hjá verkafólki til þess að taka sér frí, heldur þyrfti líka að sjá svo um, að þetta fólk tæki sér frí og færi í frí og fengi þar af leiðandi nauðsynlega hvíld og hressingu í sínu fríi. Þegar þetta er haft í huga, er augljóst, að hagsmunir skólafólks, sem vinnur aðeins kannske um þrjá mánuði á ári hverju, fara ekki saman við hagsmuni þess fólks, sem vinnur allt árið utan síns lögboðna orlofs. Þessir nemendur, — og ég t. d. hef tekið sem dæmi í grg. með frv. þessu nemendur úr Stýrimannaskólanum og reyndar líka Vélskólanum, eru margir hverjir fjölskyldufeður, og þeir eru að keppast við að ljúka sínu námi á sem skemmstum tíma. Þeir þurfa að nota tímann á milli hins eiginlega skólanáms í sitt verklega nám, en samkv. gildandi l. þurfa þeir að skila ákveðnum tíma við verklegt nám á skipum. Þeir þurfa að vera lögskráðir á skipin til þess að hljóta þau réttindi, sem þeir stefna að, og þeir eru ekki aðeins að stuðla að því, að okkar floti geti gengið, heldur líka að leysa vandamál, sem við höfum margoft rætt hér á Alþ., og þar á ég við hið hvimleiða undanþáguvandamál, þar sem réttindalausum og kunnáttulausum mönnum oft og tíðum eru gefin með einum ráðherraúrskurði, eða ráðuneytisbréfi leyfi til þess að fara með störf þeirra manna, sem að öllu venjulegu þurfa á löngu skólanámi að halda til þess að öðlast þá þekkingu og kunnáttu, sem talin er þörf á, og um leið þurfa langan tíma í starfi til að öðlast hina verklegu þekkingu og menntun.

Ég er sannfærður um, að þetta kemur ekki aðeins þessum mönnum til góða sem einstaklingum í þessum skólum, sem ég hef minnst á, þetta mun auðvitað vera til góðs öllum öðrum skólanemendum. Ég vænti þess, að hv. alþm. viðurkenni það sjónarmið með mér, að þessir menn hafa nokkra sérstöðu sem hluti af vinnuafli þessarar þjóðar. Það er hins vegar rétt, að það er hægt fyrir þá á næsta ári á eftir að fá þessar orlofsgreiðslur sínar, en það er þó ekki fyrr en eftir á, á næsta ári, eftir að kannske langur og harður vetur í lífi skólanemandans er liðinn, og því til viðbótar má geta þess, að þeir verða þá að fara í óskylda vinnu. Ef þetta á að gilda áfram um þá, sem eru í þessum sérskólum sjávarútvegsins, þýðir það, að sjávarútvegurinn, bæði fiskiskip okkar og verslunarskip, mun tapa af þessu fólki þann tíma, sem það er að leita sér vinnu í öðrum starfsgreinum, meðan það er að ná þessum réttindum sínum.

Ég vil, herra forseti, eftir að þessari umr. lýkur, leyfa mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og félmn.