21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

78. mál, Seðlabanki Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Sunnl. gat þess réttilega áðan, að ákvörðun um nýbyggingu Seðlabankans hefði verið samþ. einróma í stjórn Seðlabanka Íslands á sínum tíma, og það mun líka rétt vera að ákvörðun um að staðsetja bygginguna á þessum stað og ákvörðun um að heimila byggingarframkvæmdir var líka einróma tekin í borgarstjórn og byggingarnefnd Reykjavíkur. Þessar staðreyndir breyta að sjálfsögðu ekki því, að staðsetning byggingarinnar og þessar framkvæmdir orka mjög tvímælis, og nú hefur reyndar líka komið í ljós, að þessir aðilar, þ. e. a. s. stjórn Seðlabankans og borgarstjórn Reykjavíkur, eru reiðuhúnar til að endurskoða fyrri ákvarðanir sínar, fyrri afstöðu. Og það sýnir, sem betur fer, að ákvarðanir Seðlabankans eru ekki hafnar yfir gagnrýni, og það er vel.

Hæstv. bankamrh. gat þess hér áðan, að það væri erfitt fyrir sig að beita sér gegn ákvörðunum stjórnar Seðlabankans, sem væri þingkjörin stjórn og hefði á bak við sig starfsvenjur. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessari skoðun hæstv. ráðh. Ég held, að einmitt þær ákvarðanir Seðlabankans og borgarstjórnar að endurskoða afstöðu sína sýna það, að enda þótt ákvarðanir séu teknar einróma á slíkum stöðum, þá auðvitað eru þær til endurskoðunar og umdeilanlegar eins og annað og ekkert því til fyrirstöðu, hvorki fyrir hæstv. ráðh. eða þm. né almenning, að gagnrýna þær ákvarðanir og reyna að hafa áhrif á það, að þeim verði breytt, ef þessum aðilum sýnist svo.

Hv. 1. þm. Sunnl. vakti líka athygli á því, að ráðh. hefðu ekki allajafna haft afskipti af einstökum byggingarframkvæmdum á vegum hinna ýmsu banka, og það er mikið rétt. Hins vegar finnst mér ekki þessi mál snúast um það, hvort þeir eigi, viðkomandi ráðh., að hafa afskipti af hverju einstöku máli, heldur hitt, hvort þeir hafi vald til þess að hafa afskipti, ef þeim sýnist svo.

Hæstv. bankamrh. sagði hér áðan, að til sín hefði ekki verið leitað, þegar þessi ákvörðun var tekin. En spurningin snýst ekki um það, hvort til hans sé leitað, heldur hvort hann, þegar honum sýnist einhver ákvörðun orka tvímælis og hann er í andstöðu við hana, hafi þá vald til þess að breyta henni eða ekki. Það er um þetta, sem málið snýst, að því leyti sem það hefur verið rætt við þessa umr., og það er að þessu leyti sem nauðsynlegt er að mínu áliti, að frv. hv. þm. Bjarna Guðnasonar á þskj. 84 komi til samþykkis, og ég er þess vegna því frv. samþykkur.

Hæstv. ráðh. gat þess, að ef hann ætti að fá slíkt vald eins og hér um ræðir, þá væri eðlilegt, að hann hefði líka yfirstjórn yfir öðrum bönkum og framkvæmdum á þeirra vegum og talaði í því sambandi um fjárfestingareftirlit. Þetta finnst mér fráleit skoðun og vitaskuld úr lagi að ræða í þessu sambandi um allsherjar yfirstjórn viðkomandi ráðh. á fjárfestingu í landinu, enda þótt um það sé talað, að hann hafi einhverja yfirstjórn yfir þeim stofnunum og þeim embættum, sem honum hefur verið falin umsjón yfir. Þetta tvennt er gerólíkt að mínu áliti.

Menn hafa við þessar umr. rætt nokkuð um títtnefnda byggingu Seðlabankans út frá einni ákveðinni forsendu, þ. e. a. s. að þetta orkaði tvímælis vegna þenslunnar í þjóðfélaginu og hvort ekki væri eðlilegt, að ríkisstj., sem vildi hafa hemil á verðbólgu og hafa stjórn á efnahagsmálum, reyndi að stemma stigu við slíkum framkvæmdum, sem fram færu á vegum stofnana, sem heyra undir ríkisstj. Þetta sjónarmið á vissulega rétt á sér. En ég vil þó vekja athygli á því við þessa umr., að það eru aðrar mikilvægar ástæður fyrir því, að bygging Seðlabankans hefur verið umdeild. Og mér er nær að halda, að þær ástæður hafi öllu frekar valdið því, hversu almenningur hefur snúist öndverður gegn þessum byggingarframkvæmdum, og þar á ég við sjónarmið þeirra, sem vilja taka tillit til umhverfisins. Þessa byggingu Seðlabankans á að reisa hér í gamla miðbænum í Reykjavík og menn hafa í vaxandi mæli haft þau sjónarmið uppi, að við það að reisa nýjar hallir og stórar byggingar og rífa þær gömlu eyðileggist mjög svipur og yfirbragð gamla miðbæjarins. Ekki eru allir á eitt sáttir um þetta og vilja halda því fram, að það eigi að vernda þennan gamla miðbæ og hans yfirbragð og halda hinum manneskjulegu tengslum þessa gamla miðbæjarkjarna hér í Reykjavík við íbúa borgarinnar og reyndar alla landsmenn.

Mér er kunnugt um það, og geri reyndar ráð fyrir, að hv. þm. sé öllum kunnugt um það, að á sínum tíma var ráðgert að reisa þessa byggingu Seðlabankans við Fríkirkjuveg. Það reis upp alda mótmæla, sem varð til þess, að sú ákvörðun var endurskoðuð, og upp úr þeirri endurskoðun varð að ráði á milli borgarstjórnar og Seðlabankans að staðsetja bygginguna við Arnarhól, norðvestanmegin. Þegar — sennilega of seint — byggingarframkvæmdir hófust, risu aftur upp mótmælaöldur, og þá réðu aftur sömu sjónarmið. Ég hef verið stuðningsmaður þessara sjónarmiða. Ég hef flutt þær skoðanir hér inn á Alþ. í sambandi við önnur mál, og mér finnst mjög eðlilegt, að nú, þegar almenningur og Reykvíkingar sérstaklega hafa áhuga á því, að staðsetning Seðlabankans sé endurskoðuð, sé tekið tillit til þess, vegna þess að slíka byggingu er með góðu móti hægt að staðsetja niður á öðrum stöðum en á svo viðkvæmum og umdeildum stöðum sem á Arnarhóli.

Þetta á við um stjórnarráðsbygginguna líka. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á það við þessa umr., að þetta á við um stjórnarráðsbygginguna líka. Og nú vil ég mælast til þess, ef hæstv. ríkisstj. ber umhyggju fyrir þeim umhverfissjónarmiðum, sem ég hef hér gert að umtalsefni, að hún sýni þann sama manndóm og stjórn Seðlabankans og borgarstjórn Reykjavíkur hafa sýnt með því að vilja taka upp til athugunar og endurskoðunar sínar fyrri ákvarðanir. Hæstv. ríkisstj., sem hefur í hendi sinni, hvar stjórnarráðsbyggingin á að vera staðsett, á nú að sýna þann manndóm að taka endanlega ákvörðun um það, að stjórnarráðsbyggingin verði flutt af þeim stað, sem henni hefur verið ákvarðaður, þ. e. a. s. við Bankastræti. Ég held, að þeirri ákvörðun yrði fagnað og hún yrði í samræmi við þann tíðaranda, sem nú er.