24.10.1973
Neðri deild: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

22. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., fjallar um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við uppbyggingu Norðurlandsvegar. Er þar gert ráð fyrir því, að ríkissjóður bjóði út skuldabréf að upphæð allt að 800 millj. kr. á næstu árum til þess að standa straum af kostnaði við þessar framkvæmdir. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að af skuldabréfum þessum yrðu bæði greiddir vextir og eins happdrættisvinningar veittir, en ekki er kveðið nánar á um skiptingu í þessu efni né um framkvæmdina, heldur er gert ráð fyrir, að það verði gert með reglugerð, sem ráðh. setji að fengnum till. Seðlabanka Íslands.

Það þarf ekki að fjölyrða um nauðsyn þess að auka fjárframlög til vegaframkvæmda. Þm. allir eru um það sammála, að brýn þörf sé á auknum vegaframkvæmdum, þótt mikið hafi verið í því efni gert s. l. áratug. En það kann að vera, að eitthvað séu um það skiptar skoðanir, eins og verða vill, hvaða stórátak eigi að gera næst, þegar lokið er því mikla átaki, sem nú er unnið að við lagningu vegarins á Skeiðarársandi. Ég hygg þó, að flestir muni um það sammála, ef þeir hugleiða það mál, að eðlilegt sé, að þá verði lagt til atlögu við Norðurlandsveginn og lokið við að byggja hann upp, þannig að hann verði fær allt árið og tilbúinn til þess að setja á hann bundið slitlag, og raunar er gert ráð fyrir því, að jafnframt uppbyggingunni á næstu árum verði hafist handa við gerð slitlagsins.

Þess er að gæta, að þessi framkvæmd er mun ódýrari en menn almennt munu hafa ætlað. Ég held, að enginn hafi áttað sig á því, að það eru ekki nema 200 km óuppbyggðir af leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, því að margir kaflar hafa verið endurbyggðir á síðustu árum.

Kostnaður við þessa framkvæmd er áætlaður eitthvað nálægt 800 millj. kr., eða svipuð upphæð og vegurinn á Skeiðarársandi. Með því móti að fjármagna þessa framkvæmd með happdrættislánum, verður auðvitað meira fé til framkvæmda við aðra vegi víðs vegar um landið, og þessum vegi yrði þá hraðað meir en ella væri unnt. Hér er gert ráð fyrir, að þessari framkvæmd mundi ljúka á 3–4 árum. Ef samhliða yrði hafist handa um að setja bundið slitlag á veginn, væri ekki óeðlilegt að ætla, að innan 6–8 ára væri lokið við þennan veg að fullu, þannig að öll leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur væri með bundnu slitlagi. Þess skal þó geta, að bundna slitlagið er eitthvað dýrara en þessi framkvæmd, sem hér er sérstaklega til umr., og má jafnvel ætla, að sá kostnaður færi eitthvað á annan milljarð. En auðvitað verður mögulegt að fjármagna þá framkvæmd með öðrum hætti, samhliða því sem auðvitað er hugsanlegt að framlengja happdrættislánin, eftir að þessu útboði er lokið.

Ég held, að það sé rétt leið af hálfu ríkisins að auka mjög útgáfu skuldabréfa, sem almenningi er gefinn kostur á að kaupa. Við vitum það öll, að skattheimta hér á landi er orðin gífurlega þungbær og allir aðilar kvarta undan henni. Hins vegar þarf ríkið á miklu fé að halda til hinna margháttuðu framkvæmda. Því er áreiðanlega mun heppilegra að fara lengra inn á þá braut að afla fjárins að láni frá borgurunum, en svipta þá ekki eignarrétti að þessu fé, heldur leyfa fólki að eiga peningana, þó að ríkið hafi þá til afnota. Þannig yrði skattheimtan léttbærari en ella. Og svo vill til, að einmitt á sviði vegamála eru allir sammála um nauðsyn aukinna framkvæmda, og ég held, að á engu sviði sé fólk fúsara að leggja fram fjármuni sína en einmitt á sviði vegamálanna. Þess vegna á einmitt að nota þessa fjáröflunarleið til þess að stórauka vegaframkvæmdir, ekki einungis að bjóða út þær 800 millj., sem hér um ræðir, heldur miklu meira fé, í náinni framtíð og fjarlægari.

Ég veit raunar, að áhugi þm. allra á vegamálum er svo mikill, að ég treysti því, að þetta frv. fari hraðbyri gegnum þingið, og leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.