22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

104. mál, eftirlit með einokun, hringamyndun og samkeppnishömlum

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Þótt undravert megi virðast, hefur verslunin sem atvinnuvegur aldrei hlotið fulla viðurkenningu hér á landi og lengst af verið skotspónn í pólitískum illdeilum. Nú á það að vera hafið yfir gagnrýni, að þegar verslunin komst í hendur Íslendinga sjálfra, var stigið eitt þýðingarmesta sporið í sjálfstæðisbaráttu landsmanna og innlend verslun þjónaði mikilvægu hlutverki í efnahagslegri uppbyggingu þjóðarinnar. Það má vera skýring að einhverju leyti, að eftir að stjórnmálakenningar síðustu og þessarar aldar héldu innreið sína með stofnun þeirra flokka, sem enn eru við lýði, hófust hatrammar deilur um afstöðu manna til eignaraðildar á framleiðslu- og atvinnutækjum. Af þeim stjórnmálaflokkum, sem lengst vildu og vilja ganga í átt til ríkisrekstrar og þjóðnýtingar atvinnufyrirtækja, hefur verið gerð hörð atlaga og þeim einstaklingum og aðilum, sem hafa stundað sjálfstæðan verslunarrekstur. Hinir síðarnefndu aðilar hafa á hinn bóginn hvergi látið deigan síga og krafist aukins frelsis í verslunarrekstri. Um þetta hefur staðið látlaus pólitískur styr í heilan mannsaldur. Þau átök náðu hámarki, þegar skömmtun, verðlagshöft og innflutningsleyfi voru í algleymingi á fyrri hluta þessarar aldar og aftur í tíð fyrri vinstri stjórnar. Með valdatöku viðreisnarstjórnar var mjög rýmkað til í þessum efnum með þeim afleiðingum, að umsvif verslunaraðila jukust stórlega, bæði í fjárfestingu og veltu. Andstæðingum svokallaðrar frjálsrar verslunar, bæði þá og áður, hefur mjög vaxið í augum viðgangur verslunarinnar sem slíkrar og gert sér ýktar hugmyndir um hagnað af viðskiptum og talið, að með ástandinu í verslunarmálum endurspegluðust í hnotskurn gallar hins kapítalíska kerfis. Af þessum ástæðum m. a. hefur frjáls innlend verslun aldrei notið sannmælis, hvorki sögulega né pólitískt.

Vegna hinna sjálfvirku tengsla, sem á milli kaupgjalds og verðlags hafa verið, hefur verkalýðshreyfingin í kjarabaráttu sinni mjög beint athygli sinni og sinna umbjóðenda að verðlagsþróuninni og í áróðri sínum lagt áherslu á þá kenningu, að kaupgjald þurfi óhjákvæmilega að hækka svo og svo mikið vegna fyrri hækkana verðlags. Því dæmi hefur sjaldnast verið snúið við, enda þótt þessir sömu aðilar neyðist nú til að viðurkenna og samþykkja ýmiss konar verðlagshækkanir, sem séu óhjákvæmilega afleiðingar kaupgjaldshækkana. Ég skal ekki gera þetta frekar að umtalsefni, en ég minni aðeins á þetta til þess að draga fram, að meðal vissra stétta í þjóðfélaginu, einkum á meðal launþega, því miður, hefur verið sáð frækornum tortryggni og andúðar í garð verslunarstéttar og alið á þeirri hugsun, að þar græði menn í skjóli óheiðarleikans og þrífist á illa fengnum milliliðagróða. Sú rótgróna tortryggni og íhaldssami hugsunarháttur, sem því miður á sér, eins og fyrr segir, nokkuð sterk ítök í ýmsum launþegafélögum, einkum þó í hinni pólitísku forustu þeirra, átti stærsta þáttinn í því, þegar meiri hl. þingheims snerist gegn frv., sem gerði ráð fyrir rýmkun í verðgæslu og eftirliti með samkeppnishömlum. Frv., þessa efnis var borið fram á þinginu 1969–1970, og miðaði það tvímælalaust til mikilla bóta fyrir verslunarstéttina sem slíka, en þó ekki síður fyrir neytendur og þar með launþega. Það frv. var að mínu mati spor í þá átt að skapa hér eðlilegt, tiltölulega frjálsara ástand í verðlags- og viðskiptamálum í samræmi við það, sem fyrir löngu þykir sjálfsagt á Vesturlöndum. En með því að fella nefnt frv. situr enn við það sama: áframhaldandi taugastríð milli eigenda og starfsmanna, óeðlileg og misskilin afskipti verðlagsnefndar, skertir möguleikar viðskiptafyrirtækja til bættrar þjónustu, óánægja viðskiptavina og einskis virt sjónarmið neytenda. Ákvarðanir um verðlag eru enn notaðir sem bitbein í alls óskyldum vopnaleik aðila vinnumarkaðarins, án þess þó að það hafi raunverulegt gildi fyrir hvorugan aðilann, auk þess sem sjónarmið neytenda eru þannig fyrir borð borin af fullkominni óskammfeilni.

Af orðum mínum má nú ljóst vera, hvaða afstöðu ég hef til núverandi verðlagskerfis. Mér hefur verið og er það áhugamál. ef takast mætti að gera bar breytingar á. Mér er engu að síður nokkuð ljóst, að þeir flokkar, sem nú sitja að völdum, eru ekki reiðubúnir til þess að beita sér fyrir þessum breytingum. Pólitísk skilyrði virðast ekki vera fyrir hendi, illu heilli, til endurbóta í verðlags- og verðgæslumálum. Ég hef af þessum sökum ekki gerst talsmaður þess að svo stöddu að endurflytja frv. frá 1969 um verðgæslu og eftirlit með samkeppnishömlum, en ég hef hins vegar freistað þess að bera fram frv., er lýtur að eftirliti með einokun, hringamyndun og samkeppnishömlum. Ég tel að sá þáttur málsins gæti átt fullt erindi í sérstöku frv., enda víða erlendis svo, að um eftirlit með einokun o. fl. gilda sérlög og sérreglur.

Þegar ég nú flyt þetta frv., vildi ég vekja athygli á því, að hér er fyrst og fremst gerð tilraun til þess að koma til móts við neytendur og hagsmuni þeirra. Í þessu frv. á að felast aukin vernd fyrir neytendur. Þetta er neytendafrv. Á síðari árum hefur skilningur farið vaxandi á þörfum og kröfum neytenda. Fram til skamms tíma höfðu menn einblínt á hina fjárhagslegu eignaraðild verslunarrekstrarins og velt fyrir sér mismunandi álagningu og rekstrarformi með hliðsjón af arðsemi. Það gleymdist of oft, að verslun er þjónusta, sem ekki er rekin vegna eigandans, heldur fyrir viðskiptavininn. Það er í þágu neytandans, sem þjónustan er bætt, ef samkeppni þrífst með eðlilegum hætti og aðhald skapast af þeim sökum. Einokunarfyrirtæki þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, hvort þjónusta sé góð eða varan aðgengileg. Neytandinn neyðist til þess að kaupa, hvort sem honum líkar betur eða verr. Einokunarfyrirtækið þarf ekki að velta fyrir sér, hvort verðlag vörunnar sé hærra eða lægra, ef önnur vörutegund eða önnur þjónusta er ekki til samanburðar. Samkeppni á heilbrigðum grundvelli leysir slíkt af sjálfu sér.

Í nálægum löndum hefur samtökum neytenda vaxið mjög fiskur um hrygg. Þau samtök veita fyrirtækjum sterkt aðhald um gæði, verð og vöruúrval. Þau eru sterkasta eftirlitið með vöruverði og álagningu, og heilbrigð samkeppni markaðarins hefur skapað neytendum aðstöðu til að beita áhrifum sínum þannig, að þjónustufyrirtækin þurfa að taka þar fullt tillit til. Slíkt er þó ekki unnt, nema löggjöfin standi með neytandanum og verndi hann gegn samkeppnishömlum, einokun og hringamyndun.

Með vaxandi fjármagni og umsvifum stórra fyrirtækja hefur skapast aukin hætta á einokunaraðstöðu slíkra fyrirtækja. Hér er einkum um að ræða fjölþjóðleg fyrirtæki, sem teygja út anga sína í ýmsum myndum í skjóli markaðsbandalaga og fríverslunar. En sama hætta er auðvitað fyrir hendi, þótt í smærri stíl sé, innan landamæra hvers ríkis og jafnvel á einangruðum markaði. Slík einokunaraðstaða stríðir gegn lögmáli samkeppninnar og þeim sjónarmiðum, sem liggja þar til grundvallar. Þeim, sem berjast fyrir frjálsri verslun, á að vera ljóst og þeir eiga að átta sig á þeirri hættu, sem þessu er samfara. Verslunarfrelsi stafar jafnt hætta af hringamyndun og duldum samkeppnishömlum kapítalískra stórfyrirtækja sem óeðlilegum afskiptum hins opinbera. Með flutningi þessa frv. hef ég viljað leggja áherslu á þá skoðun mína, að frjáls verslun geti því aðeins þrifist, að menn séu á varðbergi gagnvart þessu hvoru tveggja. Einokun er jafnóæskileg, hvort heldur hún er í nafni ríkis eða auðhrings.

Þetta frv. ber með sér, að við samningu þess hefur verið höfð hliðsjón af frv. um verðgæslu og samkeppnishömlur, sem lagt var fram sem stjfrv. 1969. Sömuleiðis hefur frv. að einhverju leyti verið sniðið eftir frv. um neytendavernd, sem á sínum tíma var samið á vegum viðskrn. Má jafnvel vera, að einhver ákvæði þessa frv. hafi verið fengin nánast orðrétt að láni úr þessum fyrrnefndu frv., og eru þá höfundar þeirra beðnir velvirðingar á því.

Frv. þetta mun ekki valda neinum umbrotum. Það kveður ekki á um blátt bann við einokun eða hringamyndunum, heldur gerir ráð fyrir eftirliti með slíkri starfsemi. Frv., ef að lögum verður, á að stuðla að sanngjörnum samkeppnisháttum og koma í veg Fyrir skaðleg áhrif óæskilegra viðskiptahátta. Gert er ráð fyrir, að sett verði á fót sérstök n., sem kölluð er viðskiptaháttanefnd, sem hafi nefnt eftirlit með höndum. N. samkv. frv. skal vera skipuð þrem mönnum, en ég vil taka fram, að bæði fjöldi og tilnefningar í n. er umdeilanlegt og gæti verið til athugunar, ef frv. verður skoðað ofan í kjölinn. N. skal halda skrá yfir fyrirtæki, sem geta kallast mikilsráðandi eða markaðsráðandi, og eru þessi fyrirtæki tilkynningarskyld um allar ákvarðanir og viðskiptaskilmála. Ef þessi tilkynningaskylda er ekki virt, eru allir slíkir skilmálar og ákvarðanir ógildar. N. hefur ekki dómsvald, en hún hefur frestunarvald, og með fyrirmælum getur n. breytt eða ógilt að nokkru eða öllu samninga, samþykktir eða aðrar ákvarðanir, sem teljast hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Fyrirmæli n., eins og fyrr segir, hafa í för með sér frestun á framkvæmd samninga, en aðili getur skotið málinu til dómstóla, ef hann vill ekki una niðurstöðu n. Fram er tekið í frv., að samkeppnishömlur teljist skaðlegar, þegar þær hafa ósanngjörn áhrif á verðmyndun og atvinnustarfsemi frá þjóðfélagslegu sjónarmiði eða koma í veg fyrir bestu hagnýtingu í framleiðslu, vörudreifingu eða þjónustu.

Herra forseti. Mér er ljóst, að þetta frv. hefur á sér vissa annmarka. Annars vegar má gagnrýna frv. vegna þess, að það gangi of skammt í þá átt að refsa fyrirtækjum og koma í veg fyrir einokunarstarfsemi. Hins vegar má finna því til foráttu, að hér sé enn einn opinber aðili, sem sé með nefið ofan í rekstri fyrirtækja. Hvort tveggja má til sanns vegar færa. Ég er þó þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða mál. sem tekið verði mun fastari tökum og verði að taka fastari tökum innan mjög fárra ára, ef ekki á að stefna í hreint óefni. Slík löggjöf er óhjákvæmileg til verndar heilbrigðri samkeppni og hagsmunum neytenda. Til þess þarf eftirlit, og það eftirlit á einmitt að vera í höndum verslunar- og neytendasamtakanna sjálfra. Á þeim brennur eldurinn. Þeim er málið skyldast, og þar er skilningurinn ríkastur. Þetta frv., ef að lögum verður, gæti verið fyrsta skrefið í þessa átt. Það spor verður að stíga varlega, það verður að njóta skilnings viðkomandi aðila og vera sameiginlegt áhugamál allra þeirra, sem hafa hagsmuna að gæta. Af þeirri reynslu, sem fengist af þessum fyrsta áfanga, værum við betur undirbúin fyrir þann næsta.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.