22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er samkv. íslenskum stjórnarvenjum og stjórnarháttum mjög fátítt, að skipaðar hafi verið rannsóknarnefndir samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar eða samkv. þeirri gr., sem samsvaraði henni áður. Ég man ekki í svipinn eftir nema tveimur eða þremur tilvikum. Og það má vel vera rétt hjá hv. 2. þm. Vestf., að þær till. hafi aðallega verið fluttar af stjórnarandstæðingum. Þó hygg ég, að í fyrsta skipti sem samþ. var till. af þessu tagi, þ. e. um svokölluð Landsbankamál á sínum tíma, þá hafi verið komið dálítið los á flokkaskipunina og þeir verið orðnir nokkuð lausir í rásinni, sem áður voru fylgismenn þess ráðh., sem þeir fluttu nú till. um rannsókn á.

Hitt er rétt, að það hafa nokkrum sinnum komið fram á Alþ. till. um slíkar rannsóknarnefndir, en þær hafa yfirleitt verið felldar. Það má vel vera, að þeir stjórnarhættir, sem við höfum farið eftir hér, verið gallaðir. Það getur vel verið, að við hefðum átt að grípa til og nota meira sérstakar rannsóknarnefndir í ýmsum tilfellum en átt hefur sér stað. Fyrirmyndina að þessum rannsóknarnefndum þekkjum við. Hún er komin úr bandarísku stjórnarfari. Þar hefur sá háttur komist á að nota mikið rannsóknarn. og þykir ekki tiltökumál þar í landi, þó að rannsóknarn. sé skipuð, og sjálfsagt má margt gott um þær rannsóknarn. segja. Samt verð ég að draga í efa, að reynslan af þeim sýni, að það yrði til bóta fyrir íslenskt stjórnarfar að fara að innleiða þær hér í stórum stíl. Ég held, að við með okkar rannsóknaraðferðum, okkar hlutlausu dómstólum höfum yfirleitt betri aðstöðu til þess að leiða hið sanna í ljós og með minni auglýsingablæ en á sér stað um rannsóknarn, þær, sem tíðkast í Bandaríkjunum. Ég efast satt að segja um, að þegar menn hugsa það mál til hlítar, þá óski þeir eftir því að taka hér upp svipaða stjórnarhætti í þessum efnum og þar tíðkast. En allt má þó athuga, og e. t. v. er rétt að breyta til og taka upp aðra hætti í þessu efni en tíðkast hafa og fara að gera það oftar en gert hefur verið að skipa rannsóknarn. af Alþ. sjálfu til þess að fylgjast með því, sem gerist í opinberri sýslan.

Einhver hv. ræðumaður sagði áðan, að það væri mörg þokan yfir opinberri stjórnsýslu, og vel má vera, að svo sé, og vel má vera, að það hafi oft verið ýmisleg þoka þar yfir og það hefði getað greitt eitthvað úr og verið hægt að sjá í gegnum skýjaflóka, ef rannsóknarn, hefði verið skipuð og látin kanna það allt.

Ég er í sjálfu sér ekki svo mjög andstæður því að breyta til um stjórnarhætti í þessum efnum, og ég hef látið í ljós áður á Alþ., og ég hef látið það í ljós utan Alþingis, að það gæti verið ástæða til þess að nota rannsóknarn, meira en gert hefur verið. En ég verð þó að segja, að ég held það væri skynsamlegt að gera það í hófi og ganga ekki eins langt í því efni og t. d. Bandaríkjamenn hafa gengið, sem ég held að hafi farið þar út á hálan ís og orðið til þess, að hróður þeirra hafi ekki aukist svo mjög af.

Þáltill., sem hér liggur fyrir, er um rannsóknarn. á framkvæmd landhelgisgæslu út af Vestfjörðum á tímabilinu frá 15. okt., og hefur verið talað nokkuð um landhelgisgæslu almennt af þeim hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað áður og vikið að því, að það væri ástæða til að láta fara fram rannsókn á framkvæmd gæslunnar allt s. l. ár, — ekki hafa þeir nú viljað fara lengra aftur í tímann en s. l. ár, — og í kringum landið allt, og hafa látið að því liggja, svo að ekki sé of sterklega til orða tekið, að slælega hafi verið haldið á þeim málum.

Ég ætla að víkja svolítið að því síðar, hvort slík orð séu réttmæt í garð þeirra manna, sem einn hv. ræðumaður áðan nefndi okkar bestu löggæslumenn. Það er nú önnur saga, en ég ætla fyrst, af því að það hefur verið talað dálítið almennt um Landhelgisgæsluna, að rifja það upp, hver verkefni hennar eru. Ég held nefnilega, að menn geri sér ekki ávallt grein fyrir því, hve víðtæk verkefni Landhelgisgæslunnar eru, og ég held, að þeir einblíni stundum um of, — og það er kannske skiljanlegt, að þeir hafi gert það s. l. ár, — á það hlutverk hennar, sem er vitaskuld nr. 1, að gæta landhelginnar. En jafnvel þetta ár hefðu menn átt að minnast þess, að annað hlutverk hefur hún einnig. Menn hefðu átt að minnast atburðanna við Vestmannaeyjar a. m. k. og minnast þess starfs, sem hún vann í því sambandi samkv. því, sem henni var skylt eftir lögum. Og það gæti kannske orðið skiljanlegt einhverjum mönnum, að á því tímabili a. m. k. ef rannsóknin ætti að ná til ársins alls, hefði slaknað á vörslunni.

En það eru til lög um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 frá 1967, og í 1. gr. þeirra laga eru talin upp verkefni Landhelgisgæslunnar. Það er reyndar sagt þar, sem allir vita, að Landhelgisgæslan er sérstök ríkisstofnun og sjálfstæð ríkisstofnun með sínum forstjóra, þó hún lúti eins og aðrar ríkisstofnanir að sjálfsögðu undir tiltekinn ráðh. Og þarna eru talin verkefni hennar, þau eru:

a) Að hafa með höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi.

b) Að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi, svo og að annast aðkallandi sjúkraflutninga, ýmist á eigin spýtur eða í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands eða aðra aðila, sem að björgunarstörfum vinna.

c) Að aðstoða eða bjarga bátum eða skipum, sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó við Ísland, ef þess er óskað.

d) Að veita afskekktum stöðum eða byggðarlögum nauðsynlega hjálp og aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast af ófyrirsjáanlegum orsökum, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða annarra náttúruhamfara.

e) Að sjá um sjómælingar og taka þátt í hafrannsóknum og fiskirannsóknum, botnrannsóknum svo og öðrum vísindastörfum, eftir því sem ákveðið kann að vera hverju sinni.

f) Að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti, sem sjófarendum eða almenningi getur stafað hætta af.

g) Að aðstoða við framkvæmd almannavarna, almennrar löggæslu, lækna-, toll- og vitaþjónustu, eftir hví sem aðstæður leyfa eða ákveðið kann að verða sérstaklega.

h) Að tilkynna tafarlaust Skipaskoðun ríkisins, ef vart verður við, að brotin eru lög um eftirlit með skipum eða brotnar eru reglur, sem settar eru samkv. þeim, eða telji hún ástæðu til að ætla, að skip sé ekki haffært.

Eins og menn sjá af þessari upptalningu, eru það engin smáræðisverkefni, sem Landhelgisgæslunni eru ætluð. Og þegar menn jafnframt hafa það í huga, hversu mörg skip og margar flugvélar henni hafa verið fengnar til umráða, geta menn nú kannske afsakað það, ef velvilja er beitt, að stundum verði því ekki við komið að rækja öll þessi störf alveg eftir strangasta lagaboði, því að þarna er í mörg horn að líta. Og ég held, að það sé alveg ástæðulaust að fárast yfir því, þó að varslan sé verkefni Landhelgisgæslunnar nr. 1, að hún dragi bjargþrota skip til hafnar, að hún bjargi mönnum úr sjávarháska, að hún aðstoði bát, sem er með bilaða vél, til að komast til hafnar. Ég held jafnvel, að eftir hugsunarhætti okkar Íslendinga mundum við flestir hverjir telja þetta verkefni, sem ætti að setja ofar öllum öðrum, að bjarga, og hvað sem því líður, að einhverjir sjómenn tali kuldalega um Landhelgisgæsluna, þá hygg ég, að það yrði almennara, ef til þeirra yrði leitað, að þeir skildu og vildu viðurkenna og meta einmitt þessa hliðina í starfsemi Landhelgisgæslunnar. Ég er ekki í neinum vafa um það, að margir eiga henni nokkra skuld að gjalda í þessu efni, og ég er sannfærður um, að langflestir sjómenn viðurkenna þetta og meta. En það er auðvitað mál, að eitt varðskip getur ekki sinnt í einu mörgum störfum, og þegar það þarf að sinna starfi eins og þessu, getur það þurft að hvarfla frá vörslunni.

Eins og ég sagði áðan, var það auðvitað og vita allir, að Landhelgisgæslan og varðskipin voru mjög upptekin á sínum tíma í sambandi við ósköpin í Vestmannaeyjum, og það var ekki nema eðlilegt, að þau tefðust þá nokkuð frá vörslustörfum, og ég held, að allir landsmenn hafi skilið það eða langsamlega flestir. En miðað við það, hve verkefnin eru mörg og við hvílíkt ofurefli Landhelgisgæslunni hefur verið ætlað að fást á þessu liðna ári, þá held ég, að það þyrfti ekki að undra neinn, þó að það hefðu komið fyrir einhver mistök, — já, mannleg mistök, hjá þeim mönnum, sem að landhelgisgæslunni vinna, og hjá þeim mönnum, sem þessum málum eiga að stjórna Ég get búist við því, að þau hefðu getað átt sér stað hjá flestum hv. alþm., ef þeir hefðu átt að standa í sporum þessara manna á þessu liðna ári.

Ég get vikið að því, af því að það er sérstaklega miðað í till. við ákveðið tímabil, þ. e. a. s. tímabilið frá 15. okt., að í einni blaðafregninni sá ég, að það var heldur sneitt að Landhelgisgæslunni fyrir það, að eitt varðskipið lægi á Þingeyri við að ferma einhvern flutning þar, það væri ekki að sinna gæslustörfum, og hitt var víst að draga eitthvert skip til lands. (Gripið fram í.) Já, það var á Þingeyri, og það var þar samkv. tilmælum frá mér, tilmælum um að taka 12 lestir af fóðurbæti og flytja til bónda á Hrafnabjörgum við Arnarfjörð, sem býr við þá staðhætti, að hann hefur engar samgöngur nema á sjó. Ég veit, að hv. 3. þm. Vestf. kannast við þessa aðstöðu og skilur hana. (Gripið fram í.) Já, og satt að segja býst ég við, að það séu býsna margir hv. alþm. hér í salnum, sem hafi endrum og eins leitað til Landhelgisgæslunnar um ýmiss konar fyrirgreiðslu, jafnvel um flutning á sjálfum sér. Og það hefur verið reynt að verða við slíkum tilmælum, a. m. k. í minni tíð og ég efast ekki um í tíð fyrirrennara minna, eftir því sem aðstæður hafa leyft og fært hefur þótt. Þetta kalla menn snatt, en þetta er nú fyrirgreiðsla samt, sem menn ætlast til, að Landhelgisgæslan inni af höndum og hún hefur innt af höndum áratugum saman, hlotið þakkir og ævilanga vináttu, veit ég, manna, sem hafa búið á hinum afskekktu býlum, sem varðskipin hafa haft samband við.

Þessi till. fjallar sérstaklega um rannsókn á framkvæmd Landhelgisgæslunnar á ákveðnu tímabili, frá 15. okt. Nú má vel vera, að þessa till. mætti skilja svo, að henni væri beint að Landhelgisgæslunni, sem venjulega er svo kölluð, þ. e. a. s. starfsliði Landhelgisgæslunnar, fyrst og fremst forstjóra hennar og öðru starfsliði í landi og svo skipshöfnum og áhöfnum flugvélanna, en að ég og dómsmrn. væru þar undanskilin, vegna þess að að mér er ekki þarna sérstaklega vikið né dómsmrn., og það er a. m. k. ekki í daglegu tali tíðkað að telja þessa aðila til Landhelgisgæslunnar. Ég hefði skilið það vel ef menn hefðu talið, að einhver mistök hefðu átt sér stað hjá mér, að þeir hefðu viljað láta fara fram rannsókn á því. Hitt finnst mér, og ég verð að segja það alveg eins og er, dálítið köld kveðja, helst til köld kveðja til þessara Íslands bestu löggæslumanna, eftir að þeir hafa átt við ofurefli að etja um ár og meira þó og gengið svo vel fram að mínum dómi, að það hefur sýnt sig, að það hefur verið valinn maður í hverju rúmi, og komið þannig fram í starfi, að ég tel og hika ekki við að halda því fram, að þjóðin öll standi í þakkarskuld við þessa menn, sem hafa dag hvern og nótt lagt líf sitt í hættu og hafa getað átt von á því, að slys yrði á þeim, hvenær sem væri, og við þetta og þessa áhættu hafa þeir og þeirra fjölskyldur mátt búa. Ég hugsa, að það geri ekki allir hv. alþm. sér grein fyrir því, hvernig þetta ár hefur verið, sem átökin hafa staðið. Það hefur líka sjálfsagt reynt talsvert á forstjóra Landhelgisgæslunnar. Hann hefur þurft að hafa síma við rúmið sitt bæði dag og nótt, hann hefur átt von á því og mátt eiga von á því, hvenær sem er, að vera vakinn upp við váleg tíðindi. Ég hef af sömu reynslu að segja. Ég hef haft síma við rúmið mitt dag og nótt, og ég hef alltaf mátt eiga von á því að vera vakinn upp við það, að eitthvert slys hafi átt sér stað. Ég held þess vegna, að þegar þessari alvarlegu sennu, sem hefur staðið á Íslandsmiðum s. l. ár og vel það, er þó að ljúka með vopnahléi, þá hefði verið ástæða til þess fyrir hv. Alþ. að senda frá sér ályktun með sérstöku þakklæti til þessara hermanna okkar, sem hafa staðið í fremstu víglínu í þessari örlagaríku baráttu okkar. Ég held, að þá kveðju hefðu þeir skilið og metið. Ég held, að þá kveðju hefði þjóðin skilið og metið.

En hvað um það. Þó að ég kunni ekki að falla undir þessa till. samkv. orðanna hljóðan, þá hef ég ekki það geð, að ég ætli að skjóta mér á bak við mína undirmenn. Ég mun reyna að bera ábyrgð á því, sem mér er ætlað að bera ábyrgð á, og ekki biðjast undan því og ekki leita skjóls með því að ætla að fara að varpa yfir á aðra einhverjum mistökum, sem kunna að hafa átt sér stað, kunna að eiga rætur sínar hjá mér, kunna að eiga rætur sínar hjá undirmönnum. Hver getur ábyrgst það, og hver vill segja það og fullyrða það, að engin mistök hafi átt sér stað í þessu efni? Mér dettur ekki í hug að gera það. Ég mun aldrei skjóta mér á bak við aðra. Ég veit, að hv. 3. þm. Vestf. skilur þann hugsunarhátt. Þess vegna tel ég sjálfsagt, að sú rannsókn, sem hér er um að tefla, ef fram verður látin fara, beinist að afskiptum dómsmrn. og dómsmrh, af þessum málum. Og að sjálfsögðu hef ég ekkert á móti því, þó að till. verði gerð víðtækari, eins og sumir hv. þm. hafa verið að bera fram óskir um, og hún látin ná til ársins alls og allra þeirra atburða, sem hér hafa átt sér stað á miðunum, ef mönnum sýnist viðeigandi að hafa þann háttinn á að setja þessa starfsmenn íslenska ríkisins eina, en ekki aðra, undir slíka sérstaka rannsókn. Það er áreiðanlega víða pottur brotinn í stjórnkerfinu íslenska. Það gæti verið ástæða til þess að skipa fleiri rannsóknarn., og er kannske full ástæða til þess að athuga ýmis slík atriði. En mér finnst það skjóta skökku við að ætla að taka þetta fyrst, það verð ég að segja.

Ég hef haft þann háttinn á, sem ég taldi eðlilegan, eftir að þessar ásakanir bárust, sérstaklega frá Vestfjörðum, að láta rannsaka það svo vel og á þann hátt, sem ég taldi bestan, hvað hæft væri í þessum ásökunum og við hvað þær hefðu að styðjast, og það hafa verið teknar skýrslur af allmörgum skipstjórum á Ísafirði og Patreksfirði. Þær skýrslur liggja nú fyrir, og þær skýrslur verða að sjálfsögðu afhentar hv. allshn., sem þetta mál fær til meðferðar. Í þessum skýrslum er ekki nafngreint eitt einasta varðskip, það geta þessir skipstjórnarmenn ekki gert en samt er það svo, að af því að Landhelgisgæslan hefur reiður á því, hvar skipin eru á hverjum tíma, er hægt að finna það út, hvaða varðskip hafi verið stödd við Vestfirði á þessum tíma, og er ætlunin að taka skýrslur með sama hætti af varðskipsmönnunum, varðskipsforingjunum. Það hefur ekki verið hægt enn þá, nema þá að litlu leyti, vegna þess að þeir hafa verið bundnir við sín störf, og það verður þess vegna að sæta lagi, þegar þeir koma til hafnar og taka þá af þeim skýrslurnar. Þegar hv. allshn. hefur fengið þessi gögn til meðferðar og lítur yfir þau og les þau og kynnir sér þau rækilega, kynnir sér, hver, t. d. samdi það plagg, sem hv. 2. þm. Vestf. las hér upp áðan, kynnir sér tengslin á milli þeirra manna tveggja, sem undir það hafa skrifað, og stöðu þeirra að öðru leyti og hvaða kynni hafi verið á milli a. m. k. annars þeirra og Landhelgisgæslunnar, og þegar allshn. hefur einnig kynnt sér þau gögn, sem koma frá Landhelgisgæslunni, þá hygg ég, að henni reynist ekki erfitt að rekja þræðina og sjá söguna, sem þarna er.

Landhelgisgæslumennirnir eru okkar bestu löggæslumenn, var sagt. Við eigum marga góða löggæslumenn, en látum svo vera, að þeir séu þeir bestu. En jafnvel bestu löggæslumennirnir komast ekki hjá því að taka stundum á ýmsum mönnum, koma hart við þá, og það er nú svo, að því er ekki alltaf svarað af sérstöku vinarþeli, a. m. k. ekki fyrst í stað, þannig að það er ekki af öllum alltaf borið jafnhlýtt hugarfar til löggæslumanna, sem rækja skyldu sína vægðarlaust. Þetta verðum við líka að hafa í huga, þegar þessi mál eru skoðuð.

Ég ætla ekki að fara að lesa þessi plögg upp hér, og ég ætla ekki að fara að hafa út af þeim neinn málflutning, vegna þess að ég tel það algeran óþarfa. Ég tel, að þau skýri sig algerlega sjálf, ef þau eru athuguð af nægilegri gaumgæfni, og ég vona, að hv. allshn. komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hún hefur athugað þessi gögn og þau önnur gögn, sem hún mun fá hjá

Landhelgisgæslunni, að það sé ekki nein ástæða til sérstakrar rannsóknar á því, sem hér er um að ræða, og ekki ástæða til skipunar neinnar sérstakrar rannsóknarnefndar.

Ég vil taka það fram, að það skal ekkert á skorta af hálfu dómsmrh. og dómsmrn., að hv. allshn. fái þau gögn í hendur í þessu sambandi, sem hún óskar eftir. Og ég efast ekki um, að bæði starfsmenn rn. og starfsmenn Landhelgisgæslunnar séu þess albúnir að mæta hjá hv. allshn., hvenær sem er, og gefa henni þær upplýsingar, sem hún kynni að óska eftir.

En ef hv. allshn. telur sig ekki geta gengið úr skugga um, hvað rétt er í þessu efni, og telur þörf á sérstakri rannsókn til þess að leiða sannleikann hér í ljós, þá er sjálfsagt, að hún geri till. um það, og ef meiri hl. hv. Alþ. er sömu skoðunar, þá er sjálfsagt, að það geri það. Ég mun ekki taka það illa upp að gangast undir slíka rannsókn, og mín vegna má rannsóknin ná til ársins alls og taka til þess, sem gerst hefur hvarvetna á miðum í kringum landið. Ég tel, að ég hafi hér ekkert að fela, og ég tel, að starfsmenn Landhelgisgæslunnar, jafnt forstjóri og skipherrar, geti gengið kinnroðalaust fyrir hvern sem er, hvaða rannsóknarn. sem er og skýrt þar frá og þurfi engu að leyna, og ef meiri hl. Alþ. hefur þá tortryggni í garð þessara manna eða til okkar, sem höfum farið með æðstu stjórn þessara mála, þá er sjálfsagt að skipa slíka rannsóknarn., en þá vil ég bæta við, að þá vona ég, að hv. Alþ. verði sjálfu sér samkvæmt og skipi fleiri rannsóknarnefndir á eftir.