22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég stend hér einkum upp vegna villandi aths., sem fram komu hjá hv. fyrirspyrjanda, 3. þm. Sunnl., Guðlaugi Gíslasyni.

Eins og fram hefur komið í þessum umr., var gerð samþykkt hinn 6. nóv. s. l. í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, þar sem framkvæmdaráði var heimilað að veita allt að 6% lán til þessara skipakaupa. En eins og ævinlega, þegar þannig stendur á, eru slíkar ákvarðanir teknar miðað við það, að málið verði nánar athugað, áður en endanleg ákvörðun sé tekin, og þetta var því alls ekki endanleg afgreiðsla málsins. Það er því alrangt, að kaupendur hafi getað reiknað með þessum lánum. Þetta var raunverulega innanhúsákvörðun, sem alls ekki var til birtingar, og kaupendum var ekki ætlað að vita það, að framkvæmdaráðið hefði fengið heimild til að athuga málið enn frekar og taka endanlega afstöðu til þess. Framkvæmdaráðið átti m. a. að kynna sér, hver hefði verið afstaða ríkisstj. til málsins, hvort hún hefði beinlínis óskað eftir því, að þessi lán yrðu veitt eða ekki, því að fullnægjandi upplýsingar lágu ekki fyrir á viðkomandi fundi. Framkvæmdaráðið athugaði síðan þetta mál í millitíðinni, og milli funda gafst stjórnarmönnum kostur á að skoða málið nánar.

Það er rétt að rifja upp, að í byrjun þessa árs var tekin ákvörðun um það að hætta við sjálfvirkar lánveitingar til fiskiskipakaupa, eins og áður höfðu verið, vegna þess að þær tóku allt of stóran hluta af ráðstöfunarfé sjóðsins. Á s. l. ári voru veittar 480 millj. til ýmissa nota af hálfu sjóðsins og þar af runnu 337 millj. til fiskiskipakaupa, og menn voru sammála um, að á þessu sviði yrði að verða stefnubreyting og að ekki yrði lengur um sjálfvirk lán að ræða, alls ekki nein sjálfkrafa 5% lán og ekki lánað inn á höfuðborgarsvæðið eða nánar tiltekið til Reykjavíkur eða Reykjaneskjördæmis.

Það lá einnig fyrir, að þarna mundi verða um allmörg skip að ræða, í þessu tilviki væntanlega 8–9 skip. Miðað við 8 skip hefðu þetta orðið um 60 millj. kr. og margt bendir til, að í kjölfarið fylgdu kannske önnur 8 skip eða jafnvel önnur 16 skip, þannig að þarna yrði um mjög stóra upphæð að ræða fyrir Byggðasjóð. Niðurstaðan varð sú, að í þessu tilviki væri ekki um jafnríkt byggðamál að ræða og þegar um er að ræða t. d. kaup á skuttogurum og af því ætti ekki að lána nema 2% lán. Þetta er hin endanlega afstaða Framkvæmdastofnunarinnar til málsins.

Ég vil taka það fram að lokum, — ég skal ljúka máli mínu herra forseti, — að ég hef persónulega ekkert á móti því, að keypt séu mörg loðnu- og síldarskip til landsins, og tel það ágætt, ef þeir gera það, sem til þess hafa fjármagn. En ég er þeirrar skoðunar, eins og margir aðrir, að það sé ekki til of mikils mælst að þeir, sem kaupa slík skip, útvegi sjálfir 18% þess fjármagns, sem þarf til skipakaupanna, og að fyrirgreiðsla hins opinbera sé hreint ekki lítil, þegar hún er 82% af kaupverði.