22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

Umræður utan dagskrár

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að taka til máls í sambandi við þetta mál, ekki síst vegna þeirra ummæla, sem hæstv. forsrh. viðhafði áðan varðandi afgreiðslu málsins í Framkvæmdastofnuninni, þar sem hefðu verið mættir varamenn í þetta skipti. Ég vil segja hæstv. forsrh., að það voru fleiri en varamennirnir, sem greiddu atkv. á sama hátt. Hv. þm. Ingvar Gíslason er enginn varamaður. Hv. þm. Benedikt Gröndal er heldur enginn varamaður, og þessir menn tóku sömu afstöðu og varamenn, sem mættir voru, svo að það er ekki til neins fyrir þá, sem vilja reyna að bera blak af þessari afgreiðslu, að ætla að skjóta sér undir það, að það hafi byggst á því, að hér hafi verið eingöngu um varamenn að ræða, sem afgreiddu málið í Framkvæmdastofnuninni.

Hitt vil ég segja, að hér er vitanlega um mikið leiðindamál að ræða, og það er, að ég hygg, algert einsdæmi undir svona kringumstæðum, að slík afgreiðsla eigi sér stað, hvort sem það eru aðalmenn eða varamenn í stjórn Framkvæmdastofnunar, sem samþykkja að veita ákveðna fyrirgreiðslu, þá sé á næsta fundi kippt til baka því, sem lofað var fyrir hálfum mánuði. Ég hygg, að það sé algert einsdæmi, og ég tel. eins og hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að ríkisstj. verði að láta þetta mál til sín taka og sjá til þess, að þessir menn fái á einhvern hátt þá fyrirgreiðslu, sem þeir gátu vænst eftir þá samþykkt, sem var búið að gera hjá stofnuninni.

Ég vil aftur á móti segja í sambandi við málið almennt, að ég get vel skilið, að Byggðasjóður hefur ekki ótakmarkaða peninga til þess að veita í þessu eða öðru skyni, og það verður að horfast í augu við þær staðreyndir. En það er mál út af fyrir sig. Það var samþykkt, eins og hér er búið að vitna til, í jan. s. l., að það skyldi hætta að veita þessi lán sjálfkrafa, eins og talað hefur verið um. En það hefur ekki verið framkvæmt fyrr en nú. Og ég sé ekki það byggðasjónarmið, sem felst í því, í hvert skipti sem beðið er um þessa fyrirgreiðslu í sambandi við skuttogara, að veita hana, að það eigi að ganga fyrir þessum skipum um fyrirgreiðslu, því að vitanlega eru margir staðir úti á landi, sem þurfa á því að halda að geta haldið uppi atvinnulífi, en geta ekki notað skuttogara. Það er hafnaraðstaða og ýmislegt annað. Ef ætti að setja þá út af sakramentinu í þessum efnum bara fyrir það, að þeir geta ekki notað skuttogara, þá er lítið gefandi fyrir byggðasjónarmiðið, sem þessir hv. þm. eru þó að halda fram, að sé þeirra stefna. (Forseti: Tíminn er búinn.) Ég verð að segja það, að það er einkennilegt, ef allt í einu á að taka þetta fyrirkomulag upp hér í Alþ. Hér hafa sumir þm. fengið að vaða með ræðuflutning tímunum saman utan dagskrár. (Forseti: Það er ekki meiningin, að svo verði framvegis.) Það er nákvæmlega sama um þetta og á sér stað hjá stofnuninni. Það er allt í einu klippt þar af og sagt: Nú skal það vera 2%, en var 5% áður. Það var hér í hálftíma áður, en nú skal það vera í tvær mínútur eða þrjár. Þetta eru sömu vinnubrögðin, nákvæmlega sömu vinnubrögðin.

Það er ýmislegt fleira, sem þyrfti vissulega að segja varðandi þessa afgreiðslu og störf stofnunarinnar, og ef hún ætlar að taka upp þann hátt í sambandi við afgreiðslu mála fyrir dreifbýlið úti um allt land, að það megi engir fá þessi 5%, nema þeir byggi skuttogara, þá gef ég lítið fyrir þá byggðastefnu, sem þessi ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir.

Ég vil segja varðandi það, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. var að tala um hér áðan um byggðasjónarmið, að ég veit ekki annað en fyrir örskömmum tíma sé búið að veita þessa fyrirgreiðslu á Reykjanesi fyrirtæki, sem heitir Sjöstjarnan. Hún er nýbúin að fá þessa fyrirgreiðslu á skuttogara, en Hellissandur, sem getur ekki notað skuttogara hjá sér og hefur ekki áhuga á því, sá skipstjóri, sem þar er um að ræða, sem hefur í mörg skipti verið aflahæsti skipstjóri um land allt í margar vertíðir, hann á ekki að fá að kaupa skip, sem hann telur, að passi fyrir sig, og hann ætlar vitanlega ekki að nota eingöngu á loðnu í einn og hálfan mánuð á árinu, eins og loðnuveiðarnar standa yfirleitt yfir, heldur ætlar hann að gera skipið út á aðrar veiðar, eins og hann hefur verið maður til um mörg undanfarin ár.